Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Af því að orði var vikið að Sósíalistaflokknum og skotið um leið hýru auga hér til hægri frá ræðupúltinu að einum ráðherrastólnum, þá fannst mér ástæða til þess að leggja orð í þennan belg þó þegar hafi allmikið verið sagt satt að segja hér í dag og sé kannski ekki ástæða til þess að ræða málin mikið ítarlegar því hér hefur sennilega flestu skynsamlegu verið til haga haldið sem hugsast getur í þessu máli, ekki flóknara en það nú er.
    Eins og kunnugt er hafði ríkisstjórnin gert ráð fyrir því að kjördagur yrði annar laugardagur í maí og um það var full samstaða í stjórnarflokkunum. Alþb. fyrir sitt leyti stóð að þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að miða við það. Ég man ekki betur en forsrh. hafi kynnt það fyrir forráðamönnum stjórnarandstöðuflokkanna strax í október í haust án þess að það væri mikil harka í mótmælum af hálfu stjórnarandstöðunnar þá, a.m.k. mundi mönnum ekki detta í hug orðið kraftbirtingarhljómur þegar hugsað er til þeirra mótmæla. Síðan var það ákveðið auðvitað af hæstv. forsrh. að ræða málin frekar og þá kom í ljós að Sjálfstfl. var algjörlega andvígur þessum kjördegi, sem þó er kveðið á um í lögum frá árinu 1987, kjördegi sem var ákveðinn með breytingu á kosningalögunum sem allir flokkar stóðu að á sínum tíma. Það var mikil samstaða um þessa breytingu á kosningalögunum sem var fjallað um um þessar mundir.
    Rökin sem hv. 2. þm. Norðurl. e. flytur fram fyrir máli sínu eru þau að þegar komið er fram til 11. maí séu liðnir nokkrir dagar fram yfir kjörtímabilið og landið sé þess vegna þinglaust í 16 daga í raun og veru. Hins vegar hafði ríkisstjórnin borið þessi mál undir hina vísustu menn og niðurstaða þeirra var sú að það væri ekki mótmæla vert að styðjast við 11. maí og að sjálfsögðu hefur ríkisstjórnin ekki haft áhuga á neinu öðru en því að fara að lögum í þessum efni, lögum landsins og stjórnarskrá. Á því er enginn vafi og óþarfi að vera að gera ríkisstjórninni það upp. Þó að sumum finnist hún vond, kannski t.d. hv. 2. þm. Norðurl. e., þá er óþarfi fyrir hann að vera að gera ríkisstjórninni það upp að hún hafi af sérstökum fantaskap sínum og andúð á lýðræðinu fundið það upp að láta kjósa 11. maí. Það var nú ekki þannig.
    Eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. veit og aðrir hér í þessari virðulegu deild, þá eru margir sanngjarnir menn í ríkisstjórninni og vilja hafa það sem sannast reynist á hverjum tíma og sæti síst á mönnum, a.m.k. í þessari deild, að vera að hafa uppi hugmyndir um annað að mér finnst. Mér finnst satt að segja málflutningur hv. 2. þm. Norðurl. e. tæplega sæmandi jafn þingvönum manni og hann er. Mér finnst hann strákslegur og í raun og veru algjör óþarfi að vera að ætla mönnum það með dylgjum að þeir vilji brjóta stjórnarskrá landsins og grundvallarforsendur hennar á bak aftur. Það er ekkert slíkt uppi að sjálfsögðu. Ég verð að segja það að oft tekst hv. 2. þm. Norðurl. e. mikið betur upp en honum hefur tekist í dag. Það kemur iðulega fyrir að hann er mikið skýrari en mér

hefur fundist hann vera í dag, hvað sem veldur því, virðulegi forseti.
    Þegar ríkisstjórnin stendur svo frammi fyrir því að um það getur ekki verið friður við Sjálfstfl., sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og öflugur flokkur hér í málflutningi á Alþingi, a.m.k. hér í efri deild, hvað sem um þá neðri má segja, þá náttúrlega er farið að leita sátta í málinu. Sátta. Og það kemur á daginn að Sjálfstfl. leggur ofurkapp á málið. Ég vona að einhverjir virði manni það nú til vorkunnar og ráðherrunum yfirleitt að það hafi runnið á þá tvær grímur þegar þeir stóðu frammi fyrir því annars vegar að sitja undir tvisvar sinnum lengri ræðum hv. 2. þm. Norðurl. e. um þingsköp og utan dagskrár hér í vetur og hins vegar því að sættast bara á þann 20. Það má kalla það heigulshátt af ríkisstjórninni út af fyrir sig að hrökkva svo fyrir þessum kröfum Sjálfstfl. en það er þó gert. Enginn er út af fyrir sig samt að kenna Sjálfstfl. um það fyrir fram þó að illa kunni að viðra þann 20. apríl. Eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir vék að áðan, þá er sjaldan á vísan að róa með veður hér á landi. (Gripið fram í.) Svo þurfa menn að eiga regnhlífar, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson bendir á. Er það þörf ábending frá honum á þessum degi.
    Niðurstaðan er því sú að menn eru að reyna að leita hér sátta og komast að sanngjarnri og drengilegri niðurstöðu en þá vill svo undarlega til að leiðtogi Sjálfstfl. hér í þessari deild prjónar upp með óbótaskömmum á ríkisstjórnina fyrir það að hún skuli hafa orðið við þeim ábendingum sem fram hafa komið frá Sjálfstfl. Það er vandlifað í þessum heimi, ég verð að segja það.
    Ég held að þessi niðurstaða sé svona eftir atvikum góð, eins og málamiðlunarniðurstöður oft eru, og sé svo sem ekkert annað að gera en að búa við hana. Hins vegar er auðvitað ljóst og mikið umhugsunarefni að þetta verða þá væntanlega fjórðu vetrarkosningarnar, kosningarnar 1979, 1983, 1987 og 1991 voru allar á þessum tíma, þrennar í apríl, og kosningarnar 1979, eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir gat um, fóru fram í desember, þann 2. og 3. og tókst í rauninni furðuvel til. Það var auðvitað ekki þingmönnum að þakka að það tókst sæmilega til í það skiptið. Það er hins vegar kannski vert að rifja það upp að það var Sjálfstfl. sem beitti sér sérstaklega fyrir því að stefna þjóðinni út í þær kosningar og hafði þar alveg sérlegan stuðning Alþfl., eins og hv. 3. þm. Vestf. örugglega man og hefur í rauninni látið í skína í málflutningi sínum hér í dag að hafi kannski ekki verið ákaflega skynsamlegt því það er hæpið fordæmi upp á seinni tíma.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að hér sé komist að niðurstöðu sem menn muni una við og kvaddi mér aðallega hljóðs vegna þess að það var innt eftir því hver mundi vera afstaða okkar flokks í þessu efni. Hún hefur legið fyrir lengi og er sú að við hefðum viljað miða við þann 11. maí, eins og lög gera ráð fyrir, en féllumst á þetta til samkomulags.