Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hans svör þó að ég sé mjög óánægð með hvað fram kom í þeim vegna þess að ég tel að þarna sé ekki nægilega vel á málum haldið. Mér þykir raunar mjög alvarlegt hvernig ríkisstjórnin hefur farið með þetta mál. Nú er talað um að skrifa undir þessa samninga í apríl eða í síðasta lagi í maí og enn er ekki komið neitt á borð okkar þingmanna um það hvernig eigi að ganga í þetta mál. Ég tel að þarna sé mjög illa komið að við skulum ekki gera kröfu um varanlegan fyrirvara, eins og talað var um í upphafi. Ég vil nú lýsa enn meiri furðu minni eftir það sem kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl., að þetta sé ekki heldur rætt í ríkisstjórnarflokkunum. Það virðist vera mjög þröngur hópur sem er að taka ákvörðun um hvernig á málum er haldið.
    Mér þykir þetta ekki eingöngu eiga við um nýtingu á bújörðum og það sé eingöngu landbrn. sem þarna eigi hlut að máli vegna þess að við erum að tala um miklu meira. Við erum að tala um auðlindirnar. Því að um leið og einhver eignast land, þá eignast hann um leið rétt til að nýta þær auðlindir sem þar eru. Við getum talað um ferskvatn og jarðhita og ýmislegt fleira. Ég sé fyrir mér að við lendum í því sama, sem t.d. er farið að bera mjög mikið á í Svíþjóð, að stór hluti jarða þar, lands þar, er komið í hendur Þjóðverja sem reisa sér sumarbústaði. Ef um það sama væri að ræða hér ættu þeir þar af leiðandi rétt á að nýta þær auðlindir sem tilheyra því landi sem þeir eiga.
    Ég tel því að við þurfum að fá greið svör við því hvernig ríkisstjórnin ætlar að halda á þessu máli og hvort það eigi að skrifa undir samninga núna fyrir vorið án þess að það sé orðið ljóst hvernig og hvort hægt verður að gera þetta á þann hátt sem talað er um. Ég held að það sé mjög erfitt og nánast útilokað að koma þessum málum fyrir á viðunandi hátt með því að setja ákvæði inn í lög landsins, heldur verði að vera um varanlega fyrirvara að ræða að því er varðar hlunnindi, jarðir, bújarðir, sem og aðrar auðlindir sem við eigum hér á þessu landi. Ég skora því á hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla að taka almennilega á þessu máli. Og ég vildi gjarnan, ef hægt er, fá upplýst hvort ríkisstjórnin öll stendur á bak við þá aðferð sem þarna er beitt, sérstaklega með tilliti til þess sem kom hér fram í máli síðasta ræðumanns.