Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég hef hér fyrir framan mig fréttatilkynningu frá forsrh. sem ég fékk í hendur frá blaðamönnum í anddyri Alþingishússins þegar ég kom hér til fundar kl. 2. Hæstv. forsrh. hefur ekki haft svo mikið við að senda mér sem formanni þingflokks Sjálfstfl. fréttatilkynningu þessa um nýjar kosningar né láta mig vita að hún sé útgefin í dag og var þó auðvelt að ná til mín í morgun fram yfir tíunda tímann þannig að það er ekki sú skýring á þessu tómlæti að hæstv. forsrh. hafi ekki haft tök á því að ná í mig og hér í Alþingi beið mín engin tilkynning um að slík fréttatilkynning hafi verið út gefin.
    Þar sem í þessari fréttatilkynningu er um mjög vafasamar fullyrðingar að ræða sem varða stjórnarskrána, friðhelgi Alþingis og almennt lýðræði í landinu tel ég óhjákvæmilegt, herra forseti, að gera athugasemdir við þessa fréttatilkynningu í heyranda hljóði og hlýt að lýsa því jafnframt yfir að mér gafst ekki rúm til þess að láta vita um þessa ósk mína fyrir hádegi þar sem mér var ekki um málið kunnugt á þeim tíma.
    Ég vil óska eftir því að staðgengill hæstv. forsrh., hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson, verði kvaddur hingað í deildina til þess að svara athugasemdum sem ég tel nauðsynlegt að koma á framfæri. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti sjái til þess að þingfundi verði frestað á meðan. Ég tel það eðlilegt á meðan náð er í staðgengil hæstv. forsrh. til þess að við getum tekið þetta mál fyrir.