Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Til þess að þessi nefnd geti gegnt hlutverki sínu þarf hún að sjálfsögðu að hafa samráð við yfirmann varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Af sjálfu leiðir. Það er ekki rétt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að þetta feli í sér á nokkurn máta fjölgun í varnarliði eða aukin umsvif á þess vegum. Það er heldur ekki rétt að hér sé einhver munur á að því er varðar áætlanagerð að því er lýtur að hættuástandi sem kann að skapast á ófriðartímum og svo ráðstafanir sem gerðar eru í öllum löndum. Með öðrum orðum er þetta áætlunargerð sem er eðlileg og heyrir undir eðlilega fyrirhyggju um viðbúnað við ástandi sem kann að skapast en brýtur ekki á nokkurn hátt í bága við þá stefnu sem ríkt hefur af hálfu ríkisstjórnar og bandalagsþjóða okkar og annarra þjóða í okkar heimshluta, samninga á sviði afvopnunar, fækkun í herliði o.s.frv. Hér er einfaldlega um það að ræða að af hálfu íslenskra stjórnvalda er það sjálfsagður hlutur að til séu áætlanir um það hvernig bregðast skuli við hættuástandi, ófriðarástandi. Fjölmargar stofnanir koma að því. Þær eru á verksviði þessara tveggja ráðuneyta, heyra undir forræði þessara tveggja ráðherra og það væri gagnrýni vert í meira lagi ef það væri látið undir höfuð leggjast að gera slíkar áætlanir og tryggja að allir aðilar sem að því mega koma hefðu um það samráð. Hér er því einfaldlega um að ræða ekki nýja stefnumótun heldur bætta framkvæmd á starfsemi stofnana sem heyra undir þessi tvö ráðuneyti. Og hafi það verkefni verið vanrækt á fyrri tíð má það vera aðfinnsluvert en það er ekki aðfinnsluvert að það skuli vera gert.