Veiðiréttur smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en mér heyrist á svari hans að hann gangi fram hjá þeirri hættu, þeim hvata sem felst í því að þeir, sem eru með kvóta sem er ekki lífvænlegur, velji sér krókaveiðar og sæki allfast. Það er þessi hætta sem ég verð var við víða um land að menn hafa áhyggjur af. Sýnir það ekki eftirlitsleysi með stærð bátanna ef það er þannig að þeir eru mældir minni en þeir eru í raun og veru? Er þá ekki fyrst og fremst að laga það frekar en að leyfa mönnum að komast upp með það, eins og ég hef heyrt, að jafnvel bátar sem eru undir 10 tonnum séu í raun og veru upp undir eða jafnvel yfir 30 tonn? Ég hélt að þetta væri þjóðsaga. En hæstv. ráðherra staðfesti það hér á hv. Alþingi að þetta sé svona.
    Ég tel að sá aflakvóti, sem margir bátar fá á þeim stöðum sem hafa lítinn afla annan en úr smábátum, sé þannig að það verði vandræðaástand. Þeir neyðist annaðhvort til að taka krókaveiðileyfi, gera það sem þeir geta, eða selja kvótann sem --- ja, selja það sem þeir ekki eiga en ráðuneytið heimilar í raun og veru eða a.m.k. hefur ekki afskipti af.