Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. sjútvrh. Hann kom ekki málefnalega að því álitaefni hversu langt kjörtímabilið er og verður náttúrlega við það að una. Ég sé að hann hefur nú kvatt sér hljóðs þannig að við því er að búast að hann geri það í sinni seinni ræðu.
    Þetta mál horfir þannig við mér og ég hygg að sannir þingræðissinnar --- ég a.m.k. vil mega vænta þess að flestir alþingismenn séu þeirrar skoðunar að þeir geti ekki fellt sig við þá tilhugsun að ríkisstjórn geti lagt Alþingi niður. Ég sé að fulltrúi Framsfl. í Norðurl. v. hefur kvatt sér hljóðs, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Ég vona að hann sé ekki að kveðja sér hljóðs hér til þess að taka undir þá skoðun ráðherrans að ríkisstjórn hafi heimild til að leggja þingið niður. Og ef hæstv. ráðherra vill hefja umræður á þessum grundvelli langar mig til að spyrja hann í hvaða umboði hann ætlaði sér að starfa sem sjútvrh. ef hann hefði lagt Alþingi niður í 16 daga í umboði sjálfs sín. Þykist hann vera maður til þess að leggja Alþingi niður og starfa síðan sem sjútvrh. í umboði sjálfs sín? Það var svo að heyra.
    Það stendur skýrt í stjórnarskrá að kjörtímabil sé fjögur ár. Hið sama stendur í kosningalögum. Kjörtímabilið er fjögur ár, en þar stendur einnig að almennar reglulegar alþingiskosningar skuli fara fram í maímánuði, annan laugardag í maímánuði. Hvað eru nú margir maímánuðir liðnir frá síðustu kosningum? Það var annar laugardagur í maí árið 1987, annar laugardagur í maí árið 1988, annar laugardagur í maí árið 1989 og annar laugardagur í maí árið 1990. Sem sagt fjórir laugardagar í maí sem sagt er að séu númer tvö í röðinni. Nú ætlar hæstv. sjútvrh. að halda því fram að reglulegur kjördagur sé á fimmta laugardegi í maí frá því að síðustu alþingiskosningar voru haldnar. Hvað segir nú stjórnarskráin um þetta ef við lítum á það þar sem hún fjallar um forsetann og er til leiðbeiningar um skilning á þessu ákvæði. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að fjórum árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní eða júlímánuði það ár er kjörtímabil endar.`` Sem sagt áður en nýr forseti tekur við störfum. Síðan segir: ,,Nú deyr forseti eða lætur af störfum áður en kjörtíma hans er lokið og skal þá kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningunum.``
    Það er með öðrum orðum litið svo á í sambandi við fjögurra ára regluna um kjör forseta Íslands að hann geti ekki verið forseti degi lengur en fjögur ár. Ef það á að halla á annan hvorn veginn, þá styttist hans kjörtímabil. Eins er það auðvitað um reglulegan kjördag Alþingis.
    Nú hittist svo á að ég tók í ógáti gömlu kosningalögin. En hvað varðar ákvæðið um hinn almenna kjördag, þá er það ákvæði óbreytt í það minnsta. Þetta vil ég að komi fram. Ef hæstv. sjútvrh. heldur því fram að hægt sé að leggja Alþingi niður í 16 daga, heldur hann því þá fram að það megi leggja Alþingi niður í 32 daga? Hvar eru mörkin? Einn mánuður, hálfur mánuður? Einn mánuður, tveir mánuðir, þrír mánuðir? Það væri nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. reyndi að gera grein fyrir því fyrst hann er að gera því skóna og gerast sérstakur talsmaður þess að unnt sé að leggja Alþingi niður. Auðvitað er tal um það út í hött. Auðvitað sættir hinn almenni borgari sig ekki við að óvinsæl ríkisstjórn geti framlengt líf með því bara að fresta kjördegi fram yfir þau fjögur ár sem Alþingi ber að sitja. Það er ósköp skiljanlegt að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa treyst sér í kosningar undir þeim kringumstæðum.
    Hitt er svo annað mál og mér finnst nafni minn vera þykkjuþungur í garð sjálfs sín þegar hann er að skamma mig fyrir það að ekki var kosið í maímánuði síðast. Við vorum samherjar fyrir síðustu alþingiskosningar. Þá var kosið 25. apríl. Þá voru kosningalögin í gildi um annan laugardag í maí. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi haldið því fram fyrir þær kosningar að sú ríkisstjórn hafi ekki verið út kjörtímabilið. Var einhver að segja að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem var við völd frá 1983 -- 1987, hafi ekki setið út kjörtímabilið? Vantaði hálfan mánuð upp á að sú ríkisstjórn sæti út kjörtímabilið? Þetta eru alveg ný sannindi. Það hefur aldrei verið talað þannig um þá ríkisstjórn að hún hafi hlaupist frá áður en kjörtímabilinu var lokið, enda hefði það verið fleipur eitt og ósannindi.
    Ég hef áður heyrt það að menn séu að tala um að nauðsynlegt sé að veður sé gott á kosningadaginn. Nú eru menn að tala um það að veðrið kunni að verða mjög vont hinn 27. apríl og þá hefði það verið Sjálfstfl. að kenna af því að við vildum ekki brjóta stjórnarskrána. Nú kaus ríkisstjórnin 20. apríl. Ef veðrið verður vont 20. apríl, er það þá ríkisstjórninni að kenna? Ég á erfitt með að skilja þetta samhengi.
    Ríkisstjórnin telur eftir atvikum rétt að velja þennan kjördag. Hún er ósammála um það eða snýr út úr þegar hún heldur því fram að við sjálfstæðismenn teljum að ekki megi kjósa hinn fjórða laugardag í aprílmánuði. Ef ekki má kjósa aftur hinn fjórða laugardag í aprílmánuði eru kosningalögin stjórnarskrárbrot að kjósa skuli annan laugardag í maí, voru gömlu kosningalögin stjórnarskrárbrot að kjósa skyldi fjórða sunnudag í júní, er kjörtímabil sveitarstjórnarmanna ekki fjögur ár því að kosningar til sveitarstjórna eru í sömu viku maímánaðar ár eftir ár, voru áður í sömu viku janúarmánaðar ár eftir ár. Þannig að það er náttúrlega hreinn útúrsnúningur að tala um það á þessum grundvelli og ekki sæmandi manni sem yfirleitt er málefnalegur eins og hæstv. sjútvrh. þótt hann upp á síðkastið hafi ekki verið sérlega samvinnuþýður, og skal ég ekki fara út í það, en alveg eins og hann segir að ég setji mig upp á móti get ég frætt hann á því að ég hef ekki skilið það hvernig hann hefur rekið sitt embætti upp á síðkastið.
    Ég vil svo að síðustu aðeins minnast á það að það voru ekki við sjálfstæðismenn sem gerðum því skóna að rétt væri að hlaupa til á miðjum vetri og efna til kosninga í janúarmánuði. Það var núv. hæstv. forsrh.

sem hafði það við orð vegna bráðabirgðalaganna og var svo mikið niðri fyrir að hann gat ekki hugsað sér að eiga orðastað við stjórnarandstöðuna um framkvæmd þjóðarsáttar heldur hugðist hlaupa til eins og óþekkur krakki og rjúfa þingið í einhverri skyndingu. Þá var ekki verið að hugsa um það að veður væru misjöfn í janúarmánuði. Við sjáum það núna að þetta hefði svo sem gengið vel, veðráttan er blíð og góð og það hefði verið allt í lagi að kjósa sl. laugardag. Við vitum svo sem ekkert fyrir fram hvernig veðrið er. En ef ég hef brotið eitthvað sérstaklega af mér og Sjálfstfl. með því að ekki var kosið í maímánuði 1986 samkvæmt kosningalögum, vegna veðursins 1986, sagði ég, vegna þess að það var hinn fjórði laugardagur frá síðustu kosningum --- og það er algjörlega þýðingarlaust fyrir hæstv. sjútvrh. að segja, ef reglulegur kjördagur á að vera annar laugardagur í maí og það er alveg sama hversu margir lögfræðingar úti í bæ skrifa álitsgerðir um þau efni, frá þingræðislegu sjónarmiði er ekki hægt að fallast á það að það sé ákveðinn reglulegur kjördagur, síðan er rofið þing, síðan eru fjórir slíkir dagar látnir líða og kosið á hinum fimmta til þess að þingið geti setið svo og svo lengi fram á fimmta árið, fram yfir fjögur ár. Þetta gengur ekki. Þetta veit hæstv. sjútvrh. Og það mun koma hér í ljós á eftir að hann mun ekki treysta sér til að halda því fram, ef þing væri rofið í janúarmánuði, að næsta þing ætti þá að sitja fram í maímánuð eftir rúm fjögur ár. Ef það væri kosið í desember, þá ætti bara að leggja þingið niður í desember. Svo ætti að bíða vors og hafa kosningar í maí eða hvar eru mörkin? Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm mánuðir? Þetta gengur ekki neitt.
    Að síðustu verða það mín orð, hæstv. forseti, að það er óhjákvæmilegt nú þegar verið er að leggja fram frumvarp til breytingar á stjórnarskránni í þessari viku að þingið manni sig nú upp og setji það niður frá orði til orðs, nákvæmlega svo jafnvel þeir, sem verst gengur að lesa það sem stendur eftir efni þess, geti skilið hversu langt kjörtímabil þingsins sé. Þetta var ekki svona á tímum okkar gömlu leiðtoga. Það velktist ekki fyrir fyrrv. formanni Framsfl., Ólafi Jóhannessyni. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að alþingismenn geti sagt við sína kjósendur hvar í flokki sem þeir standa hvenær þeirra kjörtímabil rennur út. Nú eru þeir í vandræðum, aumingja þingmenn Framsfl. annars staðar en --- hvað eigum við að segja --- fyrir austan og í Reykjanesi. Þeir verða auðvitað að elta foringjana. Og þeir verða auðvitað að lýsa því yfir í kjördæmi eftir kjördæmi að þeim þyki rétt að ríkisstjórnin geti lagt Alþingi niður, að þeir sitji þarna bara í umboði sjálfs sín, forsrh. og sjútvrh. og heilbrrh., og þurfi ekki að spyrja þingið að neinu, taka inn varamann og þarf ekki að spyrja þingið að neinu og taka svo umboðið af varamanninum. Þetta gengur auðvitað ekki. Við sjáum hvað er að gerast í --- ég vil ekki líkja þessu við það sem er að gerast í Sovétríkjunum nú, en ég vil segja að ef menn byrja á því að fyrirlíta þingið og vilja leggja það niður, þá er ekki á góðu von. Það vil ég að komi alveg skýrt fram.

    Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri nema ítreka ánægju mína yfir því að við ákvörðun á kosningadegi skuli ríkisstjórnin hafa haldið sig innan ramma stjórnarskrárinnar, en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt eins og hæstv. ráðherra segir að setja sérstök lög um kosningadaginn eða réttara sagt, ég geri ráð fyrir því að það samkomulag haldi að stjórnarskrá verði breytt og þing rofið hinn 20. apríl.