Aðgangur ungmenna að skemmtistöðum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Svarið við fyrirspurninni er já, reglurnar eru mismunandi. Í 43. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 53/1966 segir að þegar barni eða ungmenni sé bannaður aðgangur að tilteknum skemmtunum, þ.e. kvikmyndasýningum, öðrum opinberum skemmtunum og hvers konar öðrum skemmtunum, þá skuli miðað við fæðingarár þeirra en ekki fæðingardag.
    Skömmu eftir að ofangreindri lagagrein var breytt í þessa veru árið 1983, sbr. lög nr. 14/1983, gaf dóms - og kirkjumálaráðuneytið út bréf dags. 13. janúar 1984 til allra lögreglustjóra á landinu. Í því bréfi áréttaði dóms - og kirkjumálaráðuneytið að aldursmark í áfengislögum nr. 82/1969 er varða 18 ára aldur sem skilyrði fyrir dvöl á veitingastað að kvöldi til þar sem vínveitingar eru leyfðar og 20 ára aldur sem skilyrði í sambandi við sölu og veitingar áfengis miðist við fæðingardag en ekki fæðingarár. Því komi ákvæði 43. gr. laga um vernd barna og ungmenna, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 14/1983, ekki til álita í því sambandi. Því er svarið við fsp., eins og ég sagði áðan, já. Það gildir önnur regla en fram kemur í 43. gr. laga um vernd barna og ungmenna um aldursviðmiðanir, um aðgang að stöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga, enda hefur verið litið svo á að ákvæði þeirra laga breyti ekki ákvæðum áfengislaga.
    Niðurstaðan af þessu er svo að sjálfsögðu sú að þetta verður náttúrlega að samræma. Og það væri eðlilegast að gera það með því að breyta lögum. Það væri eðlilegast að taka á þessu með lögunum um vernd barna og ungmenna. Svo vel vill til að þau eru einmitt til meðferðar í hv. menntmn. Ed. þessa dagana þar sem hv. þm., fyrirspyrjandi, á sæti. Um leið og ég þakka henni fyrir að vekja athygli á þessu misræmi vil ég nefna það við hana að það mál yrði tekið þar sérstaklega til meðferðar.
    Segja má að það sé nokkuð athyglisvert að ræða þetta mál út frá lögunum frá 1966 eða lögunum frá 1983, í ljósi þeirrar reynslu sem hefur verið að ganga yfir að því er varðar áfengisveitingastaði hér á undanförnum árum. Þeir eru núna í Reykjavík milli 90 og 100.
Þetta eru jafnvel skyndibitastaðir svokallaðir þar sem börn og unglingar fara inn og kaupa sér mat, þó að í lögunum sé í raun og veru strangt tekið sagt að þetta fólk megi ekki fara inn á staðina nema í fylgd með fullorðnum af því að þar er selt áfengi.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við athugum þessi mál miklu betur. Ég held að við séum að sumu leyti með úreltar reglur og þær eru fyrst og fremst úreltar vegna þess að þær halda ekki, en líka það að framkvæmdin hefur verið hjá sveitarfélögunum. Það er Reykjavíkurborg sem gefur út þessi vínveitingaleyfi og eftir að svo er komið að svo að segja allir skyndibitastaðir eru með vínveitingaleyfi, 11, 12 og 13 ára börn geta farið þar inn ein og keypt sér skyndibita, eins og það heitir, þá er náttúrlega alveg augljóst mál að sá vandi sem reynt er að sporna við

í þessum lögum snýr allt öðruvísi við heldur en hann gerði þegar lögin voru sett.
    En ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessu misræmi sem er annars vegar á lögum sem heyra undir menntmrn. og hins vegar á framkvæmd sem er á vegum dómsmrn.