Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Ég fagna fram kominni till. hv. 8. þm. Reykv. Það er tímabært að stokka upp spilin í mörgum þáttum. Einn af þeim er kjaramálin og hagur heimila og einstaklinga í landinu. Hin margumtalaða þjóðarsátt, sem því miður hefur að mörgu leyti orðið að eins konar þjófasátt, hefur ruglað margt í okkar kerfi. Hún byggir á því m.a., svo sannanlegt sé, að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari og það er ekki frambærilegt í okkar þjóðfélagi. Þar koma inn í margir þættir varðandi vaxtastefnu og kjaraþróunaratriði hjá ríkisstjórninni sjálfri.
    Það er svo í dag að atvinnuleysi er allvíða. Vandamál einstaklinga með lágar tekjur eru mikil og miðað við þær kröfur sem menn telja eðlilegar í þjóðfélaginu í dag jaðrar við fátækt hjá stórum hópi landsmanna. Það er ótrúleg skattheimta sem hefur verið hjá núv. ríkisstjórn. 100 þús. kr. skattleysismörk eru spor í rétta átt, spor í rétta átt til þess að rétta hlut þeirra lægstlaunuðu öndvert við það sem hefur átt sér stað í kjarasamningum um langt árabil þar sem þeir lægstlaunuðu hafa alltaf setið aftast á merinni, jafnaftarlega og þeir voru áður ef ekki aftar. Það er því miður staðreynd og þar með kannski komin helsta leiðin til þess að tryggja raunverulegar kjarabætur fyrir þá lægstlaunuðu í þjóðfélaginu. Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram í umræðunni, að þar eru konur stærsti hópurinn. Þær vinna störf sem eru að sumu leyti hálfgerð þrælastörf, í mörgu er lýtur að fiskvinnslu sérstaklega, hrein þrælastörf, mikið álag og ekki bara púl, heldur óþolandi þrælastörf að mörgu leyti. Þetta eru staðreyndir sem menn vilja gjarnan láta líða hjá að tala um en þannig er það nú samt.
    Framgangur þessa máls gæti þannig leitt til þess að um leið og kjör þeirra lægstlaunuðu væru bætt í reynd þá fengju stjórnvöld eðlilegt aðhald til forsjálni og staðfastrar stjórnunar í landsins málum.