Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hygg að sú umræða sem hér fer fram hljóti að kveikja margar spurningar og miklu fleiri en þær sem komu fram hjá málshefjanda, einfaldlega vegna þess að þeim spurningum hefur í sjálfu sér verið svarað, en hugmyndum málshefjanda um það hvað lægi á bak við þessa styrjöld og hvað bæri að gera hefur aftur á móti ekki verið svarað.
    Við lítum gjarnan á það, Íslendingar, sem sjálfsagðan hlut að þjóð fái að vera í friði, fái að búa í friði og vera í friði. Við erum nú afkomendur víkinganna og virtum sjálfir ekki frið Írlands á sínum tíma. Var friður Vestmannaeyja virtur í Tyrkjaráninu? Og hvað hefði Kvennalistinn gert á bryggjunni í Vestmannaeyjum ef Tyrkir hefðu komið? Það hlýtur að vera spurning þegar fólk talar svona og að það hafi þá svör á reiðum höndum við því hvernig eigi að bregðast við ofbeldi.
    Ég minnist þess að sem ungum dreng var mér það ærið umhugsunarefni hvers vegna menn vógu Gunnar á Hlíðarenda og satt best að segja voru það þungskilin rök sem lágu þar á bak. Hann hafði ekki farið að Gissuri hvíta, hann hafði ekki farið að Geir goða með ófriði. En íslenska þjóðveldið var þannig byggt upp að það hafði ekkert framkvæmdarvald. Þingið setti lög og þingið dæmdi og Gunnar á Hlíðarenda virti ekki lögin sem þingið hafði sett og virti ekki dóma þingsins. Og mestu höfðingjar Sunnlendinga og friðarsinnar jafnframt, Gissur hvíti og Geir goði, fóru að honum og drápu hann vegna þess að hann virti ekki dómsúrskurð þjóðveldisins og þeir töldu að með því að virða ekki dómsúrskurð þjóðveldisins skapaði hann þá ófriðarhættu að það væri réttlætanlegt að taka hann af lífi. Og hver er nú kannski besti umsagnaraðilinn um það að þessir menn sem tóku hann af lífi hafi verið drengir góðir? Ætli það sé ekki maðurinn sem hefndi Gunnars á Hlíðarenda, Skarphéðinn, sem deildi um það við föður sinn á hlaðinu á Bergþórshvoli hvort skynsamlegt væri að verjast inni eða verjast úti. Njáll vildi verjast inni. Skarphéðinn taldi það ekki skynsamlegt. Njáll vitnaði í það að það hefði gengið illa að sækja Gunnar á Hlíðarenda vegna þess að hann varðist inni. En Skarphéðinn svaraði: ,,Gunnar á Hlíðarenda sóttu heim höfðingjar þeir að þeir vildu heldur snúa frá en sækja hann með eldi.`` Honum var ljóst að þeir yrðu aftur á móti sóttir með eldi.
    Það er gott að tala sig upp í þann hita að við höfum ekki vopn og beitum aldrei vopnum. Ég minnist þess að það er ekki langt síðan að Íslendingur tók opinbera byggingu norður í landi, vopnaður. Og hvað sendum við til höfuðs honum? Víkingasveitina. Lögregluþjónn náði þeim árangri að tala um fyrir manninum og það kom ekki að því að víkingasveitin gerði áhlaup. En nú spyr ég hér úr þessum ræðustól af því að engin mótmæli komu fram á Alþingi Íslendinga: Hvað telja menn að víkingasveitin hefði beðið lengi áður en hún hefði gert árás og áður en hún hefði notað skotvopn til að taka manninn úr umferð? Veit nokkur svarið?

    Þetta er ekki bara bundið við Norðurland. Þetta er að gerast af og til. Vopnaðir menn skjóta úr byssu og víkingasveitin er kölluð til. Það hafa engin mótmæli komið hér við þessum vinnubrögðum. Það hefur engin tillaga komið hér frá Kvennalistanum um hvernig eigi að afvopna þessa menn. Svo tala menn um það sem sjálfgefinn hlut ef þjóðarleiðtogi sem hefur her á bak við sig og beitir honum, þá sé hægt að afvopna hann með friðsamlegum hætti.
    Sameinuðu þjóðirnar standa í sömu sporum og þjóðveldið íslenska hvað það snertir að þær hafa ekki framkvæmdarvald til að ná fram ákvörðunum sínum. Þær ætla þjóðríkjunum að fylgja þeim eftir alveg eins og þjóðveldið íslenska ætlaði höfðingjum Suðurlands á sínum tíma að fylgja eftir dómnum yfir Gunnari á Hlíðarenda. Og hvað sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna nóttina frægu þegar hann var spurður að því hvort þeir mundu lengja frestinn? Hér hafa menn látið svo að hann hafi grátið. Hvað sagði hann? Við lengjum ekki frestinn, sagði hann. Það er ekki á dagskrá að lengja frestinn. Menn hafa látið í það skína að Mitterand Frakklandsforseti hafi viljað lengja frestinn. Hvað sagði hann í ávarpi til sinnar þjóðar? Hann sagði að það væri fullreynt. Þess vegna er ekkert um það að ræða að það hafi blasað við, eins og sumir eru að tala hér um, að Frakkar hafi haft einhverja sérskoðun á þessu máli sem hafi verið kæfð og orðið undir. Það var algerlega beðið eftir því að Frakkar tækju sína afstöðu og forseti þeirra ávarpaði þjóðina.
    Við stöndum frammi fyrir því hvort sem okkur líkar betur eða verr að Sameinuðu þjóðirnar sem ríki heimsins, þau sem sagt höfðu Þjóðverjum stríð á hendur í heimsstyrjöldinni síðari, komu saman til að stofna 26. apríl 1945 með það markmið að sameinast um afstöðu, beitingu vopnavalds, til að stöðva Hitler. En eins og menn vita gáfust Þjóðverjar upp 8. maí sama ár. Alveg eins og þá var markmið Sameinuðu þjóðanna að engum einræðisherra fengi að líðast það að fara með vopnaðan her á hendur annars lands án þess að hann yrði tekinn úr umferð. Alveg eins og það var samþykkt þá er það stefna Sameinuðu þjóðanna í dag. Þess vegna verða Íslendingar að gera það upp við sig: Ætlum við að vera í Sameinuðu þjóðunum eða ekki? Höfum við á því aðra skoðun en ríki Sameinuðu þjóðanna hvort það eigi að taka þá menn úr umferð sem fara með vopnað lið á hendur öðrum þjóðum? Það er ekkert til sem heitir að Sameinuðu þjóðirnar ætli sér að hafa aðra stefnu. Hún er ekki á dagskrá og hefur aldrei verið á dagskrá þar. Menn verða að átta sig á því hvers vegna þær voru stofnaðar og til hvaða verka.
    Það blasir við að lýðræðisþjóðir heimsins standa á bak við þá ákvörðun og hafa safnað liði til að fara inn í Írak og Kúvæt. Menn geta sagt: Þeir áttu að bíða lengur. En þeir sem það segja svara ekki spurningunni: Hvað áttu þeir að gera ef viðskiptabannið hefði ekki dugað? Þeir hafa komið sér undan að svara þeirri spurningu. Átti þá ekkert að gera? Átti þá bara að samþykkja það að Saddam Hussein væri búinn að komast yfir Kúvæt, brjóta þar öll mannréttindi, drepa

þar menn eins og honum sýndist og af því að þetta voru Arabar, þá ætlaði íslenska þjóðin ekki að senda neina til að standa við þinghúsið þar, ekki eina einustu sveit. Var það þetta sem menn töldu að væri rétt? Og voru menn reiðubúnir að skrifa upp á það að Saddam Hussein legði undir sig allan Arabaheiminn, dræpi þar menn eins og honum sýndist ef olíuverðið hækkaði ekki? Er það það sem menn telja að sé hið rétta? Það liggur nefnilega ljóst fyrir að það var þetta sem Vesturlönd vildu ekki samþykkja. Þau vildu frekar þola hækkun olíuverðsins en þola það að hann héldi áfram eins og hann hafði gert. Svo segja menn hér og lesa upp eftir einhverjum fréttaskýranda að það sé engin heimsstyrjöld í augsýn þó að Saddam Hussein leggi undir sig allan Arabaheiminn.
    Heimsstyrjöldin fyrri skildi eftir sig þá friðarsamninga, því miður, að það var auðvelt hjá manni að tala því máli í Þýskalandi að það væri ekkert réttlæti í þeim friðarsamningum og safna liði til þess að sameina Þjóðverja um að brjótast undan því oki sem þeir friðarsamningar höfðu sett á þá. Heimsstyrjöldin síðari skildi einnig ýmsa hluti eftir sem við erum ekki búin að komast fram hjá. Eitt af því er Palestínumálið, sprengjan mikla í Austurlöndum. Það verður aldrei hægt að verja það hvernig Ísraelsmenn fara með Arabana. Það er ekki hægt að verja það með því að Hitler og hans menn hafi drepið svo og svo marga Gyðinga. Þess vegna blasir það við að kjarnorkuvopn á þessu svæði munu þýða kjarnorkustyrjöld ef báðir aðilar hafa þau vopn undir höndum.
    Það er hægt að segja að það eigi að leysa Kúvætmálið og Palestínumálið samtímis eins og hér var sagt í ræðustól. Menn hafa verið að glíma við að reyna að leysa þetta Palestínumál og hefur það tekist? Það hefur ekki tekist vegna þess að það var ákveðið af sigurvegurum heimsstyrjaldarinnar fyrri að Gyðingaþjóðin, þó hún ætti ekkert land, hlyti hún að eiga tilverurétt og það hlyti að vera réttlætanlegt að setja hana einhvers staðar niður. Og hvar settu þeir hana niður? Í landinu sem hún hafði átt fyrir mörgum, mörgum öldum. Ég held aftur á móti að það yrði allmikið fjör í Noregi ef við tækjum okkur til og legðum undir okkur Óslófjörðinn. Mér er sagt að Hallvarður súgandi sé kominn af því svæði og auðvitað tæki ég ekki í mál að fara að búa einhvers staðar norður frá.
    Nei, það er hægt að segja svona hluti eins og hér: Fyrst leysum við Palestínumálið samhliða. Það er eins og þetta sé spurning um að komast út í mjólkurbúð fyrir lokun. Ég veit ekki hvort þeir, sem hér tala á þann veg að allir þjóðhöfðingjar Evrópu sem hafa tekið þátt í styrjöldum séu vitfirrtir glæpamenn, vita hvað þeir eru að segja. Það er hægt að hugsa sér mjög auðveldlega að Hitler hefði unnið heimsstyrjöldina síðari. Værum við ánægð með það þjóðskipulag sem hann hefði komið á? Værum við ánægð með það? Mundum við Íslendingar elska friðinn undir þeim kringumstæðum eða mundum við reyna að brjótast undan okinu? Ég neita að setja jafnaðarmerki á milli þeirra þjóðhöfðingja Evrópu sem þá börðust til að verja mannréttindi og Hitlers sem barðist fyrir allt öðrum

hugsjónum.
Ég hygg að ef menn á annað borð skoða söguna, þá átti menn sig á því að lýðræðisþróunin í heiminum hefur tekið langan tíma. Hún hefur tekið langan tíma. Það er ekki langt síðan að viss ríki í Evrópu eins og Spánn og Portúgal komust undan einræðisherrum. Það er ekki langt síðan.
    Eigum við að trúa því í dag að það sé sjálfgefinn hlutur að lýðræðisþjóðir heimsins fái að byggja sinn heim í friði ef einræðisherrar, sem staðnir eru að því að hafa verið í styrjöld sl. átta ár, fá að vera í friði og murka lífið úr nágrönnum sínum, leggja undir sig smáríki og auka sitt ríki? Hafa menn einhvern skjalfestan samning upp á það að Evrópa verði þá látin í friði? Hvaðan koma mönnum upplýsingar um slíkt?
    Ég hygg, því miður, að við stöndum þannig í dag, eins og ég hef áður sagt í þessum ræðustól, að Vesturlönd eiga meira undir því en flestu öðru að Sovétríkin liðist ekki í sundur. Því að ef Sovétríkin liðast í sundur þá er enginn afvopnunarsáttmáli til á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Þá er enginn slíkur sáttmáli til. Og þó að menn tali hér um það eins og eitthvert gamanmál að það sé enginn áfangi þrátt fyrir allt að búið er að eyðileggja kjarnorkuuppbygginguna sem Írakar voru með þá hygg ég nú að ef menn hafa horft á flugskeytin sem send voru til Tel Aviv að mönnum sé ljóst að það hefði ekki þurft nema eitt að komast í gegn hefði kjarnorkusprengja fylgt.
    Ég tel að Íslendingar eigi að vera í Sameinuðu þjóðunum og ég tel að þeir hafi ekki átt annarra kosta völ en að greiða atkvæði á þingi Sameinuðu þjóðanna eins og þeir hafa gert í þessu máli. Ég tel að sú draumaveröld sem sumir draga hér upp, að það sé hægt að tefla fram vopnlausum friðarsinnum til þess að koma á friði og taka það fram að friðarsinnarnir eigi að berjast, taka það skýrt fram trekk í trekk að friðarsinnarnir eigi að berjast, vopnlausir hlýtur þá að vera, að það sé hægt að ná árangri með þeim hætti, ég hef hvergi séð slíkan árangur. Er það kannski tilfellið að ástæðan fyrir því að íslenska þingið sendir menn til Eystrasaltslandanna sé sú að þeir telji að slíkur friðarsinni sitji við völd í Sovétríkjunum að það sé ekki bein mannhætta fyrir íslenska þingmenn að fara þangað en það sé mannhætta ef þeir fari til Kúvæts? Er það þess vegna sem við höfum ekki sent neina menn þangað til að framkvæma stefnuna með því að senda friðarsveitir á staðinn?
    Ætli það blasi nefnilega ekki við þegar í alvöruna er komið að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá býr Arabaheimurinn við myrkviði trúarbragða. Það myrkviði og þær kenningar að hver sá sem fellur í stríði fyrir Allah er hólpinn. Hann er hólpinn. Honum á eftir að líða vel í öðru lífi. Það er viðurkenningin mikla. Það er eins og mig minni að Íslendingar hafi einu sinni búið við þau trúarbrögð að sá sem félli í stríði eða yrði vopndauður hann þyrfti ekki mikið að kvíða þegar hann kæmi yfir um, honum mundi líða vel, en sá sem dæi á sóttarsæng hann fór til Helheima og þar var nú ekki vistin góð.
    Þessar þjóðir, Arabaþjóðirnar, búa við trúarbrögð

sem eru þess eðlis að innifalin er mikil hernaðarhyggja, þó ekki sé meira sagt. Þar er innifalin mikil hernaðarhyggja. Og þeim mun fyrr sem þessar þjóðir komast út úr þeim fjötrum þeim mun betra.
    Ég gleðst ekki yfir stríði við Persaflóa. Ég gleðst ekki yfir því að þar séu vopnin látin tala. En það sem mig greinir á um við frummælandann hér í þessum sal er það að mér er ekki ljóst hvernig menn geti komist að þeirri niðurstöðu að vopnin hafi byrjað að tala núna í janúar. Það eru mér gjörsamlega óskiljanleg fræði. Ég veit ekki hvar á plánetunni þeir hafa verið sl. átta ár sem komust að þeirri niðurstöðu að vopnin hafi byrjað að tala við Persaflóa í janúarmánuði sl. ( Gripið fram í: Þessum.) Þessum janúarmánuði. Það er rétt. Febrúar er ekki kominn. En svo spyrja menn trekk í trekk: Hvers vegna fóru Bandaríkjamenn strax inn eða fjölþjóðaherinn? Hvers vegna? Hvers vegna biðu þeir ekki fram í apríl? Það liggur alveg ljóst fyrir hvers vegna þeir biðu ekki og það vita það allir. Hitinn á þessu svæði er þeim hættulegri en nokkuð annað. Þeir eru í sömu stöðu hvað hitann í eyðimörkinni varðar og þýski herinn forðum í Rússlandi, nema þar var það kuldinn sem sá um að fella menn.
    Ég vil undirstrika það að kannski er ein spurning sem sett hefur verið fram öðrum spurningum merkilegri. Það var spurningin sem Saddam Hussein varpaði fram. Hann spurði: Hafa Vesturlönd aldrei hugleitt þann möguleika að þau tapi stríðinu? Hafa friðarsinnarnir hér á þinginu, sem kalla sig sérstaklega friðarsinna, aldrei hugleitt það, og þar með talinn hæstv. forseti, hvað mundi gerast ef vestræn menning tapaði styrjöld eins og þeirri sem nú á sér stað við Persaflóa?