Mannanöfn
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Sigrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil að svo stöddu vekja athygli á einu atriði þessa frv. en það felst í 9. gr. frv. um kenninöfn og ég geri það að gefnu tilefni. Þar kemur fram, eins og kom líka fram hjá hæstv. ráðherra, að hver maður getur aðeins haft eitt ættarnafn. Gætt hefur þeirrar tilhneigingar undanfarið að
foreldrar kenni börn sín við bæði föður og móður, stúlka sé t.d. Jóns- og Kristínardóttir eða karlmaður, drengur, Aðalheiðar- og Magnússon. Oftast stytta börn annað kenninafnið og nota aðeins einn bókstaf en þau heita þessum nöfnum engu að síður og það gerir þeim auðveldara seinna meir að velja hvort nafnið þau vilja. Það hafa fjölmargar konur haft samband við okkur kvennalistakonur og lýst yfir óánægju með það að koma eigi í veg fyrir þennan möguleika, að foreldrar geti kennt börn sín við báða foreldrana og gefa börnunum síðar auðveldara val.
    Að svo stöddu vildi ég aðeins gera þessa einu athugasemd, eins og ég segi, að gefnu tilefni.