Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem aðeins til að taka undir með hv. flm. þeirrar till. sem hér er til umræðu. Ég vil þó ekki segja að sú upphæð sem hér er lagt til að verði innan skattleysismarka, 100 þús. kr., sé hin eina rétta. Hitt er víst að það er sú upphæð sem hver fjögurra manna fjölskylda í landinu þarf til framfærslu og dugar varla til.
    Á þessu ári renna út samningar, þjóðarsáttin svokallaða. Þróun launamála á því tímabili sem þá rennur út hefur verið neikvæð,
kaupmáttur launa hefur minnkað en kjörin e.t.v. verið á núlli. Það er þó svo að enn er til nokkuð stór hópur þjóðfélagsþegna sem ekki nær tekjum upp í núgildandi skattleysismörk. Það er sá hópur sem sérstaklega þarf að huga að í komandi samningum. Hækkun skattleysismarka þarf einnig að koma til eins og lagt er til í þessari till. til þál. Hækkun skattleysismarka kostar sitt fyrir ríkiskassann og verður að mæta því á öðrum sviðum. Þá kemur til kasta þingmanna um forgangsröðun verkefna í ríkisfjármálum. Ef hugur fylgir máli hjá þingmönnum um það að hækka skattleysismörkin þýðir það samdrátt í framkvæmdum á vegum ríkisins en sá samdráttur þarf ekki endilega að koma fram í niðurskurði á framlögum til skóla, heilsugæslu eða sjúkrahúsa eins og oft er talað um. Ef nefndur er niðurskurður hér í þessum ræðustól, þá er upptalningin ævinlega þessi: Vilja menn ekki sjá skólakerfið í lagi, heilsugæslukerfið eða sjúkrahúsin? --- Það er einfaldlega forgan gsröðun verkefna sem ræður hverju sinni, ekki bara hjá ríkisstjórn heldur líka hjá Alþingi. Það reynir á það þegar þingmenn þurfa að taka á málum sem þessum, að hækka skattleysismörkin og mæta því með niðurskurði verkefna hjá ríkinu, hvar menn vilja helst skera niður til að mæta þeirri skerðingu. Og ég held að þó það séu mjög mörg verkefni sem við metum ákaflega mikils, eins og gatnagerð, það að bora í gegnum fjöll o.fl., þá séu það kjör fólksins og afkoma fjölskyldna sem þurfa að hafa forgang og síðan látum við önnur verkefni koma á eftir.
    Ég tek undir það með flm. að þetta mál þarf að skoða og hefja undirbúning að lagasetningu og öðrum þeim ráðstöfunum sem þarf að gera, tillögum um niðurskurð til að mæta tekjutapi ríkissjóðs. Þá reynir á hvort þingmenn vilja hækka skattleysismörkin, tryggja kjör þeirra sem minnst hafa.