Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 508 að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:
    ,,Má vænta þess að bætt verði úr lélegum hlustunarskilyrðum útvarps austur af landinu, m.a. með styrkingu langbylgjukerfisins?``
    Hér er um að ræða mál sem hefur borið fyrir á Alþingi, kannski ekki varðandi Austurland sérstaklega, en á fyrri árum man ég eftir. En það hafa ekki orðið þær úrbætur sem eðlilegt er að krafa sé gerð um. Ástandið er þannig á miðunum út af Austurlandi, sérstaklega þegar fjær dregur, þegar komið er kannski 40 -- 50 mílur frá landi að það heyrist ekkert í íslenska Ríkisútvarpinu. Sjómennirnir þar og farmenn sem eru á þeim slóðum, auðvitað eru það aðallega sjómenn sem í hlut eiga, njóta ekki íslenska Ríkisútvarpsins á vinnustöðum sínum á miðunum. Þetta gerist sérstaklega þegar kvölda tekur, þá næst ekki Ríkisútvarpið þegar komið er 50 mílur austur af landinu. Þá taka við erlendar stöðvar og yfirgnæfa það og trufla þannig að hlustunarskilyrði eru engin. Þetta er varðandi hljóðvarpið sem ég er að spyrja hér sérstaklega um. Síðan er það sjónvarpið. Þar eru málin náttúrlega miklu lakari og full ástæða til þess einnig að gera kröfur um að úr því verði bætt. Langbylgjusambandið, langbylgjustöðvarnar, hafa verið vanræktar og það kerfi sem þeim tengist. Það varðar auðvitað miðin við landið og þá sem þar eru að störfum, en það snertir einnig öryggiskerfið í landinu og öryggismálin, eins og menn urðu varir við í óveðrum hér upp úr áramótunum þegar allt fjarskiptasamband Ríkisútvarpsins féll út í heilu landshlutunum. En ég er ekki að blanda því út af fyrir sig í þetta mál.
    Þetta hefur versnað frá því sem var hér fyrr á árum þegar langbylgjustöðin á Eiðum náði út á miðin, þjónaði miðunum með ágætum hér fyrr á árum. Og ég vænti þess að það séu ráðagerðir uppi um að bæta úr þessu algerlega óviðunandi ástandi.