Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu stórmál sem varðar störf þeirrar stofnunar sem við sitjum í, Alþingis, og þingræðið og lýðræðið í landinu. Ég ætla ekki að halda langa ræðu við þessa umræðu. Mér gefst tækifæri til að fjalla nánar um þetta frumvarp því að ég stýri störfum í þeirri nefnd sem fær það til meðferðar. En frumvarpið kveður á um veigamiklar breytingar á starfsháttum Alþingis. Það ber að sjálfsögðu þess merki að þau atriði hafa verið tekin upp í frumvarpið sem samkomulag hefur orðið um hjá þingflokksformönnum sem undirbjuggu málið.
    Ég verð að segja það í upphafi máls míns að ég tel flest í þessu frumvarpi til stórra bóta og bind vonir við að það verði, ef samþykkt verður, til að gera starfsemi og starfsháttu Alþingis skilvirkari og vandaðri, efla þingræðið og lýðræðið í landinu, en það er að sjálfsögðu langmikilvægasta markmiðið og frumvarpið verður að sjálfsögðu að miða að því fyrst og fremst.
    Veigamesta breytingin í frumvarpinu er sú varðandi Alþingi að það gerir ráð fyrir að afnema deildaskiptinguna. Það er jafnframt sú breyting sem mest hefur verið til umræðu fyrir fram, áður en frv. kom hér til umræðu í Alþingi. Það hefur áhrif í ýmsum greinum sem ég tel til mikilla bóta og þeir ræðumenn sem hafa talað hér á undan hafa rakið það, m.a. frsm. í ítarlegri framsöguræðu fyrir málinu. Langveigamesta breytingin er sú eftir þetta að einfaldur meiri hluti þingmanna ræður úrslitum mála. Ég tel að það sé eðlilegt og það sé í samræmi við lýðræðisreglur.
    En ástæðan til þess að ég tek þátt í þessari umræðu nú er sú að ég vildi einkum undirstrika eitt atriði sem leiðir af samþykkt þessa frumvarps en það er sú mikla breyting sem verður á nefndastörfum þingsins við samþykkt þess. Ef þingið verður ein deild þá fækkar nefndunum. Það hefur í umræðunni verið varað við að afnema deildaskiptinguna. Það hefur verið talið bjóða heim hættu á því að málsmeðferðin verði óvandaðri og þau frumvörp og löggjöf sem samþykkt er standist síður. Ég tel að þetta þurfi ekki að vera svo ef bætt er starfsaðstaða og málefnavinna þingnefnda. Ég tel að það sé mikilvægur grundvöllur að því að þingið sé ein deild, það starfi ein nefnd um ákveðinn málaflokk og hún hafi umboð allt árið.
    Sá tætingur sem hefur verið á þingmönnum milli nefnda, í fjölmörgum starfsnefndum þingsins, við þekkjum hann öll sem eigum sæti hér á Alþingi. Ég held að störf nefndanna með þessum nýja hætti verði miklum mun skilvirkari og það sé í rauninni það sem ræður úrslitum um það hvort þetta frumvarp verður til bóta eða ekki.
    Það ákvæði að þingið sitji allt árið og verði frestað í staðinn fyrir að því verði slitið er nauðsynlegur grundvöllur að þessu, að nefndirnar hafi umboð og geti sýnt meira frumkvæði í því að kynna sér ákveðna málaflokka og hafa frumkvæði um upptöku ákveðinna mála og lagabreytinga. Fjvn. hefur haft visst starf milli þinga í að kynna sér ákveðin mál en hins vegar hafa fjárveitinganefndarmenn ekki haft umboð.
    Það getur verið nauðsynlegt ef þessi löggjöf nær fram að ganga að gera ýmsar ráðstafanir til þess að störf hér í þinginu gangi fljótar og skilvirkar fyrir sig. Ein þingdeild verður miklum mun stærri heldur en þær deildir sem starfa núna. Þau drög að lagabreytingum um þingsköp sem fylgja hér í fylgiskjali gera ráð fyrir ýmsum breytingum í þessa átt. Ég hef ekki lesið þau eða kynnt mér til hlítar, en við fljótan yfirlestur eru ýmis atriði þar sem horfa til mikilla bóta, að ég hygg. Þar verður að þræða hinn gullna meðalveg. Það er varasamt að hefta málfrelsi þingmanna um of, en í þeim efnum verður þó að gá að því að góðar, réttlátar og fastmótaðar reglur sem er framfylgt vel í þingstörfum tryggja best lýðræði og þingræði jafnvel þó að hver þingmaður geti ekki haldið ræður hér ótakmarkað. Ótakmarkaður ræðutími og langar ræður hefta málfrelsi einhverra annarra þingmanna. Það þekkjum við frá þingstörfum í gegnum árin og er ég hvorki að ásaka neinn sérstakan þingflokk né sérstaka þingmenn í þessu efni, hvorki stjórn né stjórnarandstöðu. Það getur verið nauðsynlegt að takmarka ræðutíma til þess að tryggja greiðan og réttlátan framgang mála hér í hv. Alþingi.
    Aðalerindi mitt hingað í þessa 1. umr. málsins er að undirstrika að það þarf að lyfta nefndastarfinu hér á Alþingi og þingmenn þurfa að leggja á það mikla áherslu að vinna vel í nefndum. Og ég tel að þessi breyting, að fækka nefndunum, og breytingin úr tveimur deildum í eina deild, sé nauðsynlegur grundvöllur að því að hægt sé að styrkja nefndastarfið í sessi, en það að styrkja nefndastarfið í sessi er grundvöllur að vandaðri löggjöf héðan frá hv. Alþingi. Löggjafarstarfið er nú einu sinni undirstaðan í störfum hér en því miður vill það oft falla í skuggann af öðrum þingstörfum sem njóta meiri athygli. Má þar nefna utandagskrárumræður og þingskapaumræður sem meiri fréttaflutningur er af heldur en af löggjafarstarfinu sjálfu sem er þó aðalverkefni þingsins.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál frekar nú. Ég mun reyna að gera mitt til þess að það fái vandaða meðferð í þingnefnd. Það skiptir mjög miklu máli að fá þar sem flest sjónarmið að. Ég tel að þessi breyting á þingstörfum, á stjórnarskipunarlögum sé tímabær og miði í þá átt að gera störfin hér skilvirkari og vandaðri en það er forgangsmál og það takmark sem þetta frumvarp á að stefna að.