Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Í skýrslu Almennu verkfræðistofunnar fyrir Póst og síma árið 1978 stendur, með leyfi forseta:
    ,,Nú er það staðreynd að ryðskemmdir hafa rýrt burðarþol mastranna á Vatnsenda um a.m.k. 20% og trúlega þó talsvert meira. Þess vegna er hætta á að möstrin brotni ef vindhraði á Vatnsendahæð nær 11 vindstigum og raunar er það nokkurt undrunarefni að þau skuli enn standa uppi. Duldir gallar, t.d. ef stög eru skemmd eða boltar brotnir, auka mjög á hættuna á hruni mastranna.`` --- Á þrettánda ár er liðið síðan svo að ekki er að undra.
    En ég vil þakka hv. þm. og ráðherrum jákvæðar undirtektir. Þetta er mál sem heyrir í rauninni undir menntmrh. yfirmann útvarps, dómsmrh. yfirmann Almannavarna, samgrh. yfirmann Pósts og síma og umhvrh. yfirmann Veðurstofu, þannig að tökin ættu að vera sterk þegar á er tekið í höndum þessara ágætu manna.
    Ég fagna líka tillögu menntmrh. og það var nýtt sem kom fram í máli hæstv. samgrh. að hann mundi beita sér fyrir því að Póstur og sími tæki þátt í þessum kostnaði því að Póstur og sími hefur hingað til talið sig óskuldbundinn til þátttöku í kostnaði vegna langbylgju. En það er jákvætt og það er nýtt. ( Gripið fram í: Hann orðaði þetta nú ekki svona.) Svona mátti skilja það, að hann mundi beita sér fyrir því að Póstur og sími mundi breyta sinni fjárhagsáætlun með tilliti til þessara aðgerða.
    Ég vil einnig bera þakkir til 1. þm. Norðurl. v. þar sem hann tók undir þau orð mín að það ætti að tryggja bætur til þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni og eru ótryggðir fyrir, bændur og búalið, fólk í þéttbýli og hvar sem er á landinu.
    Ég ferðaðist um suðvesturhornið og Suðurland í gær og það er til marks um veðurhraðann að ég stöðvaði jeppa sem ég var í á Skeiðaveginum og tók tillit til sparnaðaráforma ríkisstjórnarinnar og innan skamms sigldi bíllinn áfram á 35 km hraða fyrir veðri og vindum án þess að vélin væri í gangi. Þannig var vindhraðinn í gær þegar verst lét. ( Landbrh.: Var það nákvæmlega 35?) 35 nákvæmlega. Ég fór ekki upp fyrir það.
    Ég vil líka taka undir þakkir til 1. þm. Vesturl. sem notaði orðið sem gildir í þessu efni: Strax, að framkvæma strax. Og þakka ég þingmönnum og hæstv. ráðherrum þessar jákvæðu umræður.
    Ég vona að þessi umræða hér tryggi að málið verði leitt farsællega í höfn á næstu vikum.