Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir það að þessi umræða fer fram. Það er mjög mikilvægt að skýra hér í þingsölum nokkur grundvallaratriði þessa máls því mjög hefur borið á því í almennri umræðu að þau eru mönnum ekki ljós.
    Ég hnaut t.d. um það í seinasta hluta ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að hann notaði orðalagið ,,að þetta stríð ynnist af okkur``. Þannig heyrir maður ýmsa tala á þann veg að með beinum eða óbeinum hætti er gefið til kynna að Íslendingar séu aðilar að þessu stríði. Lýsingin á þætti Sameinuðu þjóðanna er sett fram með þeim hætti að álykta megi að vegna þess að Ísland er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og hefur framkvæmt ýmsar ályktanir öryggisráðsins sé það líka aðili að þeirri ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að hefja stríðsátökin. Það er þess vegna mjög brýnt að áréttað sé, eins og gert var af hálfu bæði utanrrh. og forsrh. í þessari umræðu, að Ísland er ekki aðili að styrjöldinni og Ísland verður ekki aðili að styrjöldinni með neinum sjálfkrafa hætti. Ísland hefur ekki undirgengist neinar skuldbindingar, hvorki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna né á vettvangi Atlantsbandalagsins, sem gera Ísland að aðildarríki þessara styrjaldarátaka. Ísland er ekki í stríði og það er engin sú stofnun til sem getur dregið Ísland inn í þetta stríð nema Íslendingar ákveði sjálfir að fara í þetta stríð. Það er lykilatriði málsins. Ríkisstjórn Íslands og Alþingi Íslendinga verða að ákveða það ef Ísland ætlar að ganga inn í þessa styrjöld. Og þótt það standi ekki í stjórnarskrá lýðveldisins að það þurfi að samþykkja það á Alþingi að Ísland fari að segja Írak eða öðrum þjóðum stríð á hendur, þá er það alveg ljóst að það mun engin ríkisstjórn Íslands fara að segja Írak eða öðrum stríð á hendur og tengja Ísland þar með inn í þetta stríð sem beinan styrjaldaraðila án þess að bera það upp við Alþingi. ( ÓÞÞ: Fjmrh. neitar að borga.) Mér er þetta það mikið alvörumál, hv. þm. Ólafur Þórðarson, að ég ætla ekki að tengja umræðuna um heimildarlausar greiðslur úr ríkissjóði inn í það hér, það verður að ræðast við fjárveitinganefndarmenn á öðrum vettvangi.
    Ég held líka, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að um það hefur verið mikill ágreiningur, bæði innan Bandaríkjanna og á bandaríska þinginu og í stjórnmálaumræðu í Bandaríkjunum og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá Bush Bandaríkjaforseta að hefja styrjaldarátök á þeim degi sem hann kaus að hefja þau. Ég vil vekja athygli hv. alþm. á því að fjölmargir af helstu áhrifamönnum á bandaríska þinginu telja að sú ákvörðun hafi verið tekin of fljótt. Það hafi ekki verið tímabært að fara þá í styrjaldarátökin, það hafi átt að láta á viðskiptabannið reyna lengur og það hafi átt að taka jákvætt af hálfu Bandaríkjanna í þá tillögu Frakklandsforseta og tillögu Norðurlandanna að bjóða fram ráðstefnu um málefni Palestínuþjóðarinnar strax. Þetta er nauðsynlegt að menn hafi í huga vegna þess að m.a. hér í þessum

umræðum hefur verið talað um það og hv. síðasti ræðumaður notaði orðalag eins og um her Sameinuðu þjóðanna væri að ræða og stríð á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það liggur alveg ljóst fyrir að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu ekki að í þetta stríð væri farið. Það liggur líka alveg ljóst fyrir að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Peres de Cuellar, var ekki einn af þeim örfáu sem Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann hefði ákveðið að hefja stríðið. Það hefur þvert á móti komið fram að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna vissi ekki að ákveðið hefði verið að hefja styrjöldina af hálfu Bandaríkjaforseta. Það sem gerðist var það að Sameinuðu þjóðirnar eða öryggisráðið heimilaði að gripið yrði til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar væru en það átti eftir að meta á hvaða tíma það væri gert og hverjar þær væru.
    Ég ætla ekki hér í þessum umræðum að fara í ítarlegar umræður um þennan þátt málsins, en það er alveg nauðsynlegt að það fari ekki fram hjá hv. Alþingi að það hefur komið fram mjög veigamikil gagnrýni í æðstu stjórnstofnun Bandaríkjanna og af hálfu fjölmargra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna á þá ákvörðun að hefja styrjaldarreksturinn og hefja sprengjuárásirnar á þeirri nóttu sem þær hófust fyrir skömmu síðan og margir eru þeirrar skoðunar að það hefði átt að láta reyna lengur á það viðskiptabann sem við Íslendingar ásamt fjölmörgum öðrum þjóðum erum aðilar að.
    Það er líka nauðsynlegt að menn átti sig á því í sögulegu samhengi að meðan Bandaríkin háðu þá glímu við Íran, sem hófst sérstaklega í valdatíð Carters Bandaríkjaforseta og hélt áfram í valdatíð Ronalds Reagans, og Írak fór síðan í stríð við Íran sem stóð mjög lengi og vil ég minna á að Olof Palme heitinn var formlegur sáttasemjandi Sameinuðu þjóðanna í þeirri styrjöld um langt árabil og ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort dauðdagi hans kunni e.t.v. að vera tengdur því starfi sem hann gegndi þá og ætla ég ekki að fjalla neitt nánar um það hér, á þeim tíma voru fjölmörg ríki Vesturlanda sem töldu það bæði rétt og stjórnmálalega skynsamlegt að vopna Írak, að selja Írak vopn og byggja upp Íraksher af sem mestum krafti til þess að Íraksher gæti með árangursríkum hætti ráðist á Íran. Þess vegna eiga fjölmörg Vesturlanda stóra sök á því að Íraksher er jafnöflugur og raun ber vitni. Þessu megum við ekki gleyma þegar við erum að tala um réttlætingu þess að heyja þessa styrjöld til þess að afvopna Írak, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, vegna þess að verulegur hluti vopnanna sem í höndum Saddams Husseins eru er kominn þangað vegna þess að Vesturlöndin ákváðu að selja honum þau vopn. Og það er auðvitað sérkennileg þversögn að selja fyrst einu ríki vopn og fara síðan í styrjöld við það til þess að afvopna það. Það er ekki hluti af því öryggiskerfi sem við viljum byggja upp.
    Hitt er líka mikilvægt að menn árétti að sú aðgerð Saddams Husseins að fara með her á hendur Kúvæt, yfirtaka það á fáeinum dögum og þurrka síðan Kúvæt út af landabréfi heimsins, er verknaður sem samfélag

hinna Sameinuðu þjóða getur aldrei liðið og má aldrei líðast. Það verður að koma í veg fyrir að slíkur gerningur verði endurtekinn. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það er mikilvægt fyrir smáþjóð að halda þeim málstað uppi að ein þjóð geti ekki yfirtekið aðra með vopnavaldi og þurrkað sjálfstæði hennar út á örfáum dögum. Í því sambandi skiptir að mínum dómi engu máli þótt stjórnarfarið í Kúvæt hafi ekki verið lýðræðislegt og þótt vissulega megi gagnrýna margt í fari og í verkum þeirra sem þar stjórnuðu ríki. Grundvallaratriði um sjálfstæði aðildarríkja er óháð því hvert stjórnarfarið er innan ríkja. Það er ekkert ríki sem getur tekið sér þann rétt að steypa stjórnvöldum í einu af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, hvað þá heldur að þurrka það út af landakortinu.
    Afstaða Íslendinga í þessu máli, eins og hæstv. utanrrh. hefur kynnt hér og óþarfi er að endurtaka, er þess vegna mjög eindregin í samræmi við þau grundvallarviðhorf sem við viljum fylgja. Við viljum krefjast þess að Írak fari tafarlaust burt frá Kúvæt. Við viljum styðja það að friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna taki við verkefni friðargæslu í þessum heimshluta. Við viljum styðja að því að ráðstefna um málefni Mið-Austurlanda, sérstaklega um málefni Palestínu, verði haldin hið fyrsta og studdum þá tilraun Frakklandsforseta á elleftu stundu að reyna að koma slíkri ráðstefnu á. Það er þess vegna mjög mikilvægt að greina á milli þessara atriða sem hafa verið alveg skýr af hálfu Íslands og ríkisstjórnar Íslands og hins að reyna að draga Ísland með einum með öðrum hætti inn í styrjaldarreksturinn.
    Í þessum umræðum hefur, sérstaklega af hálfu málshefjanda og einnig í ræðum allra annarra ræðumanna, verið vikið að því hvort 5. gr. Atlantshafssamningsins muni leiða til þess að Ísland verði stríðsaðili. Það er mjög mikilvæg spurning. Ég skal fara um hana nokkrum orðum. Í fyrsta lagi finnst mér rétt að láta það koma fram, því ég held að það hafi ekki gert það til þessa, að 5. gr. Atlantshafssáttmálans hefur aldrei verið notuð, hún hefur aldrei komið til framkvæmda. Það eru þess vegna ekki til nein fordæmi um það hvað felst í reynd í henni annað en pólitísk skuldbinding aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Í því tilviki sem hér um ræðir er margt sem bendir til þess að mjög óeðlilegt, ef ekki beinlínis rangt, væri að ætla sér að draga Ísland inn í stríðið við Persaflóa á grundvelli 5. gr. Atlantshafssamningsins. Ég skal skýra hvers vegna.
    Það sem gerst hefur í Tyrklandi er að eitt af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, sem við skulum kalla í þessu samhengi aðildarríki A, hefur óskað eftir því við aðildarríki B að mega nota flugvelli í aðildarríki B til þess að ráðast á þriðja aðila utan Atlantshafsbandalagsins. Ef svo þessi þriðji aðili kýs að svara í sömu mynt, og ég legg áherslu á það, svara í sömu mynt með því að ráðast á þá flugvelli sem notaðir voru til þess að ráðast á þennan þriðja aðila utan bandalagsins, þá er að
mínu viti ekkert í skuldbindingum Íslands hvað snertir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem felur það í sér að þá sé eðlilegt, eða eigi jafnvel að koma til umræðu, að Ísland sé þar með dregið inn í styrjöld við þennan þriðja aðila. Hvað sem mönnum finnst um Atlantshafssáttmálann að öðru leyti þá var hann alls ekki hugsaður á þann veg að tvö af Atlantshafsbandalagsríkjunum, sem kæmu sér saman um að ráðast á þriðja ríkið utan bandalagsins, gætu þar með verið að draga öll önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins inn í stríð ef þriðja ríkið svaraði í sömu mynt, vegna þess, og það er líka mjög mikilvægt að menn átti sig á því, að sú ósk Bandaríkjanna að fá að nota flugvellina í Tyrklandi var hvorki borin upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna né á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Hún var tvíhliða ósk milli Bandaríkjanna og Tyrklands. Það var aldrei borið undir önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hvort Bandaríkin ættu að nota flugvellina í Tyrklandi til þess að ráðast á Írak. Þvert á móti var sú ákvörðun tekin af hálfu Atlantshafsbandalagsins að senda þrjár flugsveitir til Tyrklands sem ekki eru bandarískar og skilja þannig alveg skýrt á milli þess sem Atlantshafsbandalagið greip til, að senda, ef ég man rétt, þýskar, belgískar og ítalskar sveitir til Tyrklands, til þess að greina skýrt á milli þess sem Bandaríkin eru að gera í Tyrklandi annars vegar og þeirra varúðarráðstafana sem þessar þrjár flugsveitir annarra NATO-ríkja eru að gera hins vegar. Þess vegna er sá gerningur Bandaríkjanna að nota flugvellina í Tyrklandi að mínum dómi Atlantshafsbandalaginu algerlega óviðkomandi. Og ég tel að Atlantshafsbandalagið hafi sýnt fram á það með því að framkvæma þátt sinn með þeim hætti sem hér var lýst, að það er Belgía, Ítalía og Þýskaland sem þann þáttinn annast.
    Ég vil þess vegna alveg afdráttarlaust lýsa þeirri skoðun minni að ráðist Írak á flugvellina í Tyrklandi sem Bandaríkin hafa notað til að ráðast á Írak, án þess að bera það nokkuð undir Atlantshafsbandalagið, kemur það Atlantshafssáttmálanum ekkert við. Ef Írak kynni aftur á móti að ráðast á flugsveitir Atlantshafsbandalagsins, þ.e. Ítala, Þjóðverja og Belga, sem þangað hafa verið sendar, þá snýr málið öðruvísi við.
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að hér á þessum vettvangi og í almennri umræðu í landinu hafi menn miklar áhyggjur af þessari þróun. Ég lýsti þeirri skoðun minni að kvöldi fyrsta dags þessara átaka að þeir sem þá voru bjartsýnir um það að stríðið kynni að standa stutt, jafnvel bara fáeina daga, hefðu því miður á röngu að standa. Ég lýsti þá strax þeim viðhorfum mínum að ég óttaðist að þetta stríð ætti eftir að taka langan tíma og það vissi enginn hvernig það myndi enda, hvernig það mundi fara eða hvers konar fórnir yrði að færa áður en því lyki.
    Reynslan af Víetnam og reynslan af Afganistan og ég tel reynslan nú þegar af styrjöldinni við Persaflóa sýnir að styrjaldir af þessu tagi geta staðið mánuðum og jafnvel árum saman og kostað gífurlegar fórnir í mannslífum, fjármunum og hagsæld þjóða án þess að nokkur fái í reynd neitt við ráðið. Þegar styrjöld er

hafin er sett í gang atburðarás sem enginn stjórnar, enginn hefur yfirlit yfir og enginn veit hvernig endar. Það var meginástæða þess að stór hluti öldungadeildarinnar í Bandaríkjunum, stór hluti fulltrúadeildarinnar í Bandaríkjunum, fjölmörg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna vildu láta reyna meira á viðskiptabannið og pólitískar leiðir til lausnar þessu máli áður en styrjöldin hófst.