Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Síðari ræða hæstv. ráðherra gefur tilefni til þess að ég svaraði henni ítarlega en ég hef ekki tíma til þess. Hæstv. ráðherra kom inn á byggðarlögin með tilliti til kvótakerfisins og ég var búinn að nefna það. Hæstv. ráðherra snýr því sem viðkemur byggðunum algerlega við í þessum umræðum. Það sem við erum að leggja til er að bæta stöðu hinna einstöku byggðarlaga en ekki öfugt.
    Ég mótmæli því að ráðherra skuli ítrekað gera töflur Fiskifélags Íslands og Siglingamálastofnunar ríkisins tortryggilegar í þessum umræðum. Ég hef svarað því áður og ég endurtek að sá tittlingaskítur sem hann telur sig geta fundið út máli sínu til stuðnings breytir ekki neinu um það sem er aðalatriðið í þessu efni, þ.e. að kvótakerfið hefur sýnt algert haldleysi sitt í því að vernda fiskstofnana og ná hámarksafrakstri þeirra.
    Hæstv. ráðherra fór að lokum orðum um dæmalausa greinargerð. Ég vil aðeins segja hæstv. ráðherra að það er ekki hægt að skýra frá öllu sem vert væri í einni greinargerð. Ef það hefði verið gert, þá hefði þessi greinargerð orðið enn þá dæmalausari í augum hæstv. ráðherra en hún er í því formi sem hún er nú. Það er vegna þess að það sem verið er að lýsa, kvótakerfið, er algerlega dæmalaust í sjálfu sér þannig að lýsing, ef hún á að vera sönn, hlýtur að vera dæmalaus á því sem er dæmalaust.