Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra skynji það að þau orð sem hér eru mælt almennt eru af góðum hug varðandi málefnið, sem ég veit að hann ber fyrir brjósti sem og við önnur hér á Alþingi. Þess vegna erum við að hvetja til að horfið verði frá þeirri stefnu, sem ríkt hefur lengi, að skerða lögmarkaða
tekjustofna Ríkisútvarpsins sem mér heyrist að séu þær upphæðir í rauninni sem þyrfti samkvæmt hugmynd um fimm ára áætlun til uppbyggingar langlínukerfisins við landið.
    En aðeins svo þetta, virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að spurt er um Austurland sérstaklega er í fyrsta lagi það að sjómenn eystra hafa rætt þessi mál við mig, en einnig það að aðstæður varðandi hljóðvarp a.m.k. eru lakari austur af landinu heldur en sums staðar annars staðar vegna þess að þar er nálægðin við meginland Evrópu og hlustunarskilyrðin varðandi stöðvarnar þar eru miklu betri en við þekkjum t.d. á þessu svæði og þær yfirgnæfa íslenska Ríkisútvarpið á þeim bylgjulengdum sem sent er út.