Sala á veiðiheimildum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Alþingi hefur því miður ekki megnað að marka fiskveiðistefnu, hvað þá sjávarútvegsstefnu, sem geti vísað til framtíðar í landinu. Ég tel að stefna eins og sú sem nú er í gildi og í rauninni byggist að mestu á óheftum markaðslögmálum í sambandi við uppkaup á fiskveiðiréttindum, á veiðirétti til einstakra útgerða og skipa, sé kerfi sem ekki sé hægt að búa við í því formi sem nú gildir. Hæstv. ráðherra vísaði til að þetta samrýmdist hagsmunum hins almenna borgara eða unnið væri innan þeirra marka í sambandi við löggjöfina. Hver er hinn almenni borgari í þessu landi? Er það fólkið í sjávarútvegsplássum sem býr við það óöryggi að lífsbjörgin getur verið keypt frá því með núverandi kerfi? Það er hið allra hættulegasta við núverandi löggjöf og framkvæmd hennar. Skorturinn á að taka tillit til hagsmuna íbúa sem hafa rekið útgerð, þar sem stunduð hefur verið útgerð um langan tíma, og síðan það sem snýr raunverulega að eignarréttinum og tengslunum á milli upphafsgreinar laganna og síðan útfærslunnar í öðrum greinum. Ég hef því miður ekki tíma til að fara út í það hér, en ég vildi nefna þetta.