Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri till. sem hér er fram borin um að skattleysismörk verði miðuð við 100 þús. kr. Það mun hafa komið fram við umræðuna áðan að áætlað væri að venjulegur háskólastúdent þyrfti 80 þús. kr. til að framfleyta sér yfir mánuðinn en skattleysismörkin núna eru 57 þús. kr. Það er náttúrlega óeðlilegur munur þarna á.
    Það er þannig að fólk sem hefur 80 þús. kr. í mánaðarlaun eða 100 þús. kr. getur ekki vænst þess að eignast þak yfir höfuðið eins og nú standa sakir því að fólk með þessar tekjur getur ekki fengið fyrirgreiðslu í félagslega húsnæðislánakerfinu og það getur ekki fengið venjulegt húsnæðismálalán vegna þess að launin eru of lág. Þetta fólk er því í sjálfheldu. Ég eygi smávon um að við þessa breytingu, ef skattleysismörkin verða færð upp í 100 þús. kr., muni fólk kannski geta fengið lán úr venjulegu húsnæðislánakerfi og eignast þak yfir höfuðið. En það hefur löngum verið eitt af markmiðum íslensku þjóðarinnar að hver maður ætti öruggt þak og húsaskjól.
    Ég er ekki endilega að segja að það þurfi að vera í sama formi og verið hefur hingað til. Kaupleiguíbúðir og búseturéttaríbúðir eru líka kerfi sem eru mjög vænleg fyrir okkur venjulega borgara hér á Íslandi. En að ætlast til að fólk lifi á 57 þús. kr. er útilokað hér á Íslandi, enda reynir hver einasta manneskja sem er með slík laun að vinna miklu, miklu lengur en einfaldan vinnudag.
    Þetta veldur því að önnur till., sem ég veit að liggur hér fyrir þessu þingi, um styttingu vinnuvikunnar er líka mjög mikilvæg og mundi þjóna sama markmiði og þessi till. hv. 8. þm. Reykv. Ég álít að ef við styttum vinnuvikuna og hækkuðum skattleysismörkin þá værum við búin að ná mjög góðum áföngum til þess að gera þetta land vel byggilegt og þessa þjóð hæfa til að fást við það sem hún þarf að fást við fyrst og fremst, þ.e. að koma börnum sínum á legg og gera þau að nokkurn veginn sjálfbjarga og ánægðum einstaklingum. Eins og málin standa í dag á það fólk sem á við lægstu launin að búa, minnsta öryggið í húsnæðismálum og lengstu vinnuvikuna afskaplega erfitt með að gegna því hlutverki sem hverri þjóð er þó nauðsynlegt að sé vel rækt, þ.e. að tryggja áframhaldandi tilveru nokkurn veginn eðlilegrar og ánægðrar þjóðar í þessu erfiða og veðraríka landi sem Ísland er.
    Ég álít því að ef við gætum gert það sem ég hef nú nefnt, bæði borið gæfu til að hækka skattleysismörk, stytta vinnuvikuna og þar með aukið möguleikana á að fólk eignist þak yfir höfuðið þá gætum við annast betur börnin sem landið eiga að erfa og ekki eingöngu þau sem landið eiga að erfa, heldur líka þá sem landinu hafa skilað til okkar, þá værum við á vænum vegi. Ég vona að þessi þáltill. nái fram að ganga.