Aflaúthlutun til smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur að það séu mjög opnar heimildir í lögunum um stjórn fiskveiða nr. 38 15. maí 1990. Sú þróun hefur orðið í þessari löggjöf að þessar heimildir hafa verið mjög mikið þrengdar. Ég get ekki gefið hv. þm. annað ráð en að lesa þessa löggjöf og þróun hennar og þá mun hann komast að þeirri niðurstöðu að það er út í hött að halda því fram, eins og hann er að gera, að það sé nú lítið annað að gera í hinum ýmsu vandamálum en að ráðherra breyti þeim reglugerðum sem hann er að gefa út. Það má ekki ræða hlutina með svona lausum hætti. Ef á að taka á vandamálum sem upp koma, m.a. því sem hv. þm. hefur hér flutt fram, þá þarf til þess lagabreytingu, hver sem svo stendur að henni hér á Alþingi, og það þarf að sjálfsögðu meiri hluta Alþingis til þess að samþykkja hana. Þetta verður að vera ljóst og það má ekki gefa því fólki sem margt á um sárt að binda í þessum efnum aðrar hugmyndir því að það væri rangt.