Störf frambjóðenda hjá ríkisfjölmiðlum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra upplýsingar af hans hálfu. Þær gefa hins vegar tilefni til þess af minni hálfu að koma hér með nokkrar ábendingar og frekari athugasemdir. Það liggur fyrir að settar hafi verið reglur 13. febr. 1987 og það séu þær reglur sem í gildi eru. Það kom einnig fram að í þeim fælist að inn í fréttir og fréttatengda þætti, fasta þætti og fréttir, eigi ekki að koma frambjóðendur í þingkosningum. Það væri ekki ráð fyrir því gert og fréttastjórar ættu að sjá til þess að svo væri ekki.
    Mér sýnist að það sé full þörf á því fyrir Ríkisútvarpið að fara yfir þessi mál því að það virðist svo sem þessu hafi ekki verið sinnt, í rauninni ekki fylgt eftir miðað við það að í laugardagsþætti Ríkisútvarpsins, hljóðvarpsins, var starfandi frambjóðandi sem er ákveðinn í fyrsta sæti eins framboðslistans hér í Reykjavík. Viðkomandi stjórnandi reyndar svaraði því til opinberlega að hann væri ráðinn alveg fram á útmánuði eða þangað til framboðsfrestur væntanlega rynni út. Það kom mér nú sérstaklega á óvart þar sem í hlut átti einn af frambjóðendum Kvennalistans að Kvennalistinn skuli ekki grípa í taumana þegar um svona er að ræða, svo sjálfsagt sem það ætti að vera að tengja ekki saman aðstöðu hjá ríkisfjölmiðlum og pólitík með þessum hætti. Ég er ekki að leggja mat á stjórnun þessa þáttar fyrir sig, heldur bara benda á að þetta er hættuleg braut.
    En það eru ýmis fleiri dæmi alveg fram undir þetta. Menn eru að heyja prófkjörsbaráttu í kosningum. Alþfl. þessa dagana hér í Reykjavík. Ég hef orðið var við að einn af frambjóðendum í því prófkjöri, reyndar fyrrverandi kollega hæstv. menntmrh., hefur verið inni í þessum þáttum nú að undanförnu. Ég heyrði í honum á laugardaginn var í þættinum ,,Hér og nú`` og ég hef heyrt að hann hafi verið inni í Ríkisútvarpinu í fréttatengdum þáttum, jafnvel í gær, þó ég hafi ekki sannanir fyrir því. Ég var erlendis en ég hef heyrt þetta. Svoleiðis að ég held að það sé fyllsta ástæða til þess fyrir Ríkisútvarpið að fara yfir þetta.
    Ég er heldur ekki sammála hæstv. menntmrh. að aðalvandinn sé kannski auglýsingarnar. Það er vandamál fyrir flokkana og vandamál fyrir lýðræðið í landinu vissulega. Á að hleypa stjórnmálaauglýsingum inn í ríkisfjölmiðlana og inn í fjölmiðlana almennt og eiga stjórnmálaflokkarnir að standa í því? En þar veit almenningur þó að auglýsing er á ferðinni. Og það er dálítið annað þegar stjórnmálamenn, sem eru í starfi eins og þingmenn, koma fram þá vita menn fyrir hvað viðkomandi stendur, en almenningur í landinu hann fylgist kannski ekki grannt með því hver er akkúrat kominn í framboð, orðinn fastur í sæti eftir prófkjör eða forval, eða hvað það heitir hjá flokkunum. Það er það sem er ekki hvað síst viðsjárvert og ég hvet til þess að yfir þetta verði farið.
    Ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til að afla sér upplýsingar um hvernig að þessum málum er staðið annars staðar á Norðurlöndum almennt varðandi fjölmiðlana. Ég er ekki að segja að það eigi að þurfa að

negla allt í fastar reglur. Það eru hefðir sem ættu að gilda í svona málum og auðvitað ætti líka að gera kröfur til þeirra sem eru þátttakendur í þessu sjálfir, að vera ekki að nota sér það þar sem smugurnar eru, þó að freistingin sé vafalaust fyrir hendi.