Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl. um endurskoðun á viðlagatryggingu. Það sem ég vil koma hér inn á er það að vekja athygli á því að ríkisstjórnirnar frá 1987 til ársins í ár hafa allar ákveðið að skerða tekjustofn Ríkisútvarpsins og fresta framkvæmdum við langbylgjustöðina sem allir vissu að var á síðasta hálmstrái. Það þarf ekki að deila um það, þetta liggur ljóst fyrir. Og við afgreiðslu fjárlaga nú í ár var svarið sem fjvn. fékk við þessu atriði frá hæstv. ríkisstjórn að það ætti ekki að taka til afgreiðslu nú við afgreiðslu fjárlaga 1991. Hins vegar var ljóst þegar áður en þetta ofsaveður gekk yfir að hér var teflt á tæpasta vað og ég vil segja frá því að á fundi í fjh.- og viðskn. sem við mættum á sem varamenn tveir fulltrúar úr fjvn., á síðasta fundi vöktum við athygli á þessu, að það yrði við afgreiðslu lánsfjárlaga nú að taka tillit til þessa ástands sem þá var skapað fyrir nokkrum dögum áður en þetta veður kom og taka inn á lánsfjárlög núna afgreiðslu sem nægði til þess að undirbúa þetta mikilvæga mál sem allir eru sammála um.
    Það verður að taka á þessu núna strax. Ég tel að öryggi sjómanna á Íslandi sé stefnt í þvílíka tvísýnu ef ekki verður tekið sterkt á þessu máli að ekki verður við unað. Það er ljóst að það er ekki lengur hægt að veðja á þá heppni sem hingað til hefur fylgt okkur í 20 ár. Það verður að taka hér ákvörðun og ég skora á fjh. - og viðskn. að gera þá afgreiðslu á lánsfjárlögum. Þó að það sé óvenjulegt í sjálfu sér að slíta það frá fjárlögum, þá verður að gera það núna vegna þess ástands sem hér hefur skapast.