Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram nokkrar fullyrðingar í sambandi við stöðu landsbyggðarinnar og þess kvótakerfis sem við búum við. Ég hef látið orð falla á þann veg að það kerfi væri óhagstætt fyrir landsbyggðina. Hæstv. sjútvrh. vildi ekki beinlínis taka undir það og taldi jafnvel að það kerfi sem við erum að leggja til í þessari þáltill. fæli í sér kannski meiri hættu.
    Ég kem hér upp fyrst og fremst til þess að benda á eitt atriði sem hefur komið fram sérstaklega núna eftir áramótin. Það er veðhæfni sjávarútvegsfyrirtækja með því að búa við þessa fiskveiðistjórn eða þessa úthlutun aflamarks sem við búum við. Bankarnir eru að tilkynna núna að skipin okkar séu ekki lengur veðhæf vegna þess að ekki sé hægt að tengja veiðiheimildina við skipin. Skip sem er veiðiheimildalaust er næstum verðlaust.
    Okkur er líka sagt að fiskvinnsluhúsin séu að verða verðlaus til veðs vegna þess að vitaskuld fylgir enginn kvóti fiskvinnslustöðvunum. Til þess að einhver eign úti um landið sé hæf til veðsetningar fyrir fjármálastofnanir verður einhvern veginn að tengja veiðiheimildirnar við hana. Við höfum verið að benda á að fyrir hendi sé sá möguleiki að kaupa upp eða fjarlægja veiðiheimildir heilla byggðarlaga. Þetta kerfi sem við búum við byggist fyrst og fremst á því. Það kerfi sem við erum að leggja til byggist fyrst og fremst á hæfni og möguleikum hverrar byggðar til þess að sækja afla í sjóinn við breytileg skilyrði. Eru það ekki þau skilyrði sem Íslendingar hafa búið við?