Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vildi gjarnan að hv. 2. þm. Norðurl. e. yrði kallaður hér í salinn. Hann er vanur að kalla á menn með stuttum fyrirvara hér í þingsal og ég tel eðlilegt að hann sé kallaður hér inn.
    Ég vil, virðulegi forseti, byrja á því að harma þau ummæli hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldórs Blöndals að þeir þingmenn sem hafa þá skoðun að það standi í stjórnarskrá og löggjöf landsins að kjósa 11. maí beri enga virðingu fyrir sjálfum sér. Ég trúi því vart að þingmanninum sé sjálfrátt með svona ummælum og sé með því að segja að aðeins þingmenn Sjálfstfl. beri virðingu fyrir sjálfum sér. Við hljótum að harma svona ummæli í þessum umræðum hér. Hitt er svo annað mál að ríkisstjórnin hefur fallist á og lagt það til að kosningar verði 20. apríl. En það er ekki ríkisstjórnin sem tekur endanlega ákvörðun í því máli, heldur er það Alþingi Íslendinga. Og til þess að kosningar geti farið fram 20. apríl þarf Alþingi Íslendinga að setja lög um það. Ríkisstjórnin hafði vænst þess að það gæti skapast um þetta bærileg samstaða og ég vænti þess enn að svo geti orðið. Ef Alþingi Íslendinga vill ekki á það fallast, þá munu kosningar fara fram 11. maí samkvæmt þeim lögum sem sett voru á Alþingi 1987 og því fær enginn breytt nema Alþingi Íslendinga sem setti fram þennan vilja á þeim tíma.
    Það er að mínu mati rétt að þessi mál verði rædd frekar í framhaldi af þessari umræðu. Það hefur komið hér skýrt fram að það er verið að fara að eindregnum vilja þingflokksformanns og varaformanns þingflokks Sjálfstfl. fyrir hönd þingflokksins í þessu máli. En ég endurtek þann vilja stjórnarflokkanna að við vildum fremur að þingkosningarnar færu fram 11. maí en teljum mjög slæmt að það verði efnt til deilna og óvissu um þetta mál og því þarf að sjálfsögðu að svara sem allra fyrst ákveðið hvenær þingkosningarnar fari fram, því að almenningur í landinu á kröfu á því að fá um það fullvissu sem allra fyrst. Ef hér á að breyta lögum, þá er mikilvægt að það gerist á allra næstu dögum þannig að enginn vafi leiki á um það hvenær alþingiskosningar eigi að fara fram nú á þessu vori.