Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði hér áðan að hér er um að ræða úrslitaþátt í öllu öryggiskerfi landsmanna, úrslitaþátt sem Ríkisútvarpið ber og Alþingi og ríkisstjórn. Og það er athyglisvert að það eru ekki nema fáeinir sólarhringar síðan þetta mál var hér til meðferðar á hv. Alþingi, þ.e. í fyrirspurnatíma 31. jan. og þar komst ég m.a. þannig að orði, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef nýlega rætt við útvarpsstjóra, Markús Örn Antonsson, og framkvæmdastjóra tæknisviðs, Eyjólf Valdimarsson, um þau mál sem hér um ræðir og um að það verði gerð sérstök áætlun um uppbyggingu, endurnýjun og viðhald á dreifikerfi Ríkisútvarpsins með hliðsjón af því að við gerum ráð fyrir að á einhverju árabili, þremur, fjórum, fimm árum eða svo, verði farið í heildarendurbætur á þessu kerfi. Auðvitað fyrst og fremst af öryggisástæðum vegna þess að það ástand sem uppi er í þessum efnum með langbylgjustöðina á Vatnsenda svona lélega er í raun og veru gjörsamlega óverjandi og gjörsamlega óþolandi að horfa upp á ganga fyrir sig eins og það hefur verið.``
    Ég hygg að um þetta mál hafi efnislega verið samstaða hér á hv. Alþingi mjög lengi þó svo menn hafi því miður ekki séð sér fært að ákveða fjármuni sem nægilegir eru í þessu skyni.
    Í tilefni af þeirri fyrirspurn sem hér er borin fram og þeim atburðum sem hafa orðið vil ég hins vegar taka fram eftirfarandi, virðulegi forseti:
    Ógæfuspor í þessu efni var stigið með því að svipta Ríkisútvarpið föstum tekjustofnum af aðflutningsgjöldum sem áttu að renna til endurbóta á þessu kerfi. Það gerðist fyrst árið 1987, en þá runnu í ríkissjóð frá Ríkisútvarpinu með þessum hætti 357,8 millj. kr., 1988 120,6 millj. kr., 1989 147,1 millj. kr. sem með þessum hætti rann í ríkissjóð frá Ríkisútvarpinu. Það liggja ekki fyrir tölur um það hversu háar upphæðirnar eru á árinu 1990, en samtals er hér um það að ræða að frá Ríkisútvarpinu hafa runnið til ríkissjóðs á þremur árum, 1987 -- 1989, 625,5 millj. kr.
    Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 sem enn liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir því að halda áfram skerðingu á þessum tekjustofni Ríkisútvarpsins. Ég hygg að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að sú ákvörðun sem við höfum staðið að verði nú endurskoðuð í ljósi þeirra viðburða sem áttu sér stað um helgina. Viðbrögðin sem við munum hafa uppi í þessu efni eru sem hér segir, virðulegi forseti:
    1. Ég mun ræða þau mál við Póst og síma og samgrn., hvort unnt er að þessir aðilar taki beinan þátt í þeim endurbótum sem verður að taka ákvörðun um núna.
    2. Með hvaða hætti verður staðið að endurskoðun lánsfjárlaganna þannig að þeir fjármunir sem samkvæmt þeim eiga að renna til ríkissjóðs renni til Ríkisútvarpsins.
    3. Ég mun leggja sérstakar tillögur um þetta mál fyrir ríkisstjórnarfund í fyrramálið þar sem hæstv.

forsrh. mun leggja fyrir skýrslu um tjónið af óveðrinu í heild.
    Ríkisútvarpið skrifaði mér bréf um þessi mál í dag, en ég hafði fjallað um þau á sérstökum fundi í ráðuneytinu kl. 9 í morgun og ég vil leyfa þingheimi að heyra þetta bréf Ríkisútvarpsins, það er örstutt og er á þessa leið:
    ,,Sendingar langbylgjustöðvarinnar á Vatnsenda liggja nú niðri eftir að annað mastranna sem héldu uppi sendiloftnetinu féll til jarðar í gær. Nú stendur yfir könnun á því hvort mögulegt sé að koma einhverjum sendingum í loftið á ný til bráðabirgða með því að nota mastrið sem eftir stendur til að bera hæfilegt loftnet. Alls óvíst er hvort þetta er unnt en það skýrist á næstu dögum eða vikum. Ástand mastursins verður rannsakað og úr því skorið hvort þorandi sé að láta það standa til þessara nota. Á Vatnsenda er enn hættuástand vegna hættu á falli mastursins.``
    Svo mörg voru þau orð í þessu bréfi Ríkisútvarpsins til mín sem skrifað var í dag 4. febrúar 1991.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi með þessu svarað fyrirspurn hv. þm. og vænti þess jafnframt að þingheimur taki vel þeim tillögum sem lagðar kunna að verða fyrir um úrlausn á þessu alvarlega máli.