Sala á veiðiheimildum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki um neitt brot á lögum að ræða. Hins vegar verðum við að vænta þess að þeir sem kaupa þessi skip viti hvað þeir eru að gera. Ég hef sagt hér að viðkomandi aðilar hafa enga tryggingu fyrir því að þeir haldi þessum veiðirétti um aldur og ævi. Það er alveg ljóst í þessum lögum. ( SV: Skapast ekki hefð í þessu eins og öðru?) Það skapast engin hefð vegna þess að lögin eru alveg skýr og þetta verða viðkomandi aðilar að hafa í huga. En auðvitað getum við ekki ráðið markaðsverði á skipum. Þar er framboð og eftirspurn sem ræður ríkjum og menn geta sagt því miður, en það eru staðreyndir málsins. Auðvitað geta þeir sem greiða mjög hátt verð farið illa út úr slíkum kaupum ef óvarlega er farið.