Útvarpslög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég fæ ekki orða bundist þó þessi málaflokkur heyri nú ekki undir mig í ríkisstjórninni en ég sé að menntmrh. er hér í deildinni og veit ég að hann mun fylgjast með umræðum hér af miklum áhuga. Hér er um að ræða mál sem hefur komið upp á borð til okkar núna nýverið og er reyndar sorglegt til þess að vita að það þurfti stórstyrjöld til þess að við vöknuðum af værum blundi og færum að íhuga þessi mál og velta þeim fyrir okkur af nokkurri alvöru.
    Ég hef verið áhugamaður um að ná hingað erlendum sjónvarpssendingum með aðstoð gervitungla allt frá árinu 1982 en þá voru fyrstu tunglin sett á loft sem buðu upp á þann möguleika að það væri hægt að nýta sér sjónvarpssenda í slíkum tunglum og ná geisla þeirra hér til móttöku á Íslandi. Tilraunir hófust þegar á árunum 1982 til 1985 um að ná þessum geislum og var sýnt að það mundi hægt með þeim búnaði sem þá var völ á. Síðan komu ný útvarpslög til sögunnar 1985 og þrátt fyrir allt tal um það að með tilkomu nýrra útvarpslaga skyldi frjálsræði í útvarpsmálum landsmanna aukið til muna og opnað fyrir tilkomu sjálfstæðra útvarpsstöðva, þá gerðist það að þar var stigið stórt skref aftur á bak hvað varðar möguleika einstaklinga til þess að bindast samtökum um að ná erlendum útvarps- og sjónvarpsmerkjum til dreifingar um lokuð kerfi. Fyrir 1985 hefði engum manni dottið í hug að amast við því að einstaklingar byndust félagssamtökum til þess að ná slíkum merkjum sem þarna skyndilega var mögulegt að ná í utan úr himingeimnum. Þannig var með nýjum útvarpslögum 1985 stigið stórt skref aftur á bak, skref í átt til afturhalds í þessu máli. En í tengslum við útvarpslögin var sett reglugerð sem í raun fyrirmunaði og kom í veg fyrir alla þróun sem hefur hins vegar verið á fullu í nágrannalöndunum, þ.e. að leggja strengkerfi til þess að auðvelda einstaklingum að ná merkjum erlendra útvarps- og sjónvarpsstöðva sem völ er á, a.m.k. í Evrópulöndunum og reyndar núna frá öllum heiminum.
    Ég efast ekkert um tilgang þeirra sem settu þessar reglugerðir og þessi lög. Þeir voru í góðri trú. Þeir töldu að með þeim hætti væri staðinn vörður um íslenska tungu. Og ég efast ekkert um það að þeir sem voru þarna að verki hafi trúað því einlæglega að það þyrfti einhverjar slíkar varnir til þess að vernda tunguna. Hins vegar held ég þegar betur er að gáð að hér sé um ranga hugsun að ræða. Íslenskt mál og íslensk tunga verður ekki vernduð með þeim hætti sem þarna var lagt til. Ég hef oft bent á það áður að til þess að standa vörð um íslenska tungu þarf að efla kennslu í skólum landsins. Það þarf að sinna íslenskukennslunni miklu betur en mér virðst gert vera á þessum árum. Ég hef verið að rifja það upp þegar ég sjálfur gekk í skóla og nam íslensku á sínum tíma. Þá var agi í hernum. Þá var gengið hart eftir því að nemendur sinntu íslenskunáminu í skólunum. Við vorum rekin í gegnum stranga kennslu, stafsetningaræfingar og margt fleira. Allt þetta virðist mér vera horfið í skólum

landsins í dag. Það er ekki lengur agi í hernum og þar er kannski ástæðan fyrir því, að það er eins og kannski hafi komið pínulítið los á íslenskukunnáttu landsmanna, og af þeim sökum er íslenskunni ef til vill meiri hætta búin af erlendum áhrifum en ella. Það væri hins vegar miklu betra og öruggara að stoppa upp í þetta gat í varnarmúrnum frekar en að meina landsmönnum að horfa á erlendar sjónvarpssendingar.
    Ég er nú sjálfur svo heppinn að vera aðnjótandi þess að geta horft á erlendar sjónvarpssendingar að vild þar sem ég hef komið mér upp rándýrum búnaði til að ná þessum merkjum. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvaða áhrif þetta hafi haft á íslenskukunnáttu fjölskyldunnar í heild sinni. Nánast engin. Hins vegar hefur þetta haft þau áhrif að fjölskyldan er farin að læra heilmikið í hollensku vegna þess að
ein þeirra stöðva sem völ er á utan úr geimnum er stöðin RTL 4 sem er hollensk og sendir útsendingar sínar hingað til lands um gervitungl. Þar er mikið um engilsaxneskt myndefni að ræða sem er með upprunalegu tali en með hollenskum undirtextum. Kemst ég ekki hjá því þegar farið er að horfa á þetta dagskrárefni, þá smám saman byrja ég að lesa hollenska undirtextann og það vill svo til skyndilega að við í fjölskyldunni erum farin að læra heilmikið í hollensku. Þetta er mjög athyglisvert, en ég hef ekki orðið var við að það hafi brenglað íslenskukunnáttuna.
    Það er margt fleira sem mætti segja um þetta. Það er þó eitt sem mér finnst mjög athyglisvert. Hví í ósköpunum er einstaklingi leyft að setja upp búnað til að horfa á þessar stöðvar en félagsskap einstaklinga ekki leyft að setja upp sams konar búnað? Hvernig fer það saman? Ég fæ ekki skilið hvernig það dæmi gengur upp að félagsskap einstaklinga sé meinað að gera það sem einstaklingi leyfist. Síðan spyr ég: Hvers á íbúi t.d. á Ólafsfirði að gjalda sem ekki undir neinum kringumstæðum getur keypt sér búnað og sett upp á heimili sínu til þess að sjá og ná í þessar sendingar þar sem bærinn liggur þannig í landinu að fjallahringurinn kemur í veg fyrir að geislar þessara erlendu sjónvarpsstöðva náist til Ólafsfjarðar? Það er engin önnur leið að leysa það ef íbúar Ólafsfjarðar vilja horfa á slíkt efni en að gera það með sameiginlegu strengkerfi þannig að það verði komið upp loftneti einhvers staðar langt uppi í hlíðum fjallanna við Ólafsfjörð og síðan þarf að leggja um 1500 metra langan kapal með tilheyrandi mögnunarbúnaði til þess að hægt sé að ná merkinu inn til kaupstaðarins. Því spyr ég: Hvers vegna eru settar reglur sem heimila íbúum á tilteknum stöðum á landinu að horfa á þessar sendingar en íbúum annarra staða er meinað þetta af þessum sökum, að þeir mega ekki bindast samtökum um að leysa það tæknilega vandamál sem er því samfara að ná þessum merkjum? Það er svo margt í þessu sem ekki gengur upp að ég held að það hljóti að vera kominn tími til að endurskoða þessi mál og viðurkenna einfaldlega þá staðreynd að íslenskt mál og íslensk tunga verður ekki varin með því að meina landsmönnum að horfa á þessar erlendu gervitunglasendingar.
    Síðan vil ég koma að öðru atriði sem mér finnst líka skipta máli í þessari umræðu, en það er þessi skýri greinarmunur sem ég vil gera á milli lokaðra strengjakerfa þar sem áskrifendur fá tækifæri til þess að horfa á sendingar sem er dreift viðstöðulaust um móttökustöð sem sendir merkin inn á kapalkerfið án þess að þar fari fram nokkur dagskrárgerð eins og á venjulegum útvarpsstöðvum. Kapalkerfi er að mínum dómi ekki útvarpsstöð. Hér er aðeins um að ræða stærra loftnetsdreifikerfi heldur en hingað til hefur tíðkast, en við þekkjum mjög vel loftnetsdreifikerfi í fjölbýlishúsum. Loftnetsdreifikerfi fyrir heila bæjarhluta eða heilu bæjarfélögin eru ekkert annað en framlenging á loftnetsdreifikerfi fjölbýlishúsa. Þess vegna er fáránlegt að fara að tala um það að lokað strengjakerfi, sem dreifir viðstöðulaust útvarps - og sjónvarpsmerkjum sem eru komin um móttökustöð slíks kerfis, eigi eitthvað skylt við útvarpsrekstur. Hins vegar er útvarpsstöð sem hefur fengið tilskilið útvarpsleyfi og er með dagskrárgerð allt annar handleggur og þess vegna vil ég gera þann greinarmun sem reyndar kemur fram í því frumvarpi sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson var að tala fyrir hér áðan. Þar er gerður einmitt þessi greinarmunur að skilgreining á útvarpsstöð er stöð þar sem dagskrárgerð fer fram, en útvarpskerfi eða loftnetskerfi sem einungis dreifir viðstöðulaust útvarps - og sjónvarpsmerkjum án þess að þar fari fram nokkur dagskrárgerð er ekki útvarpsstöð í skilningi þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar.
    Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að útvarpsstöð sem vill standa undir nafni og er með dagskrárgerð eigi að þýða eða texta allt það efni sem hún sendir út. Þess vegna er það mikil hugsanavilla að heimila Stöð 2 og reyndar ríkissjónvarpinu að dreifa hér dagskrárefni erlendra sjónvarpsstöðva ótextuðu. Ég tel að það sé í andstöðu við anda þessarar hugsunar sem ég hef verið að tala fyrir hér að útvarpsstöð sem hafi útvarpsleyfi eigi ekki undir neinum kringumstæðum að dreifa útvarps - og sjónvarpsefni ótextuðu eða óþýddu.
    Það má t.d. benda á að ein þeirra þýsku sjónvarpsstöðva, sem dreift er um gervitungl sem næst hér á landi, hefur tekið upp á því sama og Stöð 2, að dreifa bandarísku sjónvarpsrásinni CNN. En hún gerir það með allt öðrum hætti, sem ég tel að sé til fyrirmyndar, því að þýska stöðin rýfur útsendinguna á 30 mínútna fresti og þá eru fréttirnar endursagðar á þýsku. Það er hvað eftir annað látið renna yfir sjónvarpsskerminn að eftir svo og svo margar mínútur muni koma þýsk endursögn á fréttunum. Þannig væri hugsanlegt að heimila íslenskum sjónvarpsstöðvum að dreifa þessu efni, en ég tel þó betra að dreifa einungis slíku sjónvarpsefni um strengjakerfi til áskrifenda en að meina sjónvarpsstöðvum sem hafa tilskilin útvarpsleyfi og eru með dagskrárgerð að senda slíkt efni frá sér óþýtt eða ótextað. Þar á að gera mun á og ég get fyrir mitt leyti ekki fallist á það sjónarmið að það sé eðlilegt að Stöð 2 og ríkissjónvarpið hafi fengið leyfi til þess að dreifa þessu sjónvarpsefni án þess að það fái nokkra meðhöndlun, nokkra endursögn eða

nokkra þýðingu þannig að fólk geti ekki fengið að fylgjast með þessu sem ekki kann enska tungu.
    Ég gat ekki látið hjá líða, virðulegur forseti, að fá að taka hér til máls því að þetta hefur verið áhugamál mitt lengi. Ég tel að við höfum farið inn á villigötur, við höfum komið í veg fyrir eðlilega, tæknilega framþróun hér á landi sem alls staðar annars staðar hefur verið mjög hröð. Við höfum komið í veg fyrir að hér gætu myndast boðveitukerfi og það væri hafin notkun hér á ýmsum þeim möguleikum sem fjarskiptatækni nútímans býður upp á vegna þessa fáránlega ákvæðis sem kemur í veg fyrir að hægt sé að hvetja menn til að koma upp fullkomnum strengkerfum hér sem yrðu síðan boðveitukerfi framtíðarinnar.
    Ég skora því á hæstv. menntmrh. að taka þessi mál upp til gagngerrar endurskoðunar og fara þar að ákvæðum sem lagt er til að verði sett inn í lög í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.