Réttindi alþjóðastofnana
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um réttindi alþjóðastofnana o.fl. Í fjölmörgum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að er að finna ákvæði sem leggja aðildarríkjum á herðar skyldur til að tryggja alþjóðastofnunum réttarstöðu í aðildarríkjunum svo og friðhelgi, forréttindi og undanþágur handa þeim, starfsliði og erindrekum. Hér á landi hafa verið sett nokkur lög sem fjalla um þetta efni. Sum þeirra laga fjalla um réttindi almenns eðlis svo sem lög nr. 13/1948, um réttindi og skyldur Sameinuðu þjóðanna, og lög nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Önnur lög varða réttindi einstakra stofnana og má þar nefna lög nr. 26/1976, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans.
    Einfalt þykir og heppilegt að fara að dæmi ýmissa annarra þjóða og skapa grundvöll í almennum lögum þannig að ekki þurfi að setja sérlög um þessi skyldubundnu réttindi í hvert sinn sem Ísland gerist aðili að alþjóðastofnun. Verði frumvarp þetta, sem ég nú mæli fyrir, að lögum verður einnig unnt að gerast aðili að samningi um forréttindi og friðhelgi sérstofnana Sameinuðu þjóðanna og samningi um réttarstöðu dómara Mannréttindadómstóls Evrópu, nefndarmanna Mannréttindanefndar Evrópu og þeirra aðila sem taka þátt í málflutningi fyrir Mannréttindanefnd og Mannréttindadómstóli Evrópu.
    Herra forseti. Ég leyfi mér að svo búnu að leggja til að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og fjh. - og viðskn.