Almenn hegningarlög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. það til laga um viðauka við almenn hegningarlög sem hér er til umræðu.
    Það er svo að á síðari árum hefur staða refsivistar í viðurlagakerfinu verið mikið til umræðu um gjörvalla Vestur - Evrópu. Sú stefna hefur verið ríkjandi að draga beri úr notkun óskilorðsbundinnar refsivistar eins og mögulegt er. En þá þarf að finna önnur úrræði í staðinn. Samfélagsþjónusta er eina nýja viðurlagategundin sem náð hefur almennri útbreiðslu. Hún hefur nú verið tekin upp sem varanlegt úrræði eða til reynslu með einum eða öðrum hætti í öllum ríkjum Vestur - Evrópu nema fjórum auk Íslands. Það má því segja að það sé kominn tími til að við förum að gefa þessu máli gaum.
    Ýmis rök eru færð fyrir því að rétt sé að draga úr lengd refsivistar. Sérstaklega hafa fjögur atriði verið nefnd sem röksemdir fyrir að draga úr fangelsun. Í fyrsta lagi má nefna mannúðarsjónarmið. Í öðru lagi má velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn með frjálsræðissviptingunni. Í þriðja lagi hefur verið bent á að meiri hluti fanga afplánar dóma fyrir auðgunarbrot og í fjórða lagi hefur verið bent á að refsivist er dýr kostur fyrir þjóðfélagið.
    Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessu máli er hreyft hér á hv. Alþingi. Ég hef hér undir höndum þáltill. frá 1986 um samfélagsþjónustu sem úrræði í viðurlagakerfinu. Hún var flutt af Kristínu S. Kvaran ásamt fjórum öðrum alþingismönnum.
    Þá má spyrja: Hvað er samfélagsþjónusta? Það má skilgreina samfélagsþjónustu með þeim hætti að hún sé ein tegund viðurlaga við afbrotum sem felst í því að á brotamann er lögð sú skylda að vinna ákveðinn tímafjölda launalaust og í frítíma sínum að verkefnum sem koma þjóðfélaginu að gagni. Það sem hefur ýtt sérstaklega á menn að gefa þessu máli gaum er það almennt séð að yfirfull fangelsi í öðrum löndum hafa leitað á hugi manna og fengið þá til þess að hugsa um hvort ekki væri tiltakanleg önnur viðurlög við afbrotum og stjórnvöld í ýmsum löndum hafa leitað ódýrari lausna. Mannúðarsjónarmið og sparnaður hafa þannig orðið tvær hliðar á sama máli. Hér á landi hefur föngum fjölgað verulega síðustu tvo áratugi. Nú eru um 100 manns að jafnaði á dag í afplánun. Þótt föngum hafi fjölgað hér á landi hin síðustu ár eru Íslendingar með einhverja allra lægstu fangatölu sem þekkist í Vestur - Evrópu.
    Það má margt um þetta mál segja. Samfélagsþjónusta, sem svo er nefnd, hefur verið tekin upp á öllum Norðurlöndum nema Finnlandi. Það er skilyrði fyrir samfélagsþjónustu að dómþoli samþykki að þessu úrræði sé beitt og er það auðvitað skiljanlegt þegar málin eru hugleidd. Mér er kunnugt um að í Noregi er talinn vera mikill sparnaður af þessu árlega, bæði í rekstri fangelsa beint og óbeint.
    Með frv. sem hér er lagt fram og hefur verið talað fyrir er lagt til að gerð verði tilraun með samfélagsþjónustu hér á landi. Með hliðsjón af því að fangarými er næstum fullnýtt nú þykir ekki raunhæft að gera ráð fyrir að þetta form lækki kostnað við rekstur fangelsa svo neinu nemi í það minnsta í fyrstu. En forsenda þess að heimilt sé að breyta refsivist dóms í samfélagsþjónustu er að sjálfsögðu að almannahagsmunir mæli ekki gegn því. Þess vegna koma hér mörg atriði til íhugunar og skoðunar. Ef þetta frv. verður að lögum er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. maí 1992 og gildi til 31. des. 1995, þ.e. séu tímabundin.
    Ég tel að hér sé hreyft merkilegri hugmynd sem þarf að sjálfsögðu að skoðast vel og vandlega. Mér finnst að hún geti mjög vel komið til greina hér á landi ef rétt er á málum haldið. Að sjálfsögðu er að þessu nokkur aðdragandi því að ekki hefur verið gert ráð fyrir kostnaði af þessu tagi í fjárlögum þessa árs. Það ræðst því ekki fyrr en um næstu áramót hvort nauðsynlegt fjármagn fæst til þess að koma samfélagsþjónustu á fót. En ég endurtek að ég tel að hér sé hreyft það merkilegri hugmynd að full ástæða sé til þess að málið verði vandlega athugað á þessu þingi.