Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég vil einnig fagna því að þetta frv. er fram komið og þakka þá vinnu sem í það hefur verið lögð. Hv. frsm. kvartaði undan því að fáir ráðherrar væru viðstaddir. Reyndar eru afar fáir þingmenn viðstaddir þegar þetta mikilvæga mál er hér flutt. En ég varð var við það á ríkisstjórnarfundi í morgun að ráðherrar vissu ekki af því að málið væri hér á dagskrá, a.m.k. ekki allir. Reyndar hef ég orðið var við það að lítið samráð hefur verið haft við ráðherra að því er virðist. Það hefur aldrei verið sent ríkisstjórninni, sem er út af fyrir sig engin ósk mín að gert hefði verið, og kann að vera að eitthvað misjafnlega hafi verið að þessu máli komið í þingflokkum.
    En fyrst og fremst sýnir þessi fjarvera ráðherra að sú hugmynd, sem fram hefur komið en er nú ekki í þessu frv., að ráðherrar geti eða eigi að víkja af þingi hefur stoð og ég er því fylgjandi. Ég hef nokkra reynslu af þessu og ráðherrastörfin hafa íþyngst mjög á síðustu árum með flóknara þjóðfélagi og miklum ferðalögum og nánari samskiptum við önnur lönd o.s.frv. Ég er því þeirrar skoðunar þó að það hafi ekki hlotið náð en var í fyrstu hugmyndum sem ég sá í þessu frv. Vitanlega geta menn spurt sig að því hvort það eigi þá að vera ráðherrum frjálst að víkja af þingi ef þeir óska þess þó að það sé nú skemmtilegra að hafa um það almenna reglu. Þetta er hugmynd sem ég hef aðeins heyrt fleygt hvort kæmi til greina.     Nú er alveg ljóst að ráðherrar yrðu engu að síður oft að vera viðstaddir þingstörf, t.d. þegar þeirra mál eru flutt.
    Ekki var nú ætlun mín að ræða þetta þó að ég komi hér inn á það heldur fyrst og fremst að lýsa yfir fylgi mínu við þær breytingar sem hér eru gerðar. Mér skilst að hér hafi eingöngu verið tekið inn það sem samstaða náðist um og ég held að í svo viðkvæmu máli og með svo skamman tíma til stefnu sé það rétt. Ég hef lengi verið því fylgjandi að breyta þinginu úr tveimur málstofum í eina og þarf ekki að orðlengja um það. Ég tek undir það sem kemur fram í grg. um réttmæti þess og sömuleiðis það, sem kom fram í framsögu, að hinn sögulegi aðdragandi, sem ég held að hafi verið hárrétt rakinn hjá hv. frsm., er ekki lengur til staðar, langt frá því.
    Ég tel einnig verðuga tilraun, ef ég má orða það svo, að kveðja þing saman fyrr á haustin. Fyrst og fremst út af fjárlagagerð sem við erum oft í vandræðum með eða lendum í vissu tímahraki með. Það er að vísu háð því að menn hefjist þá handa strax og vinni. Að öðrum kosti mun þetta verða til lítils. En ég er fylgjandi því að gera þessa tilraun. Nefnt var í mín eyru jafnvel að koma saman fyrr en ég held að þarna sé fundinn viðunandi meðalvegur í þeim efnum.
    Hér er gert ráð fyrir því að þingið standi allt árið og vitanlega er þá auðveldara að kveðja þing saman ef grípa þarf til einhverra þingstarfa. Það sýnist mér líka vera eðlilegt. Síðan er breytt hér tveimur ákvæðum um fresti, þ.e. bráðabirgðalög skulu samþykkt innan mánaðar frá því að þau eru lögð fyrir Alþingi. Ég tel afar mikilvægt að lesa það í sambandi við ákvæði

5. gr., hygg ég að það sé, þar sem er, ef ég skil rétt, gert ráð fyrir að komi: ,,fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný`` í staðinn fyrir ,,fyrir næsta Alþingi á eftir``. Það finnst mér vera kjarni málsins. Bráðabirgðalög á að leggja strax fyrir Alþingi og er þannig væntanlega nægilega ákveðið að orði komist eins og ég las. Mánaðar frestur kann að vera nóg þar sem Alþingi er þá orðin ein deild. En það er kannski í knappasta lagi finnst mér ef mörg stórmál liggja fyrir Alþingi og miklar umræður eru. En ég geri út af fyrir sig enga brtt. við það. Aðalatriðið er að leggja þau strax fyrir Alþingi og afgreiða þau svo fljótt sem unnt er, innan mánaðar ágætt, eins og hálfs mánaðar kæmi til greina.
    Hér eru svo styttir aðrir frestir sem ég geri ekki athugasemdir við. Eitt atriði sem kemur fram í 3. lið er að landið verði aldrei þingmannslaust. Það kemur jafnframt fram í 4. gr. þar sem bætist við nýr málsliður: ,,c. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.`` Ég fagna þessu. Ég tel að það hefði leyst vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna. Á fundi með formönnum þingflokkanna nefndi ég þetta reyndar og fékk strax góðar undirtektir og ég fagna því að það er hér með. Hins vegar hnýt ég aðeins um það sem segir í lok 7. gr.: ... ,,stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út ...`` Vantar ekki þarna nauðsynlegt samræmi á? Það rennur ekki út. Þetta er ábending sem er gott að nefndin skoði. Þetta kann að vera vegna þess að atriðið um umboð alþingismanna hafi komið þarna inn það seint að það hafi ekki verið gætt samræmis. Mér finnst ég hafa hnotið um þetta einhvers staðar annars staðar þegar ég var að lesa þetta --- hef nú ekki séð frv. í heild sinni fyrr en núna --- að rætt væri um að umboð alþingismanna rynni út sem það gerir þá ekki.
    Ég veit að nefndin ræddi um fjöldamörg önnur atriði sem öll eru verðug umhugsunarefni, en kannski orka meira tvímælis og valda meiri deilum og ég ætla ekki að nefna þau. Sum, eins og ég sá, gæti ég stutt en önnur ekki, en látum það kyrrt liggja.
    Ég vek síðan athygli á því að frá stjórnarskrárnefnd liggja fyrir breytingar á kosningalögum sem ríkisstjórnin hefur afgreitt og komið er til þingflokka stjórnarflokkanna. Ég hafði gert mér vonir um að það væri jafnvel komið hér fram. En ég held að ég fari með rétt mál að það er ekki komið fram. Ég mun knýja á um að það komi fram ef það gæti fylgst að þó að tími sé orðinn knappur.