Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. vék sér raunar undan að svara því hvort skipaðir hafi verið fulltrúar frá bandaríska herliðinu í þessa nefnd. Hann viðurkenndi tengsl við herliðið en hann tók ekki af skarið um þetta og ég vek athygli á því.
    Ég hlýt að nefna það líka vegna þess að hæstv. ráðherra er hér að tala um eitthvað sem sé sjálfsagt verkefni íslenskra stjórnvalda. Þessar aðgerðir, gæti ég trúað, eru til komnar vegna sérstaks ýtings frá yfirmönnum Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalaginu. Ég vísa til rits starfsmanns öryggismálanefndar um herstöðina í Keflavík, bls. 93, þar sem fram kemur að nýleg skýrsla frá því sem kallað er CPC í Brussel feli í sér hvatningu til íslenskra stjórnvalda um að gera slíkar áætlanir. Þessi skýrsla er frá desember 1988. Mér sýnist að hér séu viðbrögð við þessari hvatningu frá yfirmönnum Atlantshafsbandalagsins í Brussel.