Málefni stundakennara
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Minn tími er enn knappari en ráðherrans og hefði ég þurft enn lengri tíma heldur en fimm mínútur sem hann fær þó. En ég ætla að reyna að gera langt mál stutt. Ég vil þakka ráðherranum svör hans þó mér finnist einkennilegt ef þessar fyrirspurnir eru allar á misskilningi byggðar. Ég veit ekki hvernig hægt er að túlka einhliða ákvörðun öðruvísi en að hún er einhliða að því leyti til að það er ekki haft neitt samráð við stundakennara sem þarna eiga hlut að máli. Ég efast ekki um að tekið sé tillit til ýmissa þátta þegar verið var að semja reglurnar sem nú gilda. Það voru ekki mín orð.
    Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að margir af stundakennurum beinlínis lækki í launum ef þeir taka nú að sér kennslu, þeir þurfi að hlíta öðrum reglum en hingað til, þannig að það er verið að skerða þeirra kjör. Þetta á sérstaklega við um þá stundakennara sem kennt hafa mikið og lengi. Ef við tökum Háskólann fyrir, þá eru mjög margir stundakennarar þar sem kenna ákveðin námskeið og nýta þar með sína sérþekkingu. Það er mjög nauðsynlegt fyrir Háskólann, og sjálfsagt fyrir hina skólana líka en Háskólann þekki ég best, að geta notið sérfræðiþekkingar manna til þess að kenna ákveðin námskeið. Í Háskólanum er aldrei hægt að koma upp allri þeirri sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er innan ákveðinna fræðigreina. Þess vegna getur verið nauðsynlegt og mjög æskilegt að fengnir séu stundakennarar sem kenna ekki bara örfáa tíma heldur kannski heil námskeið sem taka yfir tvær til þrjár vikur eða jafnvel heilt missiri. Og það er mjög mikilvægt að þeirra kjör séu ekki lakari heldur en þeirra sem kenna við hliðina á þeim innan Háskólans.
    Nú er þannig háttað að stundakennarar hafa lagt niður kennslu eða ekki tekið að sér stundakennslu og eru fastir kennarar Háskólans beðnir um að taka að sér meiri kennslu. Þetta þýðir að fastir kennarar þurfa að kenna mjög mikið í yfirvinnu sem verður miklu dýrara fyrir Háskólann. Þetta er hægt að gera í ákveðinn tíma en það getur ekki gengið til lengdar. Þess vegna tel ég að þarna sé farið út á mjög hættulega braut, að virða ekki rétt þessa fólks sem þarna er að kenna. Þrátt fyrir að stundakennarar séu í mörgum stéttarfélögum og þeirra stéttarfélög semji fyrir þá um þau kjör sem þeir njóta á sínum vinnustað, þá er þetta einn mjög stór hópur sem kennir að vísu mismikið innan Háskólans, en hefur myndað samtök, Samtök stundakennara við Háskóla Íslands. Ég tel mjög mikilvægt að þeirra réttur sé virtur og það sé reynt að ná friði í þessu máli þannig að stundakennarar fái að koma að þessu máli sem samningsaðili en ekki að það sé gengið fram hjá þeim. Þess vegna vil ég halda því fram að þarna sé um einhliða ákvörðun ráðherra að ræða.