Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það er augljóst að það eru mjög skiptar skoðanir úti í þjóðfélaginu um réttmæti þess kerfis sem notað er í fiskveiðistjórnun. Það má segja að kerfið hafi flotið áfram í skjóli þess hve það er umdeilt. Það er hins vegar jafnaugljóst að kerfi sem er eins umdeilt og það sem við búum við getur ekki staðið til lengdar vegna þess að það er vonlaust í okkar þjóðfélagi að búa við kerfi sem sífellt eykur tortryggni, ósætti og mismunun manna á milli. Það er grundvallaratriði í þessu máli. Þess vegna eru full rök og full ástæða til þess að stokka spilin upp og kryfja málið til mergjar, skoða málið upp á nýtt og leggja nýjan kjöl að þeirri stjórnun og þeirri stýringu sem nauðsynleg er.
    Ég efa ekkert að hæstv. sjútvrh., eins og aðrir sem að málinu hafa komið, hefur unnið að því eins vel og hann hefur getað og viljað, en það er komið í sjálfheldu og svelti og fram hjá því verður ekki horft. Það er kominn tími til þess að hv. Alþingi taki málið upp frá grunni út frá þeim punkti þegar það kom inn 1983, nær fullskapað af hagsmunaaðilum í landinu, með samþykki og áherslu frá öllum hagsmunaaðilum nema, ef ég man rétt, Félagi botnvörpuskipaeigenda. Þannig að í sjálfu sér höfðu hv. þm. ákaflega lítið svigrúm til þess að taka einarðlega á málinu með þeim þrýstingi sem lá á bak við málið eins og það kom inn á hv. Alþingi.
    Það er hægt að nefna mörg dæmi í þessu kerfi sem hafa gengið furðulega eftir. Gott dæmi er niðurfelling sóknarmarksins með stuttum fyrirvara, sérstaklega með tilliti til þess að þar er um að ræða stóran hluta af bátaflotanum í landinu sem hafði fjárfest, skipulagt og gert áætlanir um veiðar og atvinnustarfsemi út frá því kerfi. Ég hef sagt það áður og segi það enn að þessi niðurfelling á sóknarmarkinu er ekkert ósvipuð því þegar bændum var á sínum tíma heimilað að stækka fjárhús og mannvirki, en fengu síðan ekki fénað til þess að afla fjár upp í kostnaðinn. Að því leyti er þetta kerfi sífellt að verða meiri og meiri miðstýring sem getur ekki gengið upp til lengdar, hvorki í íslensku samfélagi né öðru.
    Það er margs konar misskilningur sem hefur komið upp í dæminu. Eitt má nefna hér úr umræðum í dag, sem kom fram í máli hv. 7. þm. Norðurl. e., að sóknarmarkið hefði aukið smáfiskadráp. Í rauninni var málinu snúið við. Það vita allir sem vilja vita og fylgjast með að menn sem voru á sóknarmarki voru ekki að henda smáfiski fyrir borð. Þeir komu með hann að landi. Aflamarkið leiddi hins vegar til þess að menn fóru að velja úr þann fisk sem þeir komu með að landi og það er í sívaxandi mæli í dag. Það er opinbert leyndarmál sem jafnvel virtustu skipstjórar landsins viðurkenna og leggja á borðið hvar sem er og hvenær sem er. Þetta er auðvitað ákveðinn misbrestur í því kerfi sem við búum við. Auðvitað hefur margt heppnast í því en það er margt sem hefur farið úrskeiðis.
    Í ljósi þess að málið sé tekið upp og kannað ofan

í kjölinn, lögð ný lína, þá hygg ég að það sé kannski farsælast að horfa til þess að smíða enn frekar það bitastæðasta úr sóknarmarki og aflamarki þó svo það sé mín skoðun að sóknarmarkið sé miklu eðlilegra fyrirkomulag heldur en aflamark, einmitt út frá því sjónarmiði að sóknarmarkið tryggir það frekar að menn sitji við sama borð. Það er auðvitað það sem við eigum að bjóða upp á í okkar þjóðfélagi, að menn sitji við sama borð. Kerfið eins og það er í dag hefur marga vankanta, það kallar á ekki tvöfalt hagkerfi, það kallar á margfalt hagkerfi þar sem menn eru að kaupa annars vegar skipið, hins vegar óveidda fiskinn o.s.frv. Og það er tilfærsla á eignum, tilfærsla á fjármagni án þess að forsendur séu til fyrir því. Þetta er reyndar ekkert ósvipað eins og á sér því miður stað í sumum stofnunum þjóðfélagsins, að menn eru farnir að fá greitt fyrir það að mæta til vinnu og síðan fyrir það að vinna. Þetta er kerfi sem er margfalt í roðinu og skapar ekki eðlilega þróun í okkar samfélagi.
    Það má segja að það sé t.d. ekki heldur samræmi í því að setja skerðingu á ferskfiskútflutning á sama tíma og frystitogarar halda ótrauðir áfram sínum veiðum og vinnslu án þess að slík skerðing komi til. Þarna er auðvitað misræmi í. Og þannig má lengi, lengi telja. Mér finnst það grundvallaratriði í þessari umræðu og þessu máli að draga út þann þátt sem lýtur að endurskoðun, fullnaðarendurskoðun og að menn hætti að berja höfðinu við steininn og reyni að hanga og krafsa í bakkann á þessari brún sem menn gera með þessu kerfi vegna þess að það kallar fyrst og fremst á það að menn fari á svig við lög og reglugerðir. Það eru menn að gera alls staðar og lög sem stuðla að því að menn eru í sívaxandi mæli að svindla á kerfinu, það eru lög sem þarf að breyta. Það þarf að taka af þessa vankanta og reyna að gera þetta eins ásættanlegt og hægt er fyrir þorrann. Það eru í meginatriðum þrjú sjónarmið í landinu í dag í þessum efnum og það þarf að finna farveg sem er sem ásættanlegastur fyrir heildina.
    Í lokin, virðulegi forseti, er eitt sem ég vil nefna um það hvílíkt happdrætti þetta fyrirkomulag er. Ég man t.d. ekki betur en hæstv. sjútvrh. hafi á fundi úti í Vestmannaeyjum í haust sagt að skerðing á því svæði samkvæmt nýjum lögum eða nýjum reglum yrði 1588 þorskígildi. Þeir sem sögðu að skerðingin yrði mest sögðu að hún yrði 10.000 þorskígildi. Niðurstaðan verður líklega eitthvað þarna mitt á milli 1588 tonna og 10.000 tonna. Það er auðvitað ótrúlega mikið happdrætti og ótrúlega mikil ónákvæmni. En þetta undirstrikar það hve þetta kerfi stendur á veikum grunni, hvað menn hafa veikar forsendur að byggja á. Þær þarf að treysta og þess vegna þarf að stokka spilin upp. Ekki að það sé verið að gagnrýna í botn það starf sem menn hafa unnið heldur einfaldlega að horfast í augu við það að það er kominn tími til þess að smúla dekkið og láta skítinn ekki safnast fyrir áfram.