Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það er nú í fyrsta lagi svo að það hefur alltaf verið ágreiningur milli Sjálfstfl. og Framsfl. þegar Framsfl. hefur verið að leggja Alþingi niður. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem við höfum sagt Framsfl. að við teljum að ráðherrar hafi enga heimild til að leggja Alþingi niður. Þetta hefur verið skoðun Sjálfstfl. frá stofnun hans. Þetta var skoðun Sjálfstfl. 1930 og þarf nú ekki að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra þykist ég vita. Sjálfstfl. hefur ævinlega talið að það eigi að rjúfa þing frá kosningadegi, umboð eigi að ná saman hjá því Alþingi sem er að hverfa og því Alþingi sem tekur við. Ríkisstjórnin gat því ekki verið undrandi á því að við skyldum ítreka það sjónarmið Sjálfstfl.
    Í annan stað hefur ráðherra misheyrt mál mitt. Ég hélt að ég hefði verið nógu skýr samt sem áður. Það er talað um að reglulegar kosningar verði annan laugardag í maí. Sá dagur hefur liðið fjórum sinnum. Ef Alþingi hefði tekið mark á sínum kosningalögum hefðu reglulegar, almennar alþingiskosningar farið fram á fjórða slíkum degi, fjórða öðrum laugardegi í maí, sem var annar laugardagur í maí 1990. Það var hinn fjórði annar laugardagur í maí sem leið frá síðustu alþingiskosningum. Ef menn vilja ekki standa við þá löggjöf sem þeir setja sjálfir, þá þeir um það. En þetta er ljóst. Kjörtímabil þingmanna er fjögur ár. Við erum sammála um það, ég og hæstv. sjútvrh., að það sé ólýðræðislegt að leggja þingið niður. Við viljum vera lýðræðissinnar í lýðfrjálsu landi. Hitt er annað mál að sá reglulegi kjördagur til Alþingis sem kveðið hefur verið á um í lögum hefur ekki mikið komið við sögu alþingiskosninga frá lýðveldisstofnun.
Það voru fyrstu kosningarnar sumarið á eftir ef ég man rétt. En það hefur ekki verið sú almenna regla að kosið hafi verið á reglulegum, sem talið er, kjördegi, og þarflaust að hafa fleiri orð um það.
    Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, ítreka það sem ég sagði um þá leiðbeiningu sem stjórnarskráin gefur með 6. og 7. gr. þar sem talað er um forsetakosningar. Ég vék að þessu í minni ræðu með málefnalegum hætti að ég hélt, en hæstv. ráðherra kaus að víkja ekki að þeim ummælum mínum efnislega heldur þrástagaðist á því að lögin kveði á um það að ríkisstjórninni sé rétt að leggja Alþingi niður í hálfan mánuð eða svo. Það er nú ekki minn skilningur. Það getur ekki verið skilningur neins alþingismanns sem ber virðingu fyrir sjálfum sér og ber virðingu fyrir þingræðinu og lögunum. Ég er meira að segja ekki alveg sannfærður um að sá gamli Sósíalistaflokkur, sem sumir vilja nú ekki lengur kannast við, hafi verið þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin gæti eftir hendinni lagt Alþingi niður. En það má vera að hið nýja Alþýðubandalag, ég tala nú ekki um eins og það er orðið núna, sé að verða helsti talsmaður þess að þess hlutverk í ríkisstjórninni sé helst að leggja þingið niður.