Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir ágæta umræðu sem hér hefur farið fram. Það er mjög margt gott sem allir, sem hér hafa tekið til máls, hafa lagt til málanna þó að menn séu ekki sammála frekar en fyrri daginn um hvað eigi að leggja til í sjávarútvegsmálum. Það sem hefur að mínu áliti kristallast út í þessum umræðum er að vandinn er auðvitað miklu flóknari en ég lagði upp með hér til að byrja með. Ég taldi í upphafi að vandinn væri a.m.k. tvíþættur. En nú held ég að það sé óhætt að segja að hann sé a.m.k. margþættur.
    Í fyrsta lagi er vandi loðnuskipanna sem við höfum séð hér að undanförnu að verið er að taka á með frv. sjútvrh. Auðvitað deilum við um það hvort þar sé rétt tekið á. Við deilum um það hvort það sé möguleiki að skikka loðnuveiðiskipin sem fá botnfiskveiðiafla til að landa á þeim stöðum þar sem vandinn er fyrir hendi. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað sé það hægt og mundi vilja minna hv. 4. þm. Vesturl., sem kemur nú úr Alþb., þeim ágæta flokki, á það að sá flokkur lagði til hér á sínum tíma að kvótinn yrði einmitt bundinn við byggðir. Hér væri þá kominn vísir að því í þessu tilfelli að við mundum binda kvóta þessara skipa einmitt við þær byggðir sem ættu við þennan vanda að stríða og þá fengju alþýðubandalagsmenn einhverja fullnægju í sinni viðleitni að koma á byggðakvóta. ( Gripið fram í: Kannski fleiri.) Og kannski fleiri. ( SkA: Ég er samþykkur þessu en ég veit um valdakerfið.) Ég skil fullkomlega hvað hv. þm. á við og vissulega sé ég erfiðleikana sem við okkur blasa. En svo fremi einhver okkar sem hér eru inni, sem mér finnst nú vera helst til fáir því mér finnst þetta vera það stórt mál að það komi þingheimi öllum við þó að það snerti sérstaklega vanda þeirra byggðarlaga sem missa loðnuna í þetta skipti, lendir í þessari nefnd er ég sannfærður um að þá mun þessi tillaga koma frá nefndinni. Ég mundi eindregið leggja til að þeir sem fara í þessa nefnd hugi einmitt að þessu.
    Í öðru lagi er vandi verksmiðjanna sjálfra sem missa af loðnunni. Ég veit að í sjútvrn. er að störfum svokölluð bjargráðanefnd sem á að taka til vanda síldarverksmiðjanna, loðnuverksmiðjanna, sem missa af þessum afla væntanlega og það verður leitað leiða til að leysa vanda verksmiðjanna sérstaklega. Verksmiðjurnar sjálfar, Síldarverksmiðjur ríkisins, eru að taka á þessum vanda einmitt þessa stundina. Þær taka á þeim vanda á þann veg að segja upp öllu starfsfólkinu.
    Þá kemur í þriðja lagi vandi verkafólksins sjálfs eins og hv. 4. þm. Vesturl. benti á. Það er vandi verkafólksins sem kemur til með að standa á götunni og hefur enga vinnu. Í því sambandi vildi ég benda á ágætt frv. hv. 4. þm. Norðurl. v. um atvinnuleysistryggingar þar sem er sérstaklega fjallað um rétt starfsfólk í loðnuverksmiðjum, þann sama rétt og starfsfólk í fiskvinnslustöðvum hefur þegar um hráefnisskort er að ræða. Það gengur út á það að þessar vinnslustöðvar geta fengið sem svarar 80% kaups þessa fólks og það er möguleiki á því í verksmiðjunum sérstaklega að halda því að vinnu. Það er margt að gera í loðnuverksmiðjum einnig þegar ekki er um bræðslu að ræða. Það þarf mikið viðhald að koma til og þetta fólk getur þá verið í vinnu án þess að starfa beint að bræðslu. En þetta er ekki mjög heppilegt ástand og ég nefndi hér áðan í minni framsögu að það ætti að huga að því að finna möguleika til að veiða kolmunna.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson, Kristinn Pétursson og fleiri hafa nefnt möguleikana á því að nýta síldarstofninn betur. Það hefur verið hugað að möguleikanum á því að fá norsk skip til að landa hér loðnu. Það er því ýmislegt hægt að gera til þess að fá bræðslufisk í verksmiðjurnar. Því má ekki gleyma að jafnvel þó við gætum fengið bindingu á loðnuveiðiskipin til að landa sínum botnfiskafla á þeim stöðum sem missa af loðnunni, þá er það ekki sama fólkið sem kemur til með að vinna botnfiskinn og það fólk sem annars hefði unnið í loðnuverksmiðjunum. Loðnubræðslufólkið er því eftir sem áður atvinnulaust. Það er því vandi verkafólksins í þriðja lagi sem verður að huga að. Í fyrsta lagi með þeim ráðstöfunum sem hv. þm. Ragnar Arnalds leggur til á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er leitin að kolmunnanum. Það er möguleikinn á síldinni og það er möguleikinn á afla norskra loðnuveiðiskipa í okkar verksmiðjum.
    Þetta gæti bjargað ástandinu. Þetta eru þeir möguleikar sem nefndin, sem við leggjum hér til að sett verði á stofn, ætti að huga að.
    Í fjórða lagi er síðan vandi sveitarfélaganna sjálfra ef þetta gerist allt saman, þ.e. ef loðnuveiðin bregst. Allar þær tekjur sem sveitarfélögin verða af. Þau standa auðvitað uppi með gífurlegan tekjumissi og það eru einmitt sveitarfélög sem ekki eru sterk á svellinu og ekki mega við því að verða af verulegum tekjum sem hér um ræðir.
    Ég átti samtal hér áðan við hv. 6. þm. Norðurl. e. um það efni til hvað nefndar væri rétt að vísa þessari tillögu. Ég skaut því til virðulegs forseta að skera úr um það hvort réttara væri að skjóta þessari tillögu til atvmn. eða til fjvn. eins og gert var hér fyrir níu árum. Við hv. þm. Stefán Valgeirsson urðum ásáttir um það í okkar samtali að réttara væri að skjóta þessu máli til atvmn. Mér sýnast mörg rök hníga að því. Ég heyrði hins vegar á máli hans sjálfs hér áðan, hv. þm., að svipuð virðuleg nefnd, sem starfaði hér fyrir níu árum, gerði einmitt margar og merkar tillögur um fjárútlát, stuðning til hafna, stuðning til sveitarfélaga og stuðning á margvíslegan hátt. Þetta eru auðvitað útgjöld sem taka til fjvn. Að því leyti hníga e.t.v. sterk rök að því að þessi nefnd verði sett á laggirnar að tilstuðlan fjvn. og hún fái að fjalla um það. Ég vil að menn hugi e.t.v. betur að því en eftir sem áður að forseti úrskurði í þessu máli.