Fangelsi og fangavist
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Vesturl. fyrir það viðhorf sem fram kom í máli þingmannsins, að lýsa raunar fylgi við meginstefnumið þessa frv., enda held ég að það hafi vel komið fram við meðferð málsins í Nd. að menn eru almennt sammála um það meginmarkmið.
    Hins vegar er það rétt sem kom fram í máli hv. þm. að nokkur meiningarmunur var einmitt um það atriði sem þingmaðurinn gerði sérstaklega að umræðuefni í sinni ræðu, þ.e. málskotsréttinn, og það er rétt að það kom fram brtt. í Nd. sem var felld, hafði raunar nokkuð verið rædd í allshn. Nd. en aukinn meiri hluti þeirrar nefndar var hins vegar á þeirri skoðun sem ofan á varð í deildinni.
    Ef ég hef skilið hv. 6. þm. Vesturl. rétt var spurningin um það hvort ekki væri eðlilegt að við ákvörðun um einangrun fanga í fangelsi, sem alla jafna er tekin af fangelsisstjóra, kæmi Fangelsismálastofnun til skjalanna líka. Ég get út af fyrir sig alveg fallist á að það væri ekki óeðlilegt og ég tel í raun að samstarfið á milli Fangelsismálastofnunar og fangelsanna og daglegrar stjórnar fangelsanna sé það náið að svo sé í raun. Hins vegar var ágreiningurinn í Nd. um annað. Það var um málskotsréttinn, hvort málskot vegna ákvörðunar sem tekin er í fangelsinu ætti að vera til Fangelsismálastofnunar og síðan til dómsmrn.
    Niðurstaðan þar varð sú að það væri ekki nægilega skilvirk aðferð og á það get ég vissulega alveg fallist. Að öðru leyti tel ég að náið samstarf aðila Fangelsismálastofnunar og framkvæmdaraðilanna í fangelsunum sé nánast sjálfsagður hlutur því að í sjálfu sér tel ég þar um að ræða jafnsett stjórnvald og það finnst mér vera aðalatriði málsins.
    Ég vil svo taka undir orð þingmannsins um það að hlúa beri að starfsemi Fangelsismálastofnunar, sem er nýr gróður á þessum vettvangi, sem best. Þó að ekki hafi tekist að fjölga þar stöðugildum, þá get ég undir það tekið að á því er full þörf.