Reglur um fréttaflutning
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 530 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um hvaða reglur gildi hjá Ríkisútvarpi og sjónvarpi um fréttaflutning af menningar- og listaviðburðum utan höfuðborgarsvæðis.
    Ástæða þess að svo er spurt er sú að þrátt fyrir að víða um land sé blómleg menningar- og listastarfsemi í gangi þá má það heita viðburður ef sagt er frá því í fréttum, fréttatengdum þáttum eða þeim þáttum sem helgaðir eru menningu og listum í ríkisfjölmiðlum. Öðru máli gegnir hins vegar um fréttir af lista- og menningarlífi hér í Reykjavík. Meira að segja stórviðburðir líkt og svokallaðar M-hátíðar sem haldnar hafa verið úti á landi hafa ekki fengið mikið rúm í fréttatímum Ríkisútvarps eða sjónvarps. Víða um land eru starfandi áhugaleikhópar sem setja upp leiksýningar árlega, málverka - og listmunasýningar eru fastir liðir og oft verk manna sem ekki eiga greiðan aðgang að sýningarsölum hér í höfuðborginni. Tónleikahald, skákmót og þannig mætti lengi upp telja lista- og menningarviðburði sem setja svip á lífið utan höfuðborgarsvæðis.
    Það er hægt að segja að frumsýningar áhugaleikhópa úti á landi séu ekki minni atburðir í lífi þeirra sem að sýningunni standa og þeirra sem á horfa og hlýða en frumsýningar í leikhúsum í höfuðborginni eru þeim sem þeirra njóta. Það hefur hins vegar verið erfitt að fá fjölmiðla til að viðurkenna fréttagildi menningar- og listalífs utan höfuðborgarsvæðis og jafnvel dæmi þess að það hafi verið neitað um fréttaflutning þegar til þeirra var leitað. Hinir svokölluðu frjálsu fjölmiðlar eru lítið skárri en fólkið í landinu gerir að sjálfsögðu meiri kröfur til ríkisfjölmiðla í þessum efnum.
    Því spyr ég: ,,Hvaða reglur gilda hjá Ríkisútvarpi og sjónvarpi um fréttaflutning af menningar- og listaviðburðum utan höfuðborgarsvæðis?``