Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég skal reyna að verða við beiðni hæstv. forseta að tala hér mjög stutt þó að vissulega væri tilefni til að hafa hér langt mál um það sem hér hefur komið fram í dag og kannski ekki síst það sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem hefði nú verið mjög skemmtilegt að fá að ræða sérstaklega.
    En það sem ég tel mjög mikilvægt af því sem hér hefur komið fram er að það virðist ekki leika nokkur vafi á því að Íslendingar ráða sjálfir hvort þeir verði aðilar að þessari styrjöld. Að vísu er hér einhver blæbrigðamunur á afstöðu manna. Ég tel hins vegar alls ekki ljóst hvaða afstöðu ríkisstjórnin hefur til þessarar styrjaldar og hvort hún telur eðlilegt að Ísland taki þátt í styrjaldarátökum þó auðvitað getum við ekki tekið þátt í þeim með beinum hætti. Þess vegna finnst mér mjög miklu máli skipta hvernig á málum verður haldið.
    Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að við eigum að lýsa yfir andstöðu við áframhaldandi styrjöld. Ég styð að sjálfsögðu að Írakar hverfi frá Kúvæt. Þá styð ég einnig að alþjóðaráðstefna verði haldin um allsherjarlausn á svæðinu eins og kom fram hér að ríkisstjórnin hefði samþykkt. Ég tel ekki nokkurn vafa á því að allir séu samþykkir því, enda er það í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna. En það er bara spurningin um hvort maður styðji styrjaldarátök eða ekki. Og það geri ég ekki. (Gripið fram í.) Ofbeldi leysir ekki deilumál. Þó einn beiti ofbeldi þá réttlætir það ekki að beita ofbeldi á móti. T.d. ef börn eru að deila og rífast og þau fara í hár saman þá er það ekki lausn að hvetja þau til dáða og skipa þeim að berjast þangað til yfir lýkur.( FrS: Á ekki að refsa nauðgurum?) Það á ekki að beita þá sömu aðferðum og þeir beita. Það er ekki lausn. Það er engin lausn að beita ofbeldi. Og ef fólk er svo vitlaust að ímynda sér það að vopnin hafi fyrst verið látin tala núna í janúar, þá er ekki nokkur einasti maður sem hefur haldið því fram. Það hljóta allir að vita það að þessi heimur riðar á barmi tortímingar og ef einhver geimvera færi og skoðaði þessa jörð þá væri hún viss um að það væri ekki bara einn og ekki bara tveir menn sem væru orðnir eitthvað bilaðir heldur værum við það meira og minna öll. Það er mikil einföldun að ímynda sér það að þó það takist nú að þurrka Saddam Hussein út af jörðinni þá væri þar með kominn á friður. Mér þykir það með ólíkindum og einföld heimsmynd sem kom fram í því, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér áðan. Það er auðvitað ekki nokkur einasta lausn. Það hljóta allir að vita.
    Þess vegna er mikilvægt að við Íslendingar lýsum andúð á ofbeldi alls staðar. Það er aldrei réttlætanlegt. Við höfum hlutverki að gegna til að koma á friði í heiminum. Það er aldrei hægt að vinna stríð. Það er ekki hægt að leysa nein deilumál með ofbeldi. Aldrei. Þess vegna verður að uppræta hugarfar hermennskunnar og uppræta þann hugsunarhátt sem í því felst. Auðvitað er það ekkert annað en ofbeldi og yfirgangur sem alls ekki er hægt að líða sem kemur fram hjá Saddam Hussein gagnvart Kúvæt en það réttlætir bara ekki að tortíma Írak til að frelsa Kúvæt. Það er ekki frelsun því það verður ekki lausn. Því miður, þó svo við gætum stöðvað, þó við gætum ja, þurrkað Írak út af kortinu og sprengt það upp eins og nú virðist eiga að gera, þá er það því miður ekki leiðin til að fá frið á þessu svæði. Því miður. Það er bara ekki hægt. Það verður ekki hægt að leysa þau deilumál sem þarna eiga sér stað með þeim aðferðum sem nú er beitt. Þess vegna eigum við að beita okkur fyrir því að það verði gengið til samninga. Og auðvitað verður það liður í því að frelsa Kúvæt. Að sjálfsögðu. Mér þykir það alveg furðulegt ef menn halda að með því að halda áfram þessu sprengjuregni sem þarna á sér stað, þá verði allir ánægðir þegar upp er staðið og friður ríki.
    Ég skora enn á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að á þessum málum finnist friðsamleg lausn. Hætta strax styrjaldarátökum og reyna að koma á friði í þessum heimshluta sem verður varanlegur friður, ekki eitthvert stundarhlé. Annars er hætta á að átök hefjist aftur, ef ekki á milli landa á þessu svæði þá óttast ég mjög að yfirstandandi styrjöld geti orðið til þess að það myndist enn meiri andstæður milli Arabaheimsins og annarra hluta heimsins.