Veiðiréttur smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hér er nú í reynd um tvær fyrirspurnir að ræða en ég skal reyna að svara þeim innan tilskilinna tímamarka en ef það tekst ekki þá vænti ég þess að ég geti tekið af síðari tíma mínum. Að því er varðar fyrri spurninguna þá vil ég segja eftirfarandi:
    Samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem komu til framkvæmda um síðustu áramót er meginregla varðandi úthlutun veiðiheimilda til smábáta sú að byggt er á veiðireynslu áranna 1987 -- 1989 en meðaltalsafli tveggja bestu áranna er lagður til grundvallar. Er það gert til að koma til móts við þá aðila sem af ýmsum ástæðum hafa ekki fulla viðmiðun við öll þrjú árin. Aftur á móti er samkvæmt lögunum ekki tekið tillit til frátafa frá veiðum eins og gert var árið 1984 þegar úthlutun veiðiheimilda fór fram til stærri skipa, enda gafst útgerðum þá ekki kostur á að velja tvö bestu árin heldur var alfarið byggt á meðaltali þriggja ára.
    Meginundantekning frá þessari almennu reglu um úthlutun veiðiheimilda til smábáta er sú að útgerðum báta undir 6 brúttólestum sem skráðir voru á skipaskrá fyrir 31. des. 1989 og útgerðum báta sem voru undir 6 brúttótonnum eftir þann tíma er fyrir gildistöku laganna 18. maí sl. gefinn kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 milli leyfis til veiða með línu og handfærum auk dagatakmarkana í stað aflahlutdeildar. Veiðar þeirra báta sem þennan kost velja eru því frjálsar innan þeirra takmarka sem leyfilegur dagafjöldi á sjó setur.
    Allir bátar 6 brúttólestir og stærri fá fasta aflahlutdeild í leyfilegum heildarafla ásamt þeim bátum undir 6 brúttólestum sem þann kost velja. Um veiðar þessara báta gilda allar sömu reglur og um veiðar fiskiskipa 10 brúttólestir og stærri. Gildir það jafnt um framsal veiðiheimilda og að hálfur línuafli á tímabilinu janúar og febrúar, nóvember og desember telst aðeins að hálfu til aflamarks.
    Drög að frumvarpi um stjórn fiskveiða voru á sínum tíma samin af ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu sem sett var á fót samkvæmt ákvæðum þeirra laga um stjórn fiskveiða sem féllu úr gildi um síðustu áramót. Í nefndinni var almenn samstaða um að leggja niður sóknarmarkið og láta sem flestar sömu meginreglur gilda um veiðar allra fiskiskipa án tillits til stærðar. Eina undantekningin sem gerð var í frumvarpinu var um veiðar báta undir 6 brúttólestum.
    Þegar kvótakerfið var tekið upp á sínum tíma var ákveðið að draga mörkin við 10 brúttólestir. Bátar, t.d. á stærðarbilinu 10 -- 20 brúttólestir, hafa því þurft að sæta ströngum aflatakmörkunum allt frá árinu 1984 á meðan bátar undir þeim mörkum hafa haft mun meiri möguleika til að auka hlut sinn. Um áramótin 1987 -- 1988 var gerð sú breyting varðandi veiðiheimildir smábáta að sett var ákveðið aflahámark á veiðar þessara báta sem völdu að stunda netaveiðar. Krókaveiðar voru hins vegar frjálsar og leiddi það til þess að þeir bátar sem slíkar veiðar stunduðu þurftu ekki

að taka á sig þær skerðingar í þorskafla sem því miður hafa reynst nauðsynlegar allt frá árinu 1987. Má í því sambandi nefna að aflamark fiskiskipa af þorski hefur verið lækkað um tæp 24% á þessum tíma en það hefur einungis komið niður á fiskiskipum 10 brúttólestir og stærri og þeim smábátum sem stunda netaveiðar. Þetta hefur því skiljanlega leitt til mikillar óánægju og skapað mismunun milli veiðarfæra og stærðarflokka fiskiskipa.
    Loks er á það að benda að margir bátar sem mælast undir 10 brúttólestum eru í mörgum tilvikum mun stærri og afkastameiri fiskiskip en bátar yfir 10 brúttólestir en þessi mismunun á milli veiðiheimilda hefur einmitt verið hvati til þess að byggja eins afkastamikla smábáta og frekast er unnt til að auka veiðimöguleika bátanna og þar með að rýra hlut þeirra skipa sem fyrir eru í flotanum. Með því að taka upp samræmdar reglur án tillits til stærðar er því verið að koma á auknu jafnræði milli þeirra sem stunda sjósókn.
    Að því er síðari spurninguna varðar þá er í lögum um stjórn fiskveiða að finna ákvæði þess efnis hvernig farið verður að, reynist heildaraflahlutdeild þeirra báta sem velja leyfi með línu og handfærum hafa aukist meira en nemur 25% að meðaltali á næstu þremur árum. Verði það niðurstaðan, að þeir bátar sem þennan kost velja hafi aukið aflahlutdeild sína í heildaraflanum á kostnað annarra sem þessu nemur, verður þeim ákvörðuð aflahlutdeild frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. sept. 1994.
    Aflahlutdeild einstakra báta skal ákvarðast miðað við aflareynslu þeirra á tímabilinu 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1994. Heildaraflahlutdeild þessara báta í upphafi fiskveiðiárs 1. sept. 1994 skal þó aldrei vera hærri en samanlögð hlutdeild sem þessir bátar áttu kost á 1. janúar 1991 miðað við heilt fiskveiðiár. Með þessu er tekin upp nákvæmlega sama regla og gilti um útreikning á aflamarki áranna 1989 og 1990 fyrir þau fiskiskip sem völdu að stunda veiðar með sóknarmarki á árunum 1988 og 1989.
    Ekki er vitað til að þessar reglur hafi haft í för með sér aukna slysatíðni á þeim skipum sem stunduðu veiðar með sóknarmark á árunum 1988 og 1989 en margir bátar, t.d. á stærðarbilinu 10 -- 15 brúttólestir, stunduðu veiðar með sóknarmarki á þessum árum. Enda mega reglur sem þessar ekki verða til þess að menn fari að sýna óvarkárni við sjósókn. Og það er alveg sama hvaða reglur eru settar, það verður ávallt hver og einn sjómaður að meta aðstæður á hverjum tíma og það hlýtur að verða mest ráðandi um slysatíðni.
    Það er skoðun sjútvrn. að mikilvægt sé að ekki þurfi til þess að koma að þessir bátar auki hlutdeild sína umfram þau mörk sem sett eru í lögunum. Við gerð reglugerðar um fyrirkomulag veiðanna hefur eftir fremsta megni verið reynt að koma í veg fyrir að nauðsynlegt reynist að úthluta þessum bátum aflahlutdeild við upphaf þess fiskveiðitímabils sem hefst 1. sept. 1994. Leiði reynslan hins vegar í ljós að veruleg hætta skapist á því að þessir bátar auki hlutdeild

sína umfram mörkin væri einfaldast að fækka leyfilegum sóknardögum og takmarka afla þessara báta með þeim hætti. Á þessari stundu er hins vegar allt of snemmt að spá fyrir um líklega þróun varðandi veiðar þessara báta og ekki tímabært að leggja til breytingar, svo sem að fækka leyfilegum sóknardögum.