Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir að hefja þessa umræðu. Ég tel það hins vegar einkennilegt hvað einstakir þingmenn stjórnarliðsins eru að reyna að kosta kapps um það að kenna Sjálfstfl. um þá vanrækslu, sem orðið hefur við að leggja fram fé til endurbyggingar á möstrunum og annarrar starfsemi Ríkisútvarpsins, að kenna það Sjálfstfl. Hv. 1. þm. Norðurl. v. var hér áðan að fjalla um það að þetta væri eitthvað sérstaklega Sjálfstfl. að kenna, en var svo að viðurkenna að sjálfur hefði hann flutt tillögu og staðið fyrir því í fjh. - og viðskn. að þessi tekjustofn var tekinn af Ríkisútvarpinu. Svona málflutningur er náttúrlega ekki við hæfi þeirra atburða sem hér hafa gerst.
    Ég vil hins vegar taka undir það að nú er nauðsynlegt að safna saman upplýsingum um það mikla tjón sem orðið hefur í þessu fárviðri sem er óvenjulegt og gerist ekki nema á margra áratuga fresti að fárviðri verði með þessum hætti og valdi svo miklu tjóni um land allt.
    Ég vil einnig lýsa því að á hæstv. ríkisstjórn hvílir sú skylda að taka það til athugunar á hvern hátt verði mætt að hluta því mikla tjóni sem fjölmargir einstaklingar og aðrir aðilar hafa orðið fyrir í þessu veðri hvarvetna um landið. Þetta er sú skylda sem hvílir á stjórnvöldum og er mannlegra af hv. þm. stjórnarliðsins að taka þátt í því heldur en að vera með skæklatogi að reyna að koma sér undan því að þeir beri ábyrgð á því að fé hefur verið skert til þessara hluta, svo sem fyrir liggur að þeir bera ekki síður en aðrir ábyrgð á, nú síðast við afgreiðslu fjárlaga eins og hv. varaformaður fjvn. hefur sjálfur lýst, hvernig tekið var við skilaboðum frá ríkisstjórninni.