Aðgangur ungmenna að skemmtistöðum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Það er greinilegt að þessi mál þarf að athuga miklu betur. Lögin skarast þarna og ég reyndar var búin að taka eftir því að í því frv. sem liggur fyrir í hv. menntmn. var komin inn ný setning þess efnis að annað gildi um staði sem vínveitingaleyfi hafa. En þar sem mér fannst þetta vera nokkuð óljóst, þá leyfði ég mér að bera fram þessa fsp.
    Ég vil segja það að lokum að það er ekki vegna þess að það sé mér kappsmál að ungmenni fái sem yngst aðgang að vínveitingastöðum, heldur hitt að þetta er vægast sagt leiðinlegt mál fyrir ungmenni sem eru saman í skóla og það er ætlast til nákvæmlega þess sama af þeim í skólanum, en þegar kemur að því að fara út á kvöldin, þá eru það bara sumir sem fá aðgang að stöðunum.