Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Þau voru fróðleg svör hæstv. ráðherra þó að ekki væru þau ítarleg. Hann byggir þessar aðgerðir á lögum um herstöðvarsamning frá 1951. Það var fyrst hin síðustu ár, eða alla vega eftir 1985, að utanrrn. íslenska og svonefnd varnarmáladeild þess fór að huga að útfærslu á áætlunum af þessu tagi. Ég hygg að það hafi verið dómsmrh., alþýðuflokksmaðurinn nú hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson, sem hafði sérstakt frumkvæði á öndverðu ári 1988 að taka upp þennan þráð og styrkja. Það hefur verið upplýst hér í umræðum á Alþingi að nánast engar áætlanir af þessu tagi hafi verið til, þó að hæstv. ráðherra sé nú að segja að slíkar áætlanir hafi legið fyrir. Forverar hans hafa staðhæft það hér úr þessum stól á síðustu árum að engar slíkar áætlanir hafi verið gerðar.
    Það er nú saga út af fyrir sig að þessi Bandaríkjaher hefur verið í landinu allan þennan tíma í rauninni án þess að það væri farið ofan í þessa sauma en þegar fer að vænkast útlitið í heimsmálum með þíðu undanfarinna ára og samningagerð, þá er farið að koma hér upp viðbúnaði af þessu tagi með samþættingu íslenskra stofnana og starfsemi herliðsins í Keflavík. Hér er mikil tímaskekkja á ferðinni og ég mótmæli því eindregið að það sé unnið að slíkum verkefnum hér án þess að um þau sé rætt hið minnsta, t.d. í utanrmn. þingsins. Ég minnist þess ekki að þessi mál hafi verið kynnt þar eða þessi nefndaskipan og þau verkefni sem þessari nefnd eru ætluð. Teldi ég það þó sjálfsagt mál samkvæmt hefðbundnum venjum í þessum efnum að slíkt væri gert.
    Hæstv. ráðherra upplýsir það einnig að hann hafi gripið til þessa ráðs, þessarar nefndaskipanar án þess að kynna það mál í ríkisstjórn, hvað þá að ráðfæra sig við ríkisstjórnina um málið, heldur hafi þetta verið ákveðið utan ríkisstjórnarfundar af hálfu tveggja ráðherra, hæstv. dómsmrh. og hans sjálfs. Þetta eru hin kynlegustu vinnubrögð. Þetta varðar margar íslenskar stofnanir, eins og hæstv. ráðherra greindi frá, og hvað endurspeglar þetta, virðulegi forseti? Það endurspeglar það að hæstv. ráðherra og þó umfram allt bandaríska herstjórnin er ekkert að hugsa um það að draga í land varðandi umsvif sín og búnað hér á Íslandi, heldur er hér verið að útfæra þá stefnu sem McVadon, fyrrv. yfirmaður herliðsins í Keflavík, upplýsti vikurnar áður en hann fór úr landi að ætti að vera uppi, þó að fækkaði í herliði í Evrópu, þó að þar yrði dregið saman, þá yrði fjölgað á Íslandi, umsvif herliðsins hér yrðu aukin og gildi Íslands sem herstöðvar innan Atlantshafsbandalagsins og fyrir Bandaríkjaher alveg sérstaklega færi frekar vaxandi en hitt þegar samdráttur væri á meginlandinu.
    Ég vil ekki ganga yfir tímann frekar en orðið er, virðulegi forseti, þakka þolinmæði, en bæti því þó við að í upplýsingabréfi svonefndrar varnarmáladeildar er greint frá því að í umræddri nefnd eigi sæti, fyrir utan fulltrúa íslenskra stofnana, tveir fulltrúar frá varnarliðinu svonefnda. Hæstv. ráðherra gat þess ekki að ég

fengi numið í upptalningu og ég spyr hann: Er þetta röng staðhæfing í þessu upplýsingabréfi um öryggis - og utanríkismál að tveir fulltrúar frá bandaríska herliðinu eigi sæti í nefndinni?