Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Utanrrh. og dómsmrh. ákváðu að setja á laggirnar skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál með vísan til bréfs frá dómsmrn. dags. 6. september 1990. Að mínu mati ber nauðsyn til að tryggja samstarf milli varnarmálaskrifstofu utanrrn. annars vegar og dómsmrn., Almannavarna ríkisins, Landhelgisgæslu og lögreglustjóraembættis í Reykjavík hins vegar um gerð áætlana á sviði öryggis - og varnarmála og almannavarna. Áætlanir og framkvæmd þeirra þarf að samræma svo sem kostur er, ákveða hlutverkaskipti og úrlausn verkefna þannig að ekki rekist á áætlanir varnarliðs og Almannavarna. Þetta á sérstaklega við, en er þó ekki einskorðað við, eftirfarandi þætti: Varnar- og liðsdreifingaráætlanir varnarliðsins á Íslandi á hættu- og ófriðartímum, birgða- og stjórnstöðvaráætlanir til stuðnings því, varnar- og liðsaukaáætlanir Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi á hættu- og ófriðartímum, neyðaráætlanir Almannavarna ríkisins, fjarskipta- og stjórnkerfi.
    Liðir a og b eiga við aðstoð Íslendinga vegna liðs - og birgðaflutninga til landsins á hættutímum eða í ófriði og flutninga um landið til hernaðarlega mikilvægra staða. Hér er t.d. um að ræða flutninga á birgðum og búnaði með íslenskum farartækjum, afnot af höfnum og flugvöllum o.s.frv. Einnig er hér vikið að vandamálum við umferð um flugvelli og hafnir hér á landi vegna liðsflutninga og birgðaflutninga frá Norður - Ameríku til meginlands Evrópu, en einnig til flotadeilda á hafi. Síðasti liðurinn á við samræmingu til að koma í veg fyrir að framkvæmd áætlana vegna hervarna rekist á framkvæmd neyðaráætlana Almannavarna. Það skal tekið skýrt fram að þessar áætlanir voru að vísu til staðar. Hér er einungis um að ræða eðlilegt samræmingarstarf milli þessara tveggja ráðuneyta.
    Í nefndinni eiga sæti eftirtaldir: Róbert Trausti Árnason, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, formaður nefndarinnar, Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dómsmrn., Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, Gunnar Bergsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, Arnór Sigurjónsson varnarmálaráðunautur og er hann ritari nefndarinnar.
    Þessi nefndaskipan var ákveðin af utanrrh. og dómsmrh. með samráði milli þessara ráðuneyta, sbr. lög nr. 110/1951, um framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, og lög nr. 106/1954, um yfirstjórn varna á varnarsvæðum. Um hana var ekki fjallað á ríkisstjórnarfundi heldur í samráði þessara ráðherra og ráðuneyta.