Sala á veiðiheimildum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get með engu móti fallist á skýringar eða svar hæstv. ráðherra, þó ég þakki þetta svar, vegna þess að það er náttúrlega auðséð að það er verið að selja kvótann úr ýmsum byggðarlögum. Hæstv. ráðherra vitnar í 11. gr. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heimilt er að framselja aflahlutdeild`` o.s.frv. Hvað er að framselja í íslensku máli? Það er að selja, það er ekki að leigja. Lögin eru misvísandi og ég sé ekki annað, ef sumar byggðar eiga ekki bara að hrynja eins og nú horfir, en það verði að fara í prófmál út af framkvæmd og skilningi hæstv. ráðherra og ráðuneytis á 1. gr. laganna, þó að vitnað sé í 11. og 12. gr. en það er misvísandi. Ef um leigu væri að ræða hefði átt að standa framleigja en ekki framselja.
    En það er fleira sem er athugavert í þessum lögum, t.d. stingur í stúf það sem segir í II. bráðabirgðaákvæði, með leyfi forseta. Þar segir: ,,Ekki er leyfilegt að framselja aflahlutdeild þessara báta fyrr en að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara``. Það er verið að segja að að fimm árum liðnum megi selja kvótann. Nú er ástandið þannig að menn eru farnir að telja sér til eignar þennan hlut sem þeir eiga ekki miðað við 1. gr. ef á að taka hana bókstaflega.