Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er hér rætt. Það er mikið hagsmunamál margra að hraðað verði endurbyggingunni við Vatnsenda þannig að bæði sjómenn og aðrir séu í því sambandi sem þeir þurfa að vera í.
    Hér er um eitt mesta fárvirðri að ræða sem hefur gengið yfir landið. Það jaðrar við að það hafi verið fellibylur sem tekur til svo stórs hluta af landinu og tjónið gífurlegt. Það er varla hægt að minnast á þetta mál án þess að dást að þeim sveitum björgunarsveitarmanna, RARIK - manna og fleiri sem berjast í þessum veðurham við svo mikilvæg björgunarstörf. Það eru miklar öryggissveitir, sem leggja sig í hættu og vinna mikið gagn fyrir okkar þjóðfélag.
    Þessar miklu skemmdir hafa lent á mörgum atvinnugreinum, bæði landbúnaðinum og fleiri atvinnugreinum. Hér minntist hv. 1. þm. Norðurl. v. t.d. á gróðurhúsamenn. Það eru ekki bara gróðurhúsin sem hafa brotnað og skemmst, það er allt ræktunarstarfið sem þeir hafa hafið. --- En það sem ég vil leggja áherslu á hér í þessari umræðu er að menn gangi til þess verks, sem ég held að sé mjög mikilvægt, að endurskoða ákvæði 4. gr. laga nr. 88/1982, um viðlagatryggingu. Þar segir að hún taki einungis til tjóna af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Síðan þurfi menn að tryggja sérstaklega með foktryggingu. En svona hamfarir þurfa að koma inn í viðlagatryggingu og Alþingi á að vinna því farveg, helst á þessu þingi, að þetta gerist. Við getum hugsað okkur hús sem fýkur og stórskemmist í þessu veðri. Það eru borgaðar af því brunatryggingar og öll hús sem eru brunatryggð borga í viðlagatryggingu. En hefði það nú gerst í leiðinni að það kviknaði í húsinu, þá fékk maðurinn það að fullu bætt frá tryggingafélagi. En af því að kviknaði ekki í því um leið og það fauk, þá fær hann ekki neitt.
    Ég vil brýna ríkisstjórnina til þess að skoða þetta mál með það í huga að endurskoða ákvæði viðlagatryggingar, helst á þessu þingi.