Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að fagna þessari umræðu, ekki síst eftir þær skilmerkilegu yfirlýsingar sem tveir ráðherrar hafa gefið hér, ekki ómerkari en sjálfir hæstv. forsrh. og utanrrh. En ég sný mér fyrst lítið eitt að orðum fyrirspyrjanda og síðan kem ég þá frekar að máli hæstv. ráðherra.
    Mér finnst það liggja í augum uppi að þessi fjölþjóðaher sé í rauninni her sjálfra Sameinuðu þjóðanna. Það kemur alveg greinilega fram í orðum hæstv. ráðherra. Við höfum samþykkt öll tilmæli Sameinuðu þjóðanna í þessa átt sem hlutu að leiða til annars hvors: að brjálæðingurinn í Írak, hafa menn kallað hann, ég held að það sé kannski ofsagt, hann er kannski klókur líka, það mátti nú líka segja um Hitler sem var nefndur hér áðan, en aðalatriðið er það að þetta gat ekki endað öðruvísi en annaðhvort yrðu þessi átök sem Sameinuðu þjóðirnar heimiluðu og beinlínis skoruðu á þjóðir heims, þjóðabandalag getur maður nærri því sagt, en þær skoruðu á þjóðir heims að ljúka þessu með einhverjum hætti, og í síðustu ályktuninni, númer 678, vissu allir hvað átt var við að heimiluð væru og hvatt til hverra þeirra aðgerða sem gætu nægt til þess að Írakar færu frá Kúvæt. Þess vegna hlaut styrjöld að verða. Þetta er styrjöld Sameinuðu þjóðanna og þetta er í raun og veru líka okkar styrjöld. Við höfum stutt allar þessar ályktanir, auðvitað með opnum augum. Það gat engum dulist hvert þetta mundi stefna ef stjórnandi Íraks sæi ekki út fyrir sjóndeildarhring sinn sem er æði þröngur. Þess vegna held ég að það þurfi ekkert að deila um það að við berum a.m.k. siðferðilega ábyrgð á þessum átökum, Íslendingar, eins og aðrar frjálsar þjóðir.
    Að því er varðar Tyrki sérstaklega þá er komið í ljós sem allir raunar vissu að þing Tyrklands samþykkti það sem gert hefur verið í því landi. Það samþykkti komu flugflotans og tókst á herðar ábyrgð á því og síðan auðvitað að hlíta reglum Atlantshafsbandalagsins sem hæstv. utanrrh. vék að hverjar væru og það þarf kannski ekki mikið að ítreka það en aðeins benda á, sem hann raunar ekki gerði, benti ekki beint á greinina en í 11. gr. í Atlantshafssáttmálanum segir: ,,Samning þennan skal fullgilda og skulu ákvæði hans framkvæmd af aðilum í samræmi við stjórnlagaákvæði hvers um sig.`` Þ.e. íslenskar reglur og lög gilda að því er varðar þennan samning eins og aðra og við gerum ekki annað en það sem landslög heimila og hafa ákveðið. Ég held að menn þurfi ekki að kvarta mjög undan ágengni Atlantshafsbandalagsins og því síður árangri þess sem er með þeim hætti að ég hef leyft mér að taka enn þá sterkara til orða en hæstv. utanrrh. gerði, ég hef kallað Atlantshafsbandalagið mikilvægasta bandalag mannkynssögunnar og þarf víst ekki að rökstyðja það fyrir þeim sem fylgst hafa með sögunni eftir að farið var að fletta ofan af --- ja, hann var nú ekta brjálæðingur, Stalín, hvað hann ætlaði sér að gera og hans heimafólk hefur lýst því þannig að það vita víst allir hvernig heimsbyggðin hefði orðið ef hann hefði fengið að flæða yfir alla

Evrópu fyrst og svo auðvitað yfir þau lönd sem sérstaklega er verið að ræða um hér núna. Þá gat eiginlega varla leikið á tveim tungum að atómstyrjöld hefði orðið því Rússar höfðu atómvopn á þeim tíma þegar Stalín var við völd. Njósnarar þeirra höfðu séð til þess. Ég hef margsinnis kallað Atlantshafsbandalagið mikilvægasta bandalag mannkynssögunnar og enginn hefur fram að þessu mótmælt því að svo sé. Ég hefði gaman af að sjá framan í þann sem vildi mótmæla því.
    En sem sagt, þetta stríð sem er auðvitað ógnvænlegt er háð á vegum Sameinuðu þjóðanna, svo ekki sé sterkara tekið til orða, á ábyrgð samfélags þjóða heims, þess samfélags sem við viljum tilheyra og hins vestræna heims þar með sem við erum hluti af.
    Auðvitað hefur hv. þm. Kristín Einarsdóttir sama rétt til þess að hafa skoðanir sínar í friði eða í flimtingum eða á almannafæri, hvernig sem menn líta á það og skoðanir kannski annarra í flimtingum, ég veit það ekki, ég er ekki að ásaka hv. þm. um það og vona þá að ég sé ekki heldur ásakaður um það. En hv. þm. sagði að vopnin hefðu verið látin tala. Hver lét vopnin tala? Svari hver fyrir sig. Erum það við Íslendingar eða samfélag þjóða heims sem loksins hefur áorkað því sem Þjóðabandalagið var stofnað um og síðan Sameinuðu þjóðirnar, að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi í heiminum sem nægilegt var af líka á milli styrjaldanna eins og núna eftir styrjöldina? Þjóðabandalaginu mistókst vegna samstöðuleysis. Sameinuðu þjóðunum hefur oftast mistekist, líka vegna samstöðuleysis, bæði innan þeirra ríkja sem eru meðlimir og líka ríkja sem ekki hafa verið í þessum samtökum. Þjóðabandalagið leið svo kannski fyrst og fremst undir lok vegna þess að þar voru ekki nægilega margir aðilar samtaka.
    Þetta er mikilvægasta tilraun sem gerð er til þess að stöðva þróun sem óhjákvæmilega hlaut að leiða til þess ógnvænlegasta sem við höfum séð frá heimsstyrjöldinni og kannski í allri sögunni, líka því sem áður gerðist í heimsstyrjöldinni, vegna þess að það dettur engum manni það í hug held ég, ekki nokkrum manni, að Hussein mundi ekki hafa haldið áfram að vígbúast ef hann yrði látinn í friði. Eru einhverjir hér inni sem láta sér detta það í hug að hann hefði ekki haldið áfram að fullkomna kjarnorkusprengjuna? Að hann hefði ekki haldið áfram að framleiða meira af eiturvopnum sem hann hefur notað á sína eigin landsmenn, æ ofan í æ? Hann hefur haldið sýnikennslu í því hvernig nota beri þau til þess að engum gæti blandast hugur um að hann ætlaði að nota þau, hvar sem væri og hvenær sem væri, hermdarverk og hvað sem er. Er einhver maður hér inni sem heldur því fram, sem lætur sér detta það í hug að hann hefði hætt ef honum hefði verið leyft að taka Kúvæt? Að hann hefði ekki tekið fleiri lönd og þjóðir? Ég botna ekki í því að það geti verið nokkur maður sem haldi því fram að einhverjir aðrir en hann hafi látið vopnin tala. Það sem aðrir eru að gera er að reyna að stöðva vopnin. Þótt það séu ekkert sérstaklega glæsilegar fréttir sem voru í Washington Times og var

greint frá í útvarpinu, að illa hefði gengið að eyðileggja gjöreyðingartæki hans, þá fylgdi það þó með að búið væri að eyðileggja kjarnorkuverksmiðjurnar og það er ekki lítið. Það er þá a.m.k. búið að koma í veg fyrir að hann nái kjarnorkuvopnum og alla vega helmingnum af eiturvopnunum, ef taka má mark á fréttum sem auðvitað eru óglöggar þegar styrjaldir eru annars vegar og ritskoðun o.s.frv. Og þó einhver ein Arabafjölskylda í útlegð lýsi því svo yfir að að baki Husseins og hans hugsjónum, eða hvað á að kalla það, hans skoðunum, standi Arabaheimurinn. Auðvitað eru til fjölskyldur alls staðar sem bæði af trúarástæðum og öllu mögulegu slíku lýsa málum með einum eða öðrum hætti. Ég ætla ekkert að fara að lýsa því hvað einstakar fjölskyldur segja um þetta. Auðvitað eru tvær hliðar á þessu og fólk sem hefur ákveðnar skoðanir og má hafa þær og sína trú í friði.
    Olíumengunin er auðvitað geigvænleg. En hvað segja menn um olíumengun í samanburði við eiturvopn og kjarnorku? Auðvitað er þetta allt saman skelfilegt, en hve skelfilegt hefði það ekki orðið eftir fimm eða tíu ár ef Sameinuðu þjóðirnar hefðu brugðist frumskyldu sinni að reyna að halda uppi friði og reglu í heiminum, sem gengur nú auðvitað misjafnlega þrátt fyrir það að bestu menn sem starfa í þágu Sameinuðu þjóðanna hafa reynt að fá einhverju áorkað?
    Því miður var ákveðið að hefja stríð. Ég er ekki svo dómbær á það að ég geti sagt hvort það var nákvæmlega á þessu augnabliki eða hvort það var strax í ágúst eða hvort það hafi verið eftir nokkur ár sem nauðsynlegt hefði verið að heyja þessa styrjöld. Og ég veit ekki hvort hv. þm. getur dæmt um að það hafi verið hörmulegt að það skyldi vera hafið akkúrat nú en ekki á einhverjum öðrum tíma því að varla heldur nokkur því fram að meðan þessi maður lifir og hefur völdin í þessu gífurlega stóra og mikla ríki, þá sé friðvænlegt í heiminum. Enda sagði hv. þm. það raunar að Hussein væri óútreiknanlegur. Það erum við víst öll sammála um, hann er óútreiknanlegur og það getur sjálfsagt enginn okkar sett sig inn í hans hugarheim. Það eigum við þingmenn þó sameiginlegt að enginn okkar gerir það.
    Eða að það sé öllum til hagsbóta að stríðinu ljúki strax. Ég er ekki viss um það. Ef ekki er hægt að eyðileggja eiturvopnin áður en styrjöldinni lýkur þá má henni ekki ljúka fyrr. ( ÁHE: En Eyjólfur, hverjir senda honum eiturvopn?) Það er svo allt annað mál, það veist þú sjálfsagt betur en ég. Ég fylgist ekki mikið með gereyðingarvopnum, almennt talað. Ég skal játa það að ég er einhver allra mesti kjáni, ég þekki varla nokkra flugvélategund en treysti bara á það að manni sé borgið í þeim flugvélum sem maður er settur upp í. Það eru margir sem hafa gaman af að þekkja flugvélar og ýmiss konar tól. Það geri ég ekki.
    Að það sé hægt að vinna stríð og tapa friðnum. Ja, ég mundi halda að það yrði friðvænlegra ef þetta stríð ynnist af okkur og þeim öðrum sem beint og óbeint eru aðilar að því.
    Ég þarf kannski ekki miklu að bæta við það sem

ráðherrarnir sögðu. Allt er þetta byggt á réttum reglum, aðdragandinn að þessari styrjöld og henni lýkur vonandi fljótt, það getum við öll verið sammála um. En henni má ekki ljúka fyrr en búið er að sjá til þess að Kúvæt verði aftur frjálst ríki og gereyðingarvopnin horfin. Það mun svo vera með kjarnorkuvopnin sem þeir voru langt á veg komnir með að framleiða og a.m.k. að hálfu leyti með önnur gereyðingarvopn, eiturvopn. Þegar því er lokið þá hugsa ég að allir mundu vilja fá frið, en við getum ekki verið svo bláeyg að óska þess að þessu ljúki þannig að Hussein geti talið sig sigurvegara. Hver yrði þá þróunin á eftir? Ég held að hann verði að fara frá völdum og vopnin, þau hættulegustu og geigvænlegustu, verði að hverfa áður en Sameinuðu þjóðirnar og her þeirra, sem ég kalla svo, hættir sínum athöfnum á svæðinu.
    Það er eins og hæstv. forsrh. sagði réttilega, átökin eru orðin staðreynd. Ég mun álykta sem svo, og það raunar kom fram í orðum beggja ráðherranna, að við verðum að hlíta þeirri staðreynd og þá auðvitað standa við okkar skuldbindingar, standa með öðrum þeim sem vilja að þessum ógnum ljúki og ljúki sem fyrst, en auðvitað með sem minnstu manntjóni en sem allra mestu tjóni, ef tjón skyldi kalla, á hervirkjum, eiturvopnum og kjarnorkuvopnum. Það er ekkert tjón þó að það hverfi af yfirborðinu.
    Að því er varðar starfsemi Atlatnshafsbandalagsins sem hér hefur auðvitað verið dregin inn í þessa umræðu, þá endurtek ég það að það bjargaði heiminum. Atlantshafsbandalagið gerði það og gerir raunar enn og það held ég að við Íslendingar getum verið stoltir af að hafa ekki hikað við að taka þátt í þeim varnarsamtökum. Að vísu er nú að syrta í álinn aftur austan járntjaldsins gamla, en við vonum nú það besta og leggjum okkur fram til þess að sjálfsögðu að ekki verði aftur snúið inn á leið ofbeldis, einræðis og kúgunar í Austur-Evrópu, svo mikið sem áunnist hefur á síðustu árum og missirum. Við hljótum öll að vona að betur fari þar en á horfist og raunar að vel fari líka í Arabaheiminum.