Reglur um fréttaflutning
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. hans svör og fannst hans eigin orð öllu betri en það svar sem var flutt frá Ríkisútvarpinu. Ég vil líka þakka þingmönnum undirtektir við þessa fsp.
    Í svari hæstv. ráðherra kom fram að í 21. gr. laga um Ríkisútvarpið segir: ,,Ríkisútvarpið segir fréttir af hvers konar vísindastörfum, lista- og menningarlífi,`` o.s.frv., allt með hliðsjón af hinni lögbundnu meginreglu um hlutverk Ríkisútvarpsins og samkvæmt almennu fréttamati. Jafnframt kemur fram að engar fastmótaðar reglur hafa verið settar um fréttaflutning Ríkisútvarpins af menningar - og listaviðburðum utan höfuðborgarsvæðis. Síðan kom upptalning listaviðburða sem hafa fengið rúm í fréttum eða öðrum dagskrárliðum ríkisfjölmiðlanna.
    Engu að síður virðist ,,almennt fréttamat`` þessara fjölmiðla vera með þeim hætti að fréttir frá lista - og menningarviðburðum á höfuðborgarsvæðinu hafa forgang og væri fréttamatið e.t.v. með öðrum hætti ef fréttamenn væru í fullu starfi vítt um land. Ég minni á, eins og við fsp. sem ég flutti áðan, að jafnrétti verður að vera þegar um opinbera þjónustu er að ræða. Margir þeirra sem standa fyrir menningar- og listaviðburðum úti á landi kunna þá sögu hve erfitt er að koma þeim á framfæri í fjölmiðlum landsins. Lista- og menningarstarf utan höfuðborgarsvæðis er ekki síður mikilvægt þjóðinni en það starf sem unnið er á þessu sviði í höfuðborginni.