Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. 1. flm. þessarar þáltill., þá hefur ekki verið mikið um það að hv. þm. gagnrýndu þessa tillögu okkar nema þá á nokkuð óljósan hátt og með fullyrðingum. Því miður hefur það verið á þann veg.
    Hv. 4. þm. Reykn. lét þau orð falla að það lægi jafnvel í okkar tillögu að með því að hún yrði samþykkt, þá mundu sjómenn og verkafólk ekki fá að koma að umræðum um skipulagningu og uppbyggingu nýs kerfis. Ég hélt að hv. þm. vissi það manna best eftir langa þingreynslu að þingnefndir eru ekki síður duglegar við það að kalla til sín hagsmunaaðila til umræðu um málið heldur en nefndir sem skipaðar eru og vinna á vegum ráðuneytisins og jafnvel svo að þá er verið að leita að skoðunum þessara manna en ekki, eins og við höfum haft á tilfinningunni sem höfum verið að vinna í þessum nefndum á vegum ráðuneyta, að ákveðnir hagsmunaaðilar réðu þar ferðinni en ekki þingmenn og jafnvel ekki ráðuneytismenn, heldur væru það hagsmunaaðilar sem réðu ferðinni í undirbúningi að gerð frv.
    Og svo hitt, að með því að koma á sóknarstýringu, sem lagt er til í þessari tillögu í staðinn fyrir aflamarkssókn, þá muni öllum skipaflotanum okkar vera sigað á miðin. Þetta eru náttúrlega fullyrðingar sem eiga hvergi við eitt eða neitt að styðjast. Ef við tökum þann flota sem við eigum núna, þá er nú því miður ástandið orðið þannig, eins og ég vænti að flestum þingmönnum sé kunnugt um, að á síðasta ári, árinu 1990, tókst sumum hverjum alls ekki að ná sínum kvóta. Aflamöguleikinn var ekki meiri, t.d. á þorskveiðum, þó þeir væru alltaf að. Sumir hverjir togarar og bátar sem slepptu varla úr degi náðu ekki sínum kvóta. Því miður er ástandið orðið þannig á þessum veiðistofnum okkar að það hefur ekki tekist að ná þeim litla kvóta sem við höfum til skipta. Það mundi ekkert breytast nema síður sé en það mundi gerast á annan veg með sóknarstýringu. Það liggur allt annað þar bak við. Það eru minni líkur fyrir því að sóknin yrði eins stíf í fiskstofnana með þeirri stýringu en með því aflamarkskerfi sem við búum við.
    Hv. 1. þm. Vesturl. og 7. þm. Norðurl. e. nefndu hér svipaðar fullyrðingar. Hv. 7. þm. Norðurl. e. lét þau orð falla að undir sóknarmarki, undir skrapdagakerfinu, hefði smáfiskur aldrei veiðst jafnmikið. Þetta voru því miður fullyrðingar sem ekki standast og einnig fullyrðingar hv. þm. um það að flotinn hefði á þessum árum stækkað eitthvað óeðlilega. Það var ekki. Einmitt á þessum árum tókst að takmarka veiðisóknina og halda henni innan þeirra marka sem ráðuneytið ákvað. Jafnvel árin 1982 og 1983 mun ekki hafa náðst það aflamark sem talið var að mætti veiða eða ráðuneytið gaf heimild til þess að veiða. En á aflamarkskerfinu, sem átti nú að tryggja það að öllu væri haldið innan ákveðinna marka og stjórnin væri örugg, var svo mikil teygja, eins og hv. 4. þm. Vestf. hefur bent á og kemur fram í skýrslum með tillögunni, að það var aldrei vitað hvað þetta kerfi gæfi mikla möguleika á aflasókn í t.d. þorskstofninn. Og teygjan var óeðlilega mikil, bæði, eins og hæstv. sjútvrh. nefndi, vegna aukningar afla hjá smábátum, vegna sóknarmarksins og vegna ýmissa annarra þátta. Ég held að öll árin hafi verið teygja sem ekki varð ráðið við og menn gerðu sér ekki grein fyrir. Jafnvel þó það væri nefnt í reglugerð að þessi teygja gæti átt sér stað, þá var hún kannski ekki innan þeirra marka, og alls ekki fyrstu árin, að menn gerðu sér grein fyrir því hvað hún var mikil, þannig að aflamarkskerfið hefur reynst verr heldur en skrapdagakerfið. Sóknarstýringin er hagkvæmari gagnvart því að halda utan um sóknina í veiðistofnana heldur en aflamarkskerfið hefur reynst til þessa. Að blanda síðan saman sóknarmarkinu sem var við hliðina á aflamarkinu er svo allt annað mál. Ég get viðurkennt að það gekk bara ekkert upp að vera með tvö kerfi hlið við hlið. En það er allt annað að byggja upp þessi kerfi hvort út af fyrir sig. Og það er það sem við erum að leggja til með okkar tillögum, að það verði tekin allsherjar sóknarmarksstýring. Hún reyndist vel og við þurfum ekki að kvarta undan því að við séum
að hverfa til fortíðar. Við hljótum að gera það í hvert skipti sem við vitum að fortíðin gefur betri mynd og hefur gefið okkur betri reynslu en það sem við erum að gera í nútíðinni. Þá eigum við að hverfa aftur til þeirra ráða sem við notuðum og reyndust okkur vel. Það er langt frá því að nokkur niðurlæging sé í því eða að þar sé verið að snúa á rangan veg.
    Hv. 1. þm. Vesturl. nefndi svipaða hluti og þessa, að við stæðum frammi fyrir því að hætta væri á að dreifing í sókninni yrði vafasöm og annað eftir því og nú, miðað við það að fiskstofnarnir væru í lágmarki, væri hættulegt að setja þetta kerfi á. Því miður eru fiskstofnarnir í lágmarki núna eftir sex ára aflamark. Væri nú ekki reynandi að setja sóknarstýringu á og vita hvort það mundi ekki breytast og við hefðum möguleika til að byggja okkar stofna upp? Við teljum það sem flytjum þessa tillögu.
    Hv. 1. þm. Vesturl. sagði að breið samstaða hefði náðst í sambandi við undirbúning --- ég skildi það svo sem undirbúning þeirra laga sem við búum við núna. Því miður var þetta ekki þannig, við vitum það öll. Það er einn og einn þingmaður sem er að reyna að halda því fram sýknt og heilagt að samstaða hafi náðst. Flestallir aðilar sem komu að undirbúningi frv. skiluðu séráliti í lokin, eftir miklar umræður, séráliti um grundvallaratriði sem þeir eru reyndar að nefna aftur af og til eins og t.d. Sjómannasambandið hefur verið að nefna í sambandi við þær hugmyndir sjútvrh. um kvóta til loðnuskipa, það að takmarka framsalsrétt. Slík var samstaðan. Það má koma með mörg dæmi. Því miður hefur ekki verið samstaða, og sú litla samstaða sem jafnvel hefur staðið um aflamarkskerfið fer minnkandi dag frá degi.
    Ég tel að sú umræða sem hér hefur átt sér stað í dag, flutningur þessarar tillögu, og tilfinningin fyrir því hvernig umræða er úti um landið meðal fólksins sem tengist sjávarútvegi, bendi til þess að okkar tillaga hafi verið tímabær og það sé nauðsynlegt að samþykkja tillögu sem þessa og að farið verði í það á vegum Alþingis að undirbúa nýja fiskveiðistefnu sem byggist á þeim grundvallaratriðum sem nefnd eru í þessari tillögu. Það verði horfið frá aflamarkinu og leitað svipaðra leiða og við notuðum áður en aflamarkið var tekið upp. Það hefur verið nefnt frekar ljótu nafni, skrapdagakerfi, en það kerfi þarf að lagfæra. Það er hlutverk þeirrar nefndar sem hér er lagt til að kjörin verði að koma með nýtt kerfi sem verður farsælla heldur en það kerfi sem við höfum búið við síðustu fjögur ár.