Karl Steinar Guðnason :
    Hæstv. forseti. Sú till. sem hér liggur fyrir er hugsuð þannig að það sem þá mundi gerast kæmi lágtekjufólki til góða, ekki efast ég um það. En einkum vegna þess að ég þekki hug hv. flm. Hitt er annað að mér þykir vanta útreikninga á því hvað eigi þá að koma á móti því tekjutapi sem verður af þessum völdum hjá ríkissjóði, tekjum sem þarf til að fjármagna sjúkrahús, skóla og annað. En hugsunin er vissulega mikils virði. Ég tel að svona till. þurfi að fylgja rökstuðningur fyrir því. Spurningin er líka hvort talan 100 þús. er akkúrat sú tala sem eigi að miða við eða hærra eða hvernig sem það yrði.
    Hitt er annað að það sem rak mig hingað upp er sá andstyggðartónn sem hefur komið fram hér hjá nokkrum hv. ræðumönnum í garð þjóðarsáttar eins og almenningur nefnir síðustu kjarasamninga. Það sýnir manni oft skilningsleysið á aðstæðum í þjóðfélaginu hvernig menn tala hér úr þessum stóli. Það sýnir manni hvað margur fylgist lítið með launamálum og þeirri baráttu sem láglaunafólkið í landinu hefur háð fyrir sínum kjörum. Skilningsleysi á því hvaða ástand var í landinu þegar svonefnd þjóðarsátt var gerð. Skilningsleysið á því að hér ríkti bullandi verðbólga og atvinnulífið var komið að fótum fram. Það blasti við fjöldaatvinnuleysi, vextir voru 40% og verðbólgan ósköp svipuð. Verkalýðshreyfingin ákvað að fara nýjar leiðir í kjarabaráttunni vegna þess að menn hennar sáu að þær leiðir sem notaðar höfðu verið áður höfðu ekki dugað, einkum hvað varðaði láglaunafólkið, sem alltaf hefur farið verst út úr því þegar verðbólgan hefur verið hvað mest. Fólkið sem hefur liðið mest fyrir verðbólguófreskjuna og okurvextina og annað síkt. Það er láglaunafólkið sem hefur liðið mest fyrir það. Það fólk sem talar eins og það viti ekkert um þessa hluti skynjar ekki mikið hver er vandi láglaunafólksins í landinu.
    Það er ekki nokkur vafi á því að hefði svonefnd þjóðarsátt ekki verið gerð þá væri verðbólga hér á fullri fart. Þá væru vextir a.m.k. 40% eins og var. Þá væri dýrtíð ótrúleg og ekki minni en það sem verðbólgan segði til um, auðvitað ekki, og kjör láglaunafólksins margfalt verri. Þjóðarsáttin var gerð til að stöðva það kaupmáttarhrun sem hafði orðið og byggja upp til að geta horft til nýrrar framtíðar til að geta náð þeim kjarabótum að henni lokinni sem yrði til þess að umhverfið yrði öllu betra. Sannleikurinn er sá að fyrri aðferðir höfðu ekki dugað. Þess vegna var gripið til þessa ráðs. Fjandmenn þessa eru náttúrlega fjandmenn betri lífskjara fyrir láglaunafólkið í landinu. Á því er ekki nokkur vafi.
    Hitt er annað mál að lágu launin í landinu, kjör láglaunafólksins, er nokkuð sem ekki nær nokkurri átt og úr því þarf að bæta. En við gerum það ekki með aukinni verðbólgu, með ránsvöxtum, með aukinni dýrtíð og öðru sem því fylgir. Úr má bæta, bæði með taxtahækkunum, skattabreytingum og ýmsum félagslegum aðgerðum. Vandi þeirra sem hafa staðið í því að berjast fyrir betri hag láglaunafólksins hefur verið

sá að hafi fengist eitthvað sérstaklega fyrir láglaunafólkið þá hafa hinir komið á eftir, grimmir sérhagsmunahópar og aðrir, sem margur hver innan þingsala hér tekur undir með og segir: Allt í lagi. Þið eigið að fá allt ykkar. Jafnvel þó krafist sé miklu meira heldur en láglaunafólkið hafði fengið. Það er vandinn í hnotskurn að þeir sem ofar hafa verið settir í launakjörum hafa ekki viljað una því að þeir sem eru lægst launaðir fengju kjarabætur.
    Ég kom hingað til að lýsa andstyggð minni á málflutningi þeirra hv. þm. sem leggjast gegn þeirri tilraun sem nú er gerð, m.a. til þess að bæta kjör láglaunafólks í landinu með lækkun verðbólgu, með lækkun vaxta, með stöðugu verði á landbúnaðarafurðum t.d. og öðru vöruverði. Það hefur ekki allt tekist en flest af því hefur gengið upp. Ég vil undanskilja hv. flm. þessarar till. þeirri andstyggð sem ég hef á þeim málflutningi sem hér kom fram en taldi ástæðu til þess að láta hana í ljós.