Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. segir að það hafi komið sér á óvart að svo margir þingmenn sem raun ber vitni séu flm. að þessari tillögu og vilji taka upp það búskaparlag sem þar er lagt til að tekið verði upp. Ég segi: Það er gott að hæstv. sjútvrh. er nokkuð hissa á þessu. Hann hefur þá ekki áttað sig á þeirri umræðu sem er í þjóðfélaginu. Það væri nokkuð gott ef hæstv. ráðherra áttaði sig á því að margir hverjir sem hafa verið stuðningsmenn þess kerfis sem er við lýði í dag eru að hverfa frá því. Það eru fleiri en alþingismennirnir sem eru flutningsmenn að þessari þáltill. sem er til umræðu.
    Við fengum líka sérstaka ábendingu frá hæstv. sjútvrh. um það að óeðlilegt væri að þingið legði til breytingar á fiskveiðistefnunni sem tók gildi 1. jan. þar sem ákvæði væri um það í lögunum að sú fiskveiðistefna skyldi tekin til endurskoðunar á árinu 1992. Mikið rétt. Við höfum líka fengið kveðju frá forustumönnum í hagsmunasamtökum, forustumönnum í LÍÚ og forustumönnum í Sjómannasambandinu, um að það sé óeðlilegt að hv. þm. bendi á að það kerfi sem við búum við hafi ekki staðist þá raun sem til er ætlast og það eigi að skoða þetta til grunna og breyta þessu kerfi. Á sama tíma og hæstv. sjútvrh. gagnrýnir okkur fyrir það að við erum að leggja til breytingar á fiskveiðilögunum er hann búinn að tilkynna fjölmiðlum, tilkynna samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn að hann sé að leggja til stórkostlegar breytingar á fylgilögum fiskveiðistjórnarlaganna, þ.e. um Hagræðingarsjóð. Það hefði verið trúlegt að það hefði átt að bíða líka til 1992, ekkert síður en heildarlögin og lofa þeim að reyna sig í tvö ár áður en lagðar verða til breytingar á þeim. A.m.k. ætti hæstv. ráðherra ekki á sama tíma og hann er að leggja til breytingar á þeim lögum að gagnrýna þingmenn fyrir nákvæmlega sama og hæstv. ráðherra er að gera. Og ég held að ég geti sagt það sama um þá virðulegu forustumenn hagsmunasamtaka svokallaðra, Kristján Ragnarsson, formann LÍÚ, og Óskar Vigfússon, formann Sjómannasambands Íslands, sem gagnrýna okkur og þá kannski sérstaklega þá hv. þm. sem voru stuðningsmenn og samþykktu fiskveiðistjórnarfrv. á sl. vori, þeir eru að gagnrýna okkur fyrir það að við leyfum okkur að leggja til breytingar á sama tíma og þeir eru líka að leggja til breytingar á þessari stefnu. Er það nú tvöfeldnin. Það er eðlilegt að þessir menn telji sig geta tekið dálítið stórt upp í sig. Og þeir eru meira að segja að leggja til breytingar á grundvallaratriðum fiskveiðistjórnarlaganna, t.d. formaður Sjómannasambandsins um það að takmarka endursölurétt, framsalsrétt á veiðiheimildum ef samþykktar verða breytingar á Hagræðingarsjóði sem hér hefur verið rætt um og lagt til. Formaður LÍÚ leggur til að Hagræðingarsjóði skuli breytt til þess að umbjóðendur hans hafi aðgang að þeim kvóta sem sá sjóður kemur til með að hafa. Svo gagnrýna þessir höfðingjar okkur sem leyfum okkur að koma hér fram fyrir Alþingi og leggja til breytingar á þessu kerfi.

    Þetta kerfi hefur mistekist og ég fagna því að fimmtán þingmenn leggja til á þessari þáltill. breytingar á því kerfi sem við búum við. Ekki að breyta því í dag eða á morgun, heldur að kjósa til þess nefnd. Við erum ekki að leggja til, eins og hæstv. sjútvrh., að breyta lögunum bara núna næstu daga heldur viljum við láta skoða þetta mál í góðan tíma og leggja til þá ákveðna breytingu og sérstaklega þá grundvallarbreytingu að hverfa frá aflamarkinu yfir í sóknarstýringu. Gera grundvallarbreytingu á kerfinu.

    Ég tel mig ekki þurfa að bæta miklu við þá ágætu ræðu og þá ágætu greinargerð sem fylgir till. frá hendi 1. flm. þessarar till.
    Ég tek alls ekki undir þau orð sem hæstv. sjútvrh. lét sér sæma, að tala um þetta ,,dæmalausa plagg`` og að hann mundi ekki elta ólar við allt það sem þar stæði.
    Ég tel að sú greinargerð og sú ræða sem hér var flutt af 1. flm. að þessari till. hafi verið samfelld, mjög greinargóð gagnrýni á það kerfi sem við höfum búið við og ábending á nýja leið eða nýja möguleika án þess að hann væri beinlínis að binda sig við það. Vitaskuld stendur efni till. fyrst og fremst fyrir því hvað skuli gera, það á að kanna þetta, en að viðhafa þau orð sem hæstv. sjútvrh. hafði um þá ræðu og greinargerðina, það finnst mér ekki viðeigandi.
    Það kerfi sem við höfum búið við og erum búin að búa við í sex ár hefur að meginhluta til mistekist. Ég get ekki tekið það upp í mig að segja að það hafi algjörlega mistekist. Í fyrsta lagi átti þetta kerfi að byggja upp fiskistofnana, það átti að tryggja það að afrakstursgeta fiskistofnanna ykist í sumum tilfellum og í öðrum tilfellum að hún minnkaði ekki.
    Aðalrökin fyrir þessu kerfi, þegar við fórum í aflamarkskerfið gagnvart bolfiskinum, voru þau að þorskstofninn væri í lægð og það þyrfti að byggja hann upp. Hver er reynslan? Við erum með þorskstofninn í sömu stærð og við vorum þá. Það hefur því miður ekki tekist að byggja þorskstofninn upp og flestar vísbendingar eru á þann veg að sá stofn sé minnkandi og við horfum fram á það á næstu árum að það verði minna og minna sem við sækjum í þann undirstöðustofn.
    Það má vitaskuld telja upp fleira. Grundvöllur þessa kerfis var númer tvö að minnka fiskiskipastólinn. Hann hefur stækkað og þó sérstaklega stækkað á þann veg að í staðinn fyrir allmyndarlegan og góðan bátaflota þá er búið að byggja upp verksmiðjutogaraflota. Við vorum með tvo eða þrjá verksmiðjutogara þegar þetta kerfi var tekið upp. Nú eru þeir komnir yfir þrjátíu.
    Það var sagt að það yrði minnkandi reksturskostnaður í þessu kerfi. Hann hefur aukist og það vita allir sem koma nálægt útgerð að reksturskostnaðurinn við útgerðina er miklu meiri en hann áður var.
    Okkur var sagt að við mundum koma með betri afla að landi í þessu kerfi. Þetta hefur mistekist líka, því miður. Við erum að koma með jafngamlan fisk og jafnvel verri fisk en áður. Togararnir eru ekkert að

hika við það að halda úti núna í tíu daga alveg eins og áður.
    Í lokin, virðulegi forseti, var okkur sagt að þetta kerfi styrkti byggðirnar í landinu. Það ætti að styrkja byggðirnar í landinu með því að koma á þessu kerfi. Við sem búum úti um land vitum að þessu er gjörsamlega öfugt farið. Þetta kerfi virkar á þann veg að fólk veit ekki um framtíð sína í einu eða neinu. Við vorum alltaf illa undir það búin í sjávarútvegsþorpunum að vita um framtíð okkar en við höfðum þó alltaf vissa von um það þegar afli var í lægð að hann mundi kannski aukast á næstu dögum. Nú er þetta þannig að það er búið að taka þessa von frá okkur vegna þess að nú er hægt að kaupa vonina burtu og það er gert í mjög miklum mæli.
    Virðulegi forseti. Ég vildi nú hafa sagt mikið, mikið meira en ég mun gegna því að hverfa nú úr ræðustóli.